(Erindi flutt á náttúrulækningadegi, 24. september 1978)
Hver er sú mynd er við okkur blasir í dag þegar litið er á nútíma tæknivæddan búskap? Það er einhæf ræktun, tilbúinn áburður, mjólkur-, kjöt- og eggverksmiðjur. Lyf til eyðingar illgresis og sjúkdóma. Allt er þetta til þess gert að fá sem mest í pyngjuna með sem minnstum tilkostnaði.
Hverjar eru svo afleiðingar þessa verksmiðjubúskapar?
Aukin jarðvegseyðing, mengun af völdum áburðar og lyfja, aukning sjúkdóma í gróðri og húsdýrum.
Orsakanna til þessa má rekja til nútíma efnishyggju, byggða á vísindum sem rýna inn í smæstu einingar efnisins, en hafa misst sjónar á heildinni, sjá ekki skóginn fyrir trjánum.
Jarðvegurinn er ekki bara dautt efni, sem hægt er að fara með hvernig sem okkur sýnist, heldur verðum við að umgangast hann eins og lifandi veru, sem hann og er.
Austurríkismaðurinn Rudolf Steiner, upphafsmaður hinnar bíódynamisku ræktunar, benti fyrir meir en 50 árum á þá hættu sem fylgir nútíma ræktunaraðferðum, og einnig á hvaða leiðir væru til úrbótar í þeim málum: safnhaugagerð, hvatar og að taka tillit til hinna kosmisku sveiflna.
Hann benti á að skortur á skilningi á hlutverki hins andlega í alheiminum, hins andlega viðhorfs mannsins til náttúrunnar, hlutverki alls sólkerfisins í heildarmyndinni, væri orsökin fyrir afturför þeirri sem átt hefir sér stað.
Jörðin er ekki bara dauður klumpur í alheiminum, sem hægt er að skoða sem einangrað fyrirbæri, heldur lítill hluti af einni stórri heild, þar sem hver stjarna, sól og máni gegna sínu ákveðna hlutverki.
Fræið er við leggjum í jörðu fær þar skilyrði til að spíra, jurtin að teygja sig upp fyrir yfirborðið til að mæta þar lífsafli er streymir til jarðarinnar frá alheiminum. Líkt og í líkama okkar eru í jörðinni steinefnin innvafin í lífsstarfsemi; venjulegar efnagreiningar sýna minnst af þessu, en ég kem að því atriði síðar.
Annað grundvallaratriðið er sem sé líf; að gefa jarðveginum næringu, að bæta jarðveginn er að auðga hann lífi.
Sérhvert efni, sem bætt er í jarðveginn, þarf því að umbreytast í lífskraft, og það er hlutverk safnhaugsins, með aðstoð hvata úr jurta- og dýraríkinu. Árangurinn er lífgefandi næring fyrir jarðveginn, til að hann geti veitt þeim gróðri, er í honum vex, möguleikann að opna sig fyrir hinum kosmisku öflum, svo sem sólarljósinu o.fl. Þessar jurtir verka síðan á manninn er neytir ávaxta jarðarinnar, og auka hæfileika hans til skapandi og uppbyggjandi hugsunar. Þau öfl sem þar eru að verki, mætti nefna lifandi formkraft og eru virk í vexti plantna, dýra og ekki síst í manninum gegnum eterlíkama hans og hafa á þann hátt áhrif á hæfileika hans til að hugsa.
Jafnvægið er eitt af grundvallaratriðunum í þessu sambandi. Í alheiminum ríkir jafnvægi, jafnvægi milli himintunglanna í sólkerfinu. Jafnvægi milli árstíða, jafnvægi í vexti plantna, milli dags og nætur. Í búskap náttúrunnar ríkir einnig jafnvægi, að vísu eru ákveðnar sveiflur á þessu jafnvægi, en þær eru einnig hluti af því. Allt hefir sinn ákveðna takt, andardráttur, hjartsláttur, dagur og nótt, vetur og sumar.
Í náttúrlegu umhverfi styrkir ein planta aðra, bætir upp það sem hin tekur. Ein er sérhæfð til að vaxa í eyðimörk, önnur er vatnajurt. Landbúnað og reyndar alla ræktun verður að líta á sem lifandi veru, þar sem gróðurinn, dýrin og maðurinn lifa í nánu sambandi sín á milli og við alheiminn. Hér vinnur jarðyrkjumaðurinn sem listamaður, viðfangsefnið er náttúran, en til að það sé hægt þarf að þekkja þau lögmál sem þar ríkja.
Þetta eru í stuttu máli þau atriði er liggja til grundvallar bíódynamiskri ræktun.
