Eins og oft hefir verið skýrt frá í ritum NLFÍ, eru sett viss efni í hvítt hveiti til þess að ;bleikja; það, gera það hvítara og auka á geymsluþol þess. Auk þess verður brauðið úr slíku mjöli fyrirferðarmeira en ella og skorpan ljós og mjúk. Efni það, sem oftast er notað, er sett í mjölið um leið og mölun og sigtun fer fram. Það er lofttegund, samsett af köfnunarefni og klór — köfnunarefnistríklórid — og hefir verið talið óskaðlegt og hættulaust með öllu. En nýlegar tilraunir, gerðar í Englandi og Bandaríkjunum, hafa nú loksins opnað augu heilbrigðisyfirvaldanna fyrir því, að hér muni vera hætta á ferðum.
Frá tilraun í Bandaríkjunum er sagt á þessa leið: Tilraunin var gerð á hundum, köttum og öpum, og var dýrunum skipt í 2 flokka. Báðir flokkarnir voru að mestu leyti fóðraðir á brauði úr hvítu hveiti um þriggja mánaða skeið. En annar flokkurinn fékk brauð úr óbleiktu hveiti, og þrifust þau dýr vel.
Hjá þeim dýrum, sem fengu bleikta hveitið, fór eftir eina viku að bera á greinilegum sjúkdómseinkennum á taugakerfi, og urðu hundarnir verst úti. Flest dýrin misstu vald yfir hreyfingum sínum. Sum urðu alveg sljó, stóðu tímunum saman og einblíndu á sama blettinn, en önnur þutu fram og aftur, mjög óstöðug í spori. Meinlaus dýr urðu grimm, og öfugt. Stundum fengu dýrin krampaköst, líkust flogaveiki hjá mönnum. Sumir hundarnir dóu, áður en tilraunatíminn var á enda. Kettirnir virtust hafa meira mótstöðuafl, en aparnir sátu sljóir og skjálfandi á beinunum.
Nú er þess að geta, að í mjölið, sem tilraunin var gerð með, var af ásettu ráði sett um fjórfalt magn af hinni ofangreindu lofttegund (30 gr. í hver 45 kg. af mjöli í staðinn fyrir í mesta lagi 8 gr.). Þá hefir heldur ekki verið gengið úr skugga um, hvort hið mikið bleikta hveiti hafi samskonar áhrif á menn. En þessar tilraunir hafa þó orðið til þess, að heilbrigðisyfirvöldin eru orðin alvarlega hugsandi og hafa hvatt mjölframleiðendur til að nota sem allra minnst af efninu. Ennfremur hafa verið gerðar ráðstafanir til að leita að öðru efni til bleikingar á hveiti.
Það er tímarit Waerlands í Svíþjóð, sem skýrir frá þessu í marzhefti sínu. Síðan hefir þessu einnig verið lýst í Lesbók Morgunblaðsins, 25. apríl s.l., og hefir hún það eftir enskum og amerískum læknaritum. Og danska blaðið Politiken hefir einnig nýlega birt frásögn af tilraunum þessum og telur þær til stórtíðinda.
Það er vissulega betra seint en aldrei, að vísindaleg viðurkenning fáist á staðreyndum, sem einstaka víðsýnir heilbrigðisfrömuðir meðal lækna og leikmanna í ýmsum löndum hafa verið að prédika áratugum saman án þess að læknar almennt eða þorri almennings hafi gefið því nokkurn gaum og jafnvel dregið dár að. Það eru nú meira en 30 ár liðin, síðan Jónas Kristjánsson byrjaði að prédika hér á landi á móti hvíta hveitinu, sem einhæfri fæðutegund og beinlínis skaðlegri vegna framandi eiturefna, sem í það væru sett. Flestir hafa hrist höfuðið við þessari skoðun. En nú eru vísindin loksins að átta sig, og þá geta neytendur ekki lengur borið því við, að Jónas Kristjánsson eða náttúrulækningastefnan sé hér að flytja einhverjar villukenningar.
Í umræðum um breytingar, sem gera þarf á mölun og meðferð hveitis, til að ráða bót á þessu, hefir verið á það drepið að kornmyllurnar hafi komið upp dýrum tækjum til þess að sprauta hinu eitraða efni inn í mjölið. Nú verði þessi dýru tæki ónýt, og hver á þá að bæta myllueigendunum tjónið?
Þetta er óneitanlega dálítið kátbroslegt sjónarmið. Kornmyllurnar eru yfirleitt stórgróðafyrirtæki. Og ekki sízt hafa þær grætt á því að framleiða hvítt hveiti, sem eyðileggur heilsu manna, bæði vegna skorts nauðsynlegra næringarefna og vegna hinna framandi eiturefna. Það ætlast enginn til, að þær hætti að mala, heldur að þær hætti að eyðileggja beztu eiginleika kornsins. Og fyrir þetta, fyrir það að hætta að byrla almenningi eitur, á að greiða þeim skaðabætur!
Þess má geta, að Englendingar banna nú að skilja meira en 5% frá hveitinu, þegar það er malað. Þeir nota m.ö.o. 95% heilhveiti, sem segja má að innihaldi öll þýðingarmestu efni hveitikornsins. Því ekki að fylgja þessu fordæmi Englendinga?
Björn L. Jónsson
Heilsuvernd, 1.-2. tbl. 1948, bls. 56-57