Í dag eru 100 ár upp á dag síðan Jónas Kristjánsson læknir hélt fyrirlestur undir nafninu „Lifnaðarhættir og heilsufar“ á Sauðárkróki.
Í fyrirlestrinum fór hann hörðum orðum um mataræði og heilsufar þjóðarinnar og vildi brýna fyrir Íslendingum að bera ábyrgð á eigin heilsu með hollum lifnaðarháttum.
Íslendingar lifðu að mestu í bændasamfélag á þessum tíma og umræðan um að gæta heilsu sinnar var mjög stopul, mest snérist lifnaðarhættir um að hafa fæði og klæði og að lifa af hörð lífsskilyrði.
Á þessum árum var Jónas nýkomin frá N-Ameríku þar sem hann hafði kynnst því nýjasta í heilbrigðisvísindum og lækningum. Var hann því mjög innblásin af mörgu því sem Bandaríkjamenn voru að gera á þeim tíma til að efla heilsu landsmanna, þó vissulega hafi heilsufari Bandaríkjamanna hrakað mjög á þessum 100 árum.
Í fyrirlestrinum talar Jónas um að koma megi í veg fyrir sjúkdóma með heilbrigðu líferni en ekki fylla spítala af veiku fólki. Það hefði verið óskandi fyrir íslenska þjóð að það hefði hlustað á Jónas þarna, því spítalar og heilbrigiðsstofnanir nútímans eru pakkfullar og álag á spítalakerfið er geigvænlegt.
Fjárskortur heilbrigðiskerfisins verður endalaus eins og hann hefur verið undanfarin 100 ár því enn höfum við ekki sett nóg fjármagn í forvarnir gegn heilsuleysi með miklu framboði á hollum mat og áherslu á líkamlega hreyfingu.
Það er mjög áhugavert að skoða margt sem Jónas sagði fyrir 100 árum í þessum fyrirlestri. Hér má sjá ýmislegar tilvitnanir í þetta merka erindi.
„Læknunum tekst sýnu lakar með að vinna á sjúkdómum þeim, sem þjá mannkynið jafnt og þjett. Læknum fjölgar ár frá ári, sjúkrahús og heilsuhæli eru reist fyrir óhemju fje í hverju landi, bætt við þau árlega og þau stækkuð, og þó er sífellt skortur á þeim. Það er einlægt fremur sókn en vörn af hendi sjúkdómanna og læknarnir eiga sífellt í vök að verjast, þó þeir einstöku sinnum vinni bráðabirgða sigur“.
„Læknum yfirleitt nú á tímum hættir við því, nær því ætíð, að leita að orsökinni til sjúkdóma í hinni eða annarri tegund baktería eða sýkla. Sýklar þar og sýklar hjer og sýklar alstaðar. Við lifum á sýklaöld. Læknum hættir oft við því að stara á eitt einstakt og rekja allar orsakir þaðan, og nú á tímum eru það sýklarnir sem orsaka alla sjúkdóma.“
„Manni verður ósjálfrátt að spyrja með þjóðskáldinu okkar: „Hvaðan stafar öll sú þraut, hver er sökin, hvar er svarið? og svarið finnst mjer liggja opið fyrir eins og opin bók“. Vjer lifum ekki samkvæmt lögmáli lífsins. Náttúran móðir vor er strangur dómari en þó rjettlát. Hún hegnir fyrir drýgðar syndir, fyrst og fremst þeim sem þær drýgja, en því miður líka á afkvæmum þeirra sem sekir eru orðnir.„
„Er einmitt hlutverk læknanna, og það er háleitt hlutverk að leiða fólkið á rjetta braut og benda á að hverju leyti það brjóti í bága við lögmál lífsins, og hvernig það eigi að lifa til þess að verða farsælt, til þess að lifa og deyja heilbrigt, en það er heilbrigt líf að verða aldrei veikur og heilbrigður dauði að deyja í hárri elli.„
„Nú aftur á móti klæðast flestar konur fötum úr útlendu skjóllitlu efni, með bera handleggi og brjóst, og þó þær skerist setgeirabrókum, þá ganga þær að minnsta kosti í kaupstöðum í örþunnum silki- eða bómullarsokkum með bláa fætur af kulda, marða af skóþrengslum og skekkta af hælaháum skóm.„
„Öll matargjörð og matreiðsla í landinu hefur á síðari árum verið sniðin eftir útlendri tísku, að minnsta kosti í kaupstöðum, án nokkurrar þekkingar á því hvað er hollt fyrir efnaskipti líkamans og hvað meltingarfærunum er fyrir bestu. Það er ótrúlegustu efnum blandað saman við matinn, sem miða að því einu að svíkja matinn og eitra hann. Þá er og hrein blöskrun að vita til allrar þeirrar kökugerðar sem tíðkast á síðustu áratugum. Það er áreiðanlegt, að þær sætu og krydduðu kökur eiga ekki svo lítinn þátt í þeim mörgu meltingarkvillum sem nú eru algengastir. Af þessum kökum borða menn sig metta eins og væri það vanalegur matur og hann hollur, og neyta ekki annarrar fæðu heila daga á stundum. Gestum og gangandi eru bornar þessar kökur með kaffi seint og snemma. Jeg gæti trúað að kaffið og kökurnar væru plága fyrir fleiri en mig.„
„ Í flestum fæðutegundum eru frá náttúrunnar hendi til efni sem þekkst hafa fyrst á hinum síðari árum, efni sem eru alveg lífsnauðsynleg fyrir heilsu og þrif bæði manna og dýra. Efni þessi eru á útlendu máli kölluð vitamina.„
„Náttúran móðir vor er praktisk og góð húsmóðir, hún matreiðir holla fæðu handa börnum sínum, en þau eru alla jafna svo heimsk að þau skemma matinn, sem þeim er framreiddur, vilja matreiða hann sjálf eftir sínu eigin höfði, en eru ekki svo hyggin sem náttúran.„
„Við Íslendingar höfum til þessa náð svipuðum eða ekki lægri aldri en nágrannaþjóðir okkar, sem eiga hægari aðstöðu með jurtafæðu en við. Það er líka nokkurnveginn víst, að sú þjóð bjargast best bæði hvað heilsufar og efnalegt sjálfstæði snertir, sem lifir mest af sínu eigin, notar sína eigin framleiðslu sjer til framfæris og kaupir sem minnst af öðrum.„
„Það er heldur ekki ólíklegt að vjer í hinu kalda landi voru þurfum kröftugri og hitameiri fæðu heldur en þeir, sem sunnar lifa á hnettinum eða í blíðara loftslagi. Það er líka skiljanlegt, að þeir menn er hafa mikið líkamlegt erfiði, þoli þyngri og kröftugri fæðu en hinir sem kyrrsetur hafa og litla líkamlega áreynslu. Þegar menn hafa kyrrsetur og lítið líkamlegt erfiði, verða efnaskiptin í líkamanum ekki eins fjörug. Þeir menn draga ekki eins djúpt andann, og líkaminn fær ekki eins mikið af súrefni og þegar erfiði er drýgt. Afleiðingin af þessu verður sú, að innisetumenn þola ekki eins þunga eða eggjahvíturíka fæðu, kjötið eða fiskurinn brennur ekki til fullnustu í líkamanum, eiturefni myndast í þörmunum í þeim leifum sem meltast ekki til fullnustu og berast með blóðinu út um líkamann, orsaka þrota í slímhúð innýflanna, kalkmyndun í æðunum, gikt og nýrnabólgu og fleiri kvilla.„
„Eitt er líka athugavert við korntegundir þær sem fluttar eru inn í landið til manneldis. Vjer vitum ekkert um hve gamlar þær eru; þær geta hafa legið árum saman í vörugeymsluhúsum utanlands. Ef svo er, þá eru þær lítt hæfar til manneldis, því að við geymsluna skemmast þær, bætiefni þeirra dofna og hverfa alveg við langa geymslu, sjerstaklega hverfa þau fljótt ef þessar korntegundir eru notaðar eins og áður hefur verið getið um.„
„Af þessu verður skiljanlegt, að stendur ekki á sama hvað látið er í magann. Fæðan verður að hafa í sjer öll þau efni sem nauðsynleg eru líkamanum honum til uppbyggingar, til þess að ráða bót á daglegu striti. Annars sveltur líkaminn og sálin með, þó maginn sje mettur af mat sem ekki kemur að haldi fyrir þarfirnar. Íslendingar eru illa settir að því leyti, hve fátt vex hjer annað en grasið. Káltegundir vaxa að vísu nokkrar hjer, en alltof lítil stund er lögð á að rækta þær. Jarðepli hafa nú lengi verið ræktuð hjer á landi, en það vantar mikið á að innlend jarðepli fullnægi þörfum landsmanna enda bregst uppskera á jarðeplum mörg sumur, sjerstaklega á Norðurlandi.„
„Hjer á landi eru svo afar víða heitar laugar og hverir. Vissulega mætti rækta hjer margskonar kálmeti, ef byggð væru hús með glerþaki yfir og notaður svo jarðhitinn til upphitunar. Jeg er viss um að slík fyrirtæki gætu orðið jafn arðvænleg þeim sem byrjuðu á þeim eins og þau yrðu nauðsynleg fyrir heilsu og þrif landsmanna. Flestar káltegundir eru ennþá fjölskrúðugri og ríkari af bætiefnum, járni og kalki en korntegundir og miklu ljettmeltanlegri.
Vermihús eru nauðsynleg til þess að rækta í þeim káltegundir, sem borða ætti hráar til þess að koma í veg fyrir að þær óhreinkist af ryki eða sóttnæmi, sem gæti fokið í þær ræktaðar undir beru lofti.„
„Hjer er ekki tími til að telja upp allar fæðutegundir, heldur aðeins þær helstu, og skal jeg þá næst minnast á nýlenduvörur og byrja á sykrinum. Jeg veit ekki hve langt er síðan byrjað var á því að flytja inn sykur, en fram til 1870 hygg jeg að lítið hafi verið flutt inn árlega. En síðan hefur innflutningur sykurs vaxið hröðum skrefum, svo að árið 1919 var flutt inn sykur, súkkulaði og brjóstsykur svo nam yfir 70 pund á hvert mannsbarn. Verð þess var næstum 4 milljón króna.„
„Blóð er líf. Sá sem er blóðlítill er ekki með fullu lífi, og hann nýtur ekki lífsins til fulls. Sumir sem hafa fengið sykursýki nota saccharin í sykurs stað, í kaffi og mat. Slíkt er mesta heimska. Það er að fara úr öskunni beint í eldinn. Saccharin er sterkt hjartaeitur. Það er unnið úr koltjöru, er sætt á bragðið, talið 280 sinnum sætara en reyrsykur. Professor Heitler hefur fundið með rannsóknum að saccharin hafi stórveiklandi áhrif á hjartað og því meir, sem notkunin er meiri og langvarandi. Notkun á saccharin er því hættulegri sem það er freisting til þess að spara fje með notkun þess, þar sem sykur er dýr.„
„Kaffi- og teneysla hefur stórvaxið hina síðustu áratugi. Hve langt er síðan byrjað var að flytja kaffi til landsins get jeg ekki sagt, en nú er svo komið, að líklega er hvergi drukkið meira af kaffi en á Íslandi, þegar miðað er við mannfjölda. Árið 1919 var flutt inn kaffi, te og kaffibætir fyrir meira en hálfa þriðju milljón króna, og þegar sykur og súkkulaði er tekið með, verður eyðslan á þessum tegundum á öllu landinu nær 7 milljónum kr. á árinu.
Svo mikið óhóf getur líklega engin önnur þjóð en Íslendingar leyft sér. Kaffi og te inniheldur hvort um sig eiturefni, sem að vísu eru væg eiturefni, en eiturefni engu að síður, sem veikla taugakerfið og hafa margvísleg áhrif á líkamann. Kaffið eykur blóðþrýstinginn að miklum mun og á þess reikning verður að nokkru leyti að skrifa hið mikla mannfall, sem or-sakast af sjúkdómum í hjarta og æðum, t.d. heilablóðfallið. Einkenni langvinnrar kaffieitrunar eru: lystarleysi, truflun á meltingu, hjartsláttur, höfuð-verkur. Kaffið eyðir þreytutilfinningu en það veitir enga endurnæringu eða hvíld.„
„Kaffið hressir mig meira en maturinn, segir margt roskið fólk, þó er engin næring í kaffi. Dr. Kellogg segir um kaffið meðal annars: „Reynsla mín hefur fengið mig til þess að forðast öll æsandi og svæfandi lyf, svo sem kaffi, te, tóbak og alkohól“.
„Jeg þekki ekkert eitur sem kemur meira böli til leiðar í heiminum en alkohól eða vínið. Jeg hefi getið þess áður að þeim mönnum sem væru bilaðir á geði, taugaveiklaðir eða vitskertir fjölgaði ár frá ári. Það er óhætt að fullyrða að nokkurn hluta og ekki svo alllítinn má skrifa á reikning vínnautnar. Það eru syndir forfeðranna, sem koma fram á börnunum í 3ja og 4ða lið. Grísir gjalda en gömul svín valda.„
„Það má segja svipað um tóbak og alkohól. Það er eitur. Það vissu menn fyrir löngu og þó hefur notkun þess vaxið hröðum skrefum. Tóbakið er sefandi líkt og alkohól og veldur nokkurskonar vellíðan hjá þeim, sem eru háðir því. Langvinn tóbaksnautn veldur skemmdum á sumum sellunum í heila manna, sem aftur orsakar sljóleik í hugsun, deyfir athygli og eftirtekt og gjörir menn mun sljórri en ella.„
„Mikil tóbaksnautn dregur úr vöðvastælingu og krafta, tefur fyrir og hemur starf meltingarfæranna og orsakar þannig ýmsa meltingarkvilla og megurð. Tóbak eykur fyrst blóðþrýstinginn og gjörir æðaslögin hægari, síðar verða þau hraðari og hjá þeim sem lengi hafa not-að tóbak verður æðaslátturinn óreglulegur sökum skaðlegra áhrifa á hjartað, það safnast kalk í stærri slagæðar og hjartað. Sjerstaklega er tóbak skaðlegt fyrir börn og unglinga. Það er ekki óalgengt að sjá unglinga og jafnvel börn innan við fermingaraldur í borgum víðsvegar hálf eyðilögð af vindlingareykingum, föl, titrandi og sljó.„
„Eftir 50-100 ár hefur næstum hver maður magasár, botnlangabólgu og líka kvilla með sama áframhaldi, ef krabbameinin hafa þá ekki ráðið niðurlögum þeirra á barnsaldri. Margt bendir til þess að mannkynið, sjerstaklega hinn hvíti kynflokkur, sje á hraðri leið til úrkynjunar og tortímingar. Það er á leið sem Dr. Helgi [Pjeturss] kallar vítisstefnuna og það með rjettu. Ef bót á að ráðast á þessu verður mannkynið að söðla um og breyta lifnaðarháttum sínum.„
„Við Íslendingar verðum að kappkosta að rækta hjer margt sem áður hefur ekki verið reynt að rækta og nota til þess jarðhitann þar sem hans er kostur. Vjer verðum að hætta við að kaupa þá vöru sem svo er skaðleg, en til þess tel jeg kaffi, sykur, hveiti og hrísgrjón í þeirri mynd sem þau flytjast inn nú, og margt fleira, að ógleymdu víni og tóbaki. Reynsla okkar og vísindin eru að þessar vörur eru allt annað en heilnæmar. Ef litið er á hina efnalegu hlið þessa máls, verður útkoman hin sama. Vjer megum tæplega við því að kaupa og flytja inn fyrir margar milljónir króna árlega þá vöru sem vjer getum án verið og skaðar þar að auki heilsuna. Þegar litið er yfir kaupstaðarúttekt sumra bænda má sjá, að nær því þriðjungur ársúttektarinnar er þessi lúxusvara, eða kaffi, sykur og hveiti. Það eru ekki svo fáir dilkar sem þeir verða að snara út úr búi sínu fyrir þess-ar vörur. Bændur þurfa fyrst og fremst að leggja miklu meiri áherslu á mjólkurframleiðsluna, rækta sem mest af kálmeti og kaupa sem minnst af útlendri kornvöru.„
„Í sambandi við það, sem jeg hefi hjer sagt, má minnast á klæðnað manna nokkru nánar en gjört var áður. Árið 1919 voru flutt inn í landið föt og fataefni fyrir meira en 9 millj. króna. Sama ár eru flutt út nær 3 millj. pd. af ull. Í stað þess að vinna úr ullinni skjólgóð og haldgóð föt, kaupum við skjóllítinn og ljelegan útlendan fatnað. Þetta er jafnfráleitt bæði fyrir heils.una og efnahaginn, bæði einstaklinganna og þjóðarinnar í heild sinni. Fólkið gengur iðjulaust mikinn tíma ársins og kaupir þá vinnu, sem það gæti innt sjálft af höndum. Er þetta menningin, sem vjer þykjumst af? Þetta má ekki svo til ganga, ef Ísland á að rjetta við efnalega.„
„Eitt af því, sem skaðar heilsu Íslendinga og setur blett á þá í augum útlendinga sem menningarþjóð, er ljeleg húsakynni. Húsakynni alþýðu eru allvíða þannig, að þau geta tæplega talist viðunanlegir mannabústaðir. Þau eru víða köld, loftill og rök, og þessvegna gróðrarstía berklaveikinnar. Ill húsakynni stafa oftast af fátækt og fákunnáttu, en stundum líka af of mikilli nægjusemi. Menn gera ekki nógu háar kröfur til þess, að húsakynni sjeu vistleg og viðunandi.
Vissulega gætu húsakynni hjer á landi verið betri en þau eru. Til þess að ráða bót á þessu böli væri samvinna heppilegasta ráðið. Þing og stjórn hefir líka síður en svo látið þetta mál nægilega til sín taka. En um þetta mál er ekki tími til að fjölyrða hjer.„
„Þess munu finnast mörg dæmi einkum í kaupstöðum og bæjum, að skólasetan geri börn að andlegum og líkamlegum krypplingum. Börn, sem eru blóðlítil og vantar merg í beinin vegna skorts á mjólk og annarri heilnæmri fæðu, verða að sitja marga tíma á dag í skólanum. Þreytan af að sitja gerir það að verkum, að þau fara að sitja skökk. Hryggurinn venst í þessar skorður, einkum þegar að vöðvarnir eru ekki nægilega styrkir eða stæltir til þess að halda líkamanum í eðlilegu jafnvægi, og þau fá hryggskekkju. Langvinnt hreyfingarleysi kemur því til leiðar, að brjóstkassinn þenst ekki nægilega út. Eðlilega brjóstþenslu getur erfiði og áreynsla í hreinu útilofti ein skapað.“
„Það er almennt álit skólalækna erlendis, að langvinn skólaseta barna og unglinga eigi drjúgan þátt í úrkynjun, taugaveiklun og ýmiskonar geðbilun, sem svo algeng er orðin á síðustu áratugum. Jeg skal ekki fullyrða, að þetta sje svo algengt orðið hjer á landi sem annarstaðar, þar sem skólatíminn er 10-11 mánuði ársins. Uppeldið þarf að breytast í því, að vekja og glæða hjá börnum og unglingum virðingu fyrir starfi, fyrir líkamlegri vinnu, sjerstaklega fyrir vinnu úti undir beru lofti, því sú vinna er heilnæmust. Það þarf að minnka bóklega kennslu, sem er að verða plága bæði fyrir börn og foreldra.“
„Sauðskepnan veit vel hvaða grös henni eru hollust, en mannskepnan veit ekki hvaða andleg fæða henni er heilnæmust, skrifaði Þórhallur biskup eitt sinn í Kirkjublaðið, og þetta er alveg satt. Ljelegar bækur spilla smekk unga fólksins bæði fyrir vali bóka og máli. Engar bækur seljast eins vel og ljelega þýtt rómanarusl, þetta sýnir allvel hinn spillta aldaranda. Það er fátt sem bendir til þess, að mannkyninu sje að fara fram að gáfum eftir því sem bókleg þekking og bóklestur vex. Miklu fremur hið gagnstæða. Aftur á móti vex stöðugt með hverjum áratug tala þeirra manna, sem hafa einhverja andlega kvilla eða bilanir eða algjörða geðveilu, eins og jeg hefi áður sagt.„
Þessi fyrirlestur er frábær heimild um málstað þessa mikla frumkvöðuls sem Jónas Kristjánsson var og hversu mikið hann brann fyrir því að efla heilsu landsmanna og var mörgum áratugum á undan sinni samtíð í þessari predikun.
Þarna eru líka heimildir um sýklana og veirurnar sem við höfum vissulega í dag en höfum sýklalyfin og bólusetningar sem eru að gera sjúkdóma tengda sýkingum og veirum ekki eins banvæa og þeir voru fyrir 100 árum.
Jónas talar líka mikið að við Íslendingar séum sjálfbær í fæðuöflun og klæðnaði. Þessi fer nú víðsfjærri nú í dag á Íslandi en þó vissulega hafi umræðan um sjálfbærnina aukist eftir að stríðið í Úkraínu hófst á síðasta ári.
Í þessu samhengi mættum við nýta raforkuna mun betur í ræktun grænmetis og ávaxta í gróðurhúsum. Í stað þess að nýta mikið af þessari raforku í að framleiða ál fyrir erlend stórfyrirtæki. En raforkan var ekki fyrir 100 árum komin í neina almenna notkun á Íslandi.
Jónasi er ekkert heilagt í þessum fyrirlestri og talar hann um klæðnað kvenna og skólagöngu ungmenna. Þetta eru skemmtilegar heimildir og einnig eitthvað sem nútíminn má skoða að vera ekki að henda öllum í gegnum sama skólakerfið. Það er spurning hvort þessi grunnskólaganga með endalausum setum í loftlausum skólastofum sé besta leiðin til uppfræðslu og uppeldis ungmenna?
Auðvitað talar Jónas mikið um bölið af því að deifa sig með áfengi og tóbaki. Þessi vísindi hans um þessi deyfiefni og bölin af þeim eiga jafnvel við í dag fyrir 100 árum.
Það er kominn tími til að við Íslendingar förum að taka orð Jónasar að alvöru til okkar og förum að gera allt til að efla heilsu okkar, minnka álagið á heilbrigðiskerfið, gerast sjálfbærari í fæðu-og orkuöflun, minnka sem mest notkun sykurs, hvíts hveitis, áfengis og tóbaks.
Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjori@nlfi.is