Vottuð merki um lífræna ræktun eru til marks um að við framleiðslu hráefna í tiltekna vöru hefur alþjóðlegum stöðlum um lífræna ræktun verið fylgt.
Það er mikilvægt að þekkja þessi merki í búðum ef maður er að reyna að versla lífrænar vörur. Ekki er nóg að það standi „bio“ eða „organic“ á vörunni til þess að hún sé lífræn, það verða að vera vottuð merki um lífræna ræktun til að hægt sé að treysta því að þetta sé lífrænt.
Skilyrði um lífræna ræktun eru m.a.:
- Án eiturefna, ónáttúrulegra varnarefna og tilbúins áburðar.
- Erfðabreytt efni eru bönnuð í lífrænni ræktun.
- Skiptiræktun í stað síræktunar.
- Búfénaður fær nátturulegt lífræn fóðurefni og notkun hormóna er bönnuð.
- Vottaðar af óháðum aðila sem gengur úr skugga um að framleitt sé samkvæmt alþjóðlegum reglum.
Á vef Umhverfisstofnunar má finna mikinn fróðleik um ýmis umhverfismerki og þ.m.t. í lífrænni ræktun. Þessi grein styðst við þessar upplýsingar. Hér eru tekin saman helstu vottunarmerkin sem finnast á íslenskum matvörubúðum. Það fer aðallega eftir framleiðslustað hvers konar vottunarmerki matvörurnar fá.
Merki vottunarstofunar Túns fyrir lífræna ræktun
Tún er íslensk faggild eftirlits- og vottunarstofa fyrir lífræna og sjálfbæra framleiðslu. Tún er þróunarfélag í þágu almannahagsmuna og vinnur að nýsköpun matvælaframleiðslu og náttúrunytja í samræmi við alþjóðlega staðla um tillitsemi við lífríki og náttúru. Siðfræði sjálfbærrar þróunar og heilbrigðis allrar lífkeðjunnar eru megin leiðarljós í þjónustu Túns.
Merki Evrópusambandsins fyrir lífræna ræktun
Með þessu merki Evrópusambandsins um lífræna ræktun skal taka tillit til umhverfis og velferð dýra. Merkið er á vörum sem framleiddar eru í Evrópusambandsríkjum.
Evrópusambandið gerir kröfu um að yfirvöld í viðkomandi ríki hafi eftirlit með framleiðendum og vörum. Eftirlitinu er ætla að tryggja að vörurnar séu ósviknar og að kröfum til framleiðsluaðferða sé fylgt. Í það minnsta einu sinni á ári láta yfirvöld kanna hvort framleiðendur standist kröfur um lífræna rætkun.
Ø-Merkið – Danska lífræna (Økologiska) merkið
Danska Ø-Merkið er notað á lífræna ræktun frá Danmörku. Lífræn unnin matvæli, s.s. pate, sulta og tilbúnir réttir mega ekki innihalda gervisykur eða gervi bragðefni og mun færri aukaefni eru leyfð en í matvælum sem framleidd eru á hefðbundinn hátt.Ø-merkið með textanum „Statskontrolleret økologisk“ eða „lífænt með vottun frá danska ríkinu“ er einnig hægt að finna á lífrænum vörum sem ekki eru matvæli s.s. fóðurvörur, fræum, forræktuðum plöntum og hunda- og kattamat ef hann er framleiddur undir eftiliti í Danmörku. Ø-merkið er notað í bæði rauðum og svörtum lit.
KRAV merkið
KRAV merkið er opinbert sænskt merki sem vottar og hefur eftirlit með lífrænni ræktun. Merkið tryggir að við framleiðslu er tekið tillit til umhverfisþátta, velferð dýra, samfélagslegrar ábyrgðar og hollustu.
Til að fá merkið fyrir plönturækt þarf ræktunin í það minnsta að samræmast reglum EB um lífrænan landbúnað.
Debio merkið
Í Noregi er Debio merkið notað um lífræna ræktun. Merkið tryggir að við framleiðslu vörunnar hefur bæði norskum reglum og reglum Evrópubandalagsins um lífræna ræktun verið fylgt. Þannig tryggir Debio merkið að búið er að taka tillit til umhverfisins, dýraverndar og lífrænna ræktunarskilyrða.
Demeter merkið
Demeter er merki lífrænnar og lífelda ræktun (biodynamic) sem notað er í yfir 50 löndum. Demeter var stofnað árið 1928 og er því elsta merki um vottaða lífræna ræktun.
Framleiðendur sem notast við merkið þurfa að standast tvenns konar eftirlit. Í fyrsta lagi þurfa þeir að fylgja ríkisreglum um lífræna vottun þar sem þeir notast við orðið ”bio” í kynningu á vörum sínum. Í öðru lagi þurfa þeir að standast kröfur Demeter um lífeflda ræktun (biodynamic).
Soil Association merkið – Jarðvegssamtökin
Aðal markmið Soil Assciation samtakanna er að vernda umhverfið og stuðla að sjálfbærni. Samtökin eru stærst sinnar tegundar í Bretlandi. Soil Association merkið tryggir að vörurnar uppfylli umhverfiskröfur Evrópusambandsins um lífræna ræktun en jafnframt uppfylla þau miklu strangari kröfur um sjálfbærni.
Samtökin hafa þróað röð mjög metnaðarfullra staðla. Meðal annars er siðferðilegra sjónarmiða gætt, en framleiðendur skuldbinda sig m.a. til að nota ekki börn í vinnu, að tryggja starfsfólki mannsæmandi lífskjör og forðast mismunun. Meðlimum samtakanna ber einnig að fylgja reglum um velferð dýra og sjálfbæra framleiðslu í landbúnaði og skógrækt.
Hér getur þú kynnt þér fleiri merki fyrir vottaða lífræna ræktun sem eru ekki eins algeng hérlendis og þau sem talin eru upp að ofan.
Heimildir:
https://www.ust.is/einstaklingar/umhverfismerki/ymis-umhverfismerki/#Tab2