Á hvern hátt er svo hægt að vinna eftir þessum hugmyndum? Með því að byggja upp heilbrigði nytjajurtanna. Aðalatriðin í því er safnhaugagerðin, sáðskipti, að ein og sama tegund sé ekki ræktuð lengi á sama stað heldur skiptist á. Sá og uppskera á réttum tíma; þar kemur gangur himintungla inn í dæmið. Rækta saman tegundir sem styrkja hver aðra og hagnýta á þann hátt eiginleika hverrar tegundar fyrir sig. Vinna jarðveginn á réttan hátt og á réttum tíma. Leita og læra af náttúrunni um varnir gegn sjúkdómum og sníkjudýrum.
Tilgangurinn er að framleiða gæðavöru er geti gegnt hlutverki sínu sem næring fyrir manninn.
Þá er komið að þessu óljósa hugtaki, gæði. Hvað er gæði? Eru gæði aðeins að uppskeran sé falleg? Nei, varla dugir það til. Laus við skaðleg efni? Já, ekki sakar það.
Gæði eru það að plönturnar séu heilbrigðar, geti staðist árásir sjúkdóma og sníkjudýra án þess að grípa þurfi til sterkra lyfja, og geti þjónað hlutverki sínu sem næring.
Hvernig er nú hægt að rannsaka gæðin?
Þau birtast á ýmsan hátt: Í útliti, lögun og lit. Í ilmi, því að hver ávöxtur hefir sinn sérstaka ilm, og það sýnir sig, að með réttum ræktunaraðferðum eykst ilmur þeirra. Í bragði; matjurtirnar fá sitt rétta bragð. Og síðast en ekki síst í lífskraftinum sem kemur m.a. fram í auknu geymsluþoli. Einnig kemur munur fram í efnainnihaldi, í stórum dráttum, en þó ekki eins mikill og ætla mætti.
Til að kanna gæðin nægir ekki aðeins venjuleg efnagreining. Efnagreining getur sagt manni ýmsa hluti, en ekki allan sannleikann. T.d. er efnafræðilega séð enginn munur á lifandi manni og líki, en við vitum öll að talsverður munur er þar á. Lífskrafturinn hefir dregið sig til baka frá efnislíkamanum.
Nýjar rannsóknaraðferðir þarf, og þær eru til. Safi úr jurtum er látinn kristallast út í koparklóríði við sérstök skilyrði, og þar formar lífskraftur plantnanna ákveðið mynstur er minnir á frostrósir; hver tegund hefir sitt ákveðna mynstur. Séu þær ræktaðar með bíódynamiskum aðferðum kemur þetta mynstur greinilegar fram en ella, sem öflugt lifandi form; en það sem ræktað er með venjulegum aðferðum gefur dautt og stirðnað mynstur, er líkast því er matvæli sem byrjuð eru að skemmast mynda. Á þennan hátt er hægt að lesa heilbrigði afurðanna.
S.l. 20 ár hafa farið fram umfangsmiklar samanburðartilraunir í Järna í Svíþjóð og enn lengur í Þýskalandi og Sviss. Niðurstöður Nordisk forskningring í Järna sýna ótvírætt yfirburði bíódynamiskrar ræktunar yfir venjulega kemiska ræktun, sérstaklega er varðar heilbrigði og aukið geymsluþol. Sé tekið dæmi um kartöflur, þá hefir uppskerumagnið verið um 17% meira í venjulegri ræktun, en sá munur jafnast út við flokkun; rýrnun við geymslu er mun meiri í venjulegri ræktun, og sé reiknað með því sem á þennan hátt tapast, er eftir nálægt 10% meira af bíódynamisku kartöflunum þegar kemur fram í apríl.
Í Þýskalandi hafa tilraunirnar einkum beinst að sáðtímum og afstöðu tunglsins og að áhrifum lífrænna hvata á uppskeru og mótstöðuafl grænmetis og korntegunda. Einnig þar hefir komið fram verulegur munur, aukin uppskera við réttan sáðtíma, aukið mótstöðuafl gegn sjúkdómum og aukið geymsluþol við notkun hvatanna, ásamt meiri þolni gegn sveiflum í veðurfari.
Þetta eru sem sagt þau grundvallarsjónarmið er bíódynamisk ræktun byggist á. Aðstæður á hverjum stað, möguleikarnir á hverjum tíma ráða svo á hvern hátt þær eru hagnýttar í sjálfri ræktuninni. Í hinu daglega starfi gefur hvert ár, jafnvel hver dagur, okkur nýja reynslu sem hægt er að byggja á; það ríður á að vera vakandi fyrir því er gerist í náttúrunni á hverjum tíma.