Grein þessi birtist í Tímanum 28. des. 1977.
Fyrir 40 til 50 árum vakti Jónas Kristjánsson læknir máls á því, að lagðir yrðu háir tollar á sykur og hvítt hveiti sem hin einhæfustu og efnasnauðustu allra matvæla, en niður felldir tollar á aldinum, heilu korni og heilhveiti. Síðan veit ég ekki til, að þá hugmynd hafi borið á góma að miða verðlagningu matvæla við hollustu þeirra.
En nú bregður svo við, að þegar verðlagsnefnd landbúnaðarafurða verðleggur undanrennuna með eðlilegum hætti “ en undanfarin ár hefir hún verið verðlögð sem hálfgerð úrgangsvara fyrir neðan raunverulegt kostnaðarverð “ þá verður úr þessu hinn mesti úlfaþytur, og nefndin er sökuð um tilræði við heilsu almennings.
Það er staðreynd, að svokölluð “mettuð” fita stuðlar að hjarta- og æðasjúkdómum. Í mjólk og annarri fitu landdýra er mettuð fita yfirgnæfandi, en ómettuð fita í ýmsum fljótandi jurtaolíum. Því er það, að t.d. sjúklingum með kransæðasjúkdóma er af læknum ráðlagt að minnka neyslu dýrafitu, þar á meðal nýmjólkur og smjörs, en nota heldur undanrennu í staðinn. Þetta á ekki að skilja þannig, að nýmjólk og smjör sé stranglega bannað, og því síður er til þess ætlast, að menn eigi að þamba undanrennu í pottatali, eitt eða tvö glös á dag væri kappnóg. Og undanrennu á alls ekki “ ekki fremur en mjólk “ að nota sem drykk, heldur sem mat, t.d. sem útálát á grauta. Þetta sjónarmið gildir einnig fyrir feitt fólk sem vill megra sig.
Mjólkurlítrinn mun hafa hækkað um 20 krónur, en undanrennulítrinn um 40 krónur. Umframhækkun á undanrennu er því einar 20 krónur eða rúmlega verð eins eldspýtnastokks. Varla ætti þessi litla hækkun að hafa áhrif á neyslu undanrennu. Þegar þess er gætt, að fáir munu þamba heilan lítra af undanrennu á dag, verða aukaútgjöldin þeim mun minni. Það eru því hverfandi líkur fyrir því, að þessi verðhækkun dragi hið allra minnsta úr neyslu undanrennu.
En svo er önnur hlið á þessu máli, sem einnig hefir borið á góma í fjölmiðlum. Sumir læknar hafa, bæði í sambandi við æða- og hjartasjúkdóma og offitu, varað aðallega við dýrafitu, bæði í mjólk og smjöri. Þessi áróður hófst fyrir nokkrum árum, og var þá í staðinn fyrir smjör mælt með jurtasmjörlíki á þeim forsendum að í því væri mikið af ómettaðri feiti. Brátt kom þó í ljós, að þetta var hinn mesti misskilningur. Að vísu var jurtafeiti í þessu smjörlíki, en það var hert jurtaolía, en við herðinguna breytist ómettuð fita í mettaða fitu, þannig að þetta smjörlíki er að því leyti til síst betra en smjör. Síðan er að vísu komið á markaðinn smjörlíki, sem inniheldur verulegt magn af ómettaðri feiti.
En nú hefir verið bent á leiðir til að draga úr neyslu mettaðrar fitu án þess að minnka smjörneysluna. Dr. Bjarni Þjóðleifsson læknir hefir lagt til, að smjör sé notað í smjörlíki í staðinn fyrir innflutta harðfeiti. Við það mundi heildarneysla mettaðrar fitu minnka að sama skapi.
Þá hefir dr. Jón Óttar Ragnarsson matvælaefnafræðingur bent á það í sambandi við varnir gegn offitu, að draga þyrfti verulega úr sykur- og fituneyslu, og nefnir þar m.a. innflutta harðfeiti í bökunarsmjörlíki, fitu í súkkulaði og öðru sælgæti.
Annars er offituvandamálið miklu einfaldara en ætla mætti eftir þeim aragrúa margvíslegra ráðlegginga og uppskrifta sem fram eru bornar af lærðum og leikum. Sjónvarpsþættirnir fyrir skemmstu eru góðra gjalda verðir og hafa vakið verðskuldaða eftirtekt. Gallinn er bara sá, að hætt er við að margir endist ekki til að fara eftir þeim til lengdar, það er leiðigjarnt að þurfa alltaf að vera með hitaeiningatöfluna á lofti eða vera sí og æ að velta því fyrir sér, hvaða næringarefni séu í hverjum munnbita, eða hvað kunni að vanta.
Lausnin á vandanum liggur í augum uppi, ef við virðum fyrir okkur neyslu landsmanna eftir matvælaflokkum. Tölurnar hér á eftir sýna hitaeiningafjölda matvælanna samkvæmt könnun Hagstofu Íslands frá 1965-67:
Mjólk og mjólkurmatur……….27%
Sykur……………………..20%
Kjöt og fiskmeti……………15%
Hvítt hveiti……………….12%
Annar kornmatur……………..6%
Kartöflur…………………..6%
Grænmeti og ávextir………….5%
Annað………………………9%
Með öðrum orðum: Næst mjólkinni er sykur aðalfæða landsmanna, en eins og flestum má kunnugt vera, inniheldur hann ekki snefil af næringarefnum annað en hrein kolvetni, þ.e. eintómar hitaeiningar. Næst sykrinum að einhæfni kemur hvíta hveitið með 12%, þannig að þessar tvær fæðutegundir nema tæpum þriðjungi af allri fæðutekju þjóðarinnar. Í þessum tölum kemur þó ekki fram sykur og hveiti í innfluttu sælgæti og kexi og annarri svipaðri vöru.
Nú er það svo, að langminnstur hluti sykursins kemur á matborð okkar á matmálstímum, og aðeins nokkur hluti hvíta hveitisins. Sykurs er aðallega neytt á milli máltíða: Í kökum, ýmsum brauðmat, sælgæti, gosdrykkjum, með kaffi o.s.frv., og mikið af hveitinu er etið sem kaffibrauð, sætt eða ósætt. Þar við bætist, að í margar af þessum neysluvörum er notuð mikil feiti, og það mun jafnan vera mettuð feiti. Og loks bætir það ekki úr skák, að þær eru yfirleitt gjörsneyddar vítamínum og hinum nauðsynlegu grófefnum eða trefjaefnum.
Lausnin á offituvandamálinu er því þessi: Skera niður millimáltíðir, sælgæti og sæta drykki. Með þessu sláum við margar flugur í einu höggi:
1. Offitan er praktískt talað úr sögunni, nema helst hjá einstaka átvagli, sem kann sér ekki magamál, eða hjá fólki með afbrigðileg efnaskipti.
2. Líkur fyrir sjúkdómum í hjarta og æðum minnka, og sama er að segja um háan blóðþrýsting og tregar hægðir svo eitthvað sé nefnt af þeim kvillum sem eru fylgifiskar ofneyslu fitu og hreinsaðra, vítamínsnauðra matvæla.
3. Ekki þarf að hafa miklar áhyggjur út af daglegum máltíðum, því að með neyslu blandaðra fæðutegunda úr ýmsum matvælaflokkum ætti að vera vel séð fyrir þeim næringarefnum sem líkaminn þarfnast, þegar útrýmt hefir verið að mestu hinum efnasnauðustu allra matvæla, sykri og hveiti.
4. Væri farið að þessum ráðum, væri ástæðulaust að skera neyslu mjólkur og smjörs við nögl, enda þótt mjólkurþamb sé ástæðulaust og alls ekki til bóta, jafnvel ekki fullfrísku fólki, og sérstaklega er ástæða til að vara við því að nota mjólk sem svaladrykk, hvort sem börn eða fullorðnir eiga í hlut.
Sumir kunna að halda, að undanrenna sé efnasnauð matvara. Svo er alls ekki. Hún er fitusnauð, og því miður hafa fitunni fylgt hin fituuppleysanlegu vítamín, A og D. Sú hugmynd að bæta þessum vítamínum í undanrennuna hefir þann mikla galla, að slíkt mundi hækka verðið til muna. Í staðinn er í lófa lagið að taka svo sem eina teskeið af lýsi á dag, í því fá börn og fullorðnir miklu meira af þessum vítamínum en með venjulegri mjólkurneyslu. Undanrennan inniheldur öll eggjahvítuefni mjólkurinnar, kolvetnin, kalk og fleiri steinefni og öll vatnsuppleysanlegu vítamínin, svo sem B og C. Frá þessu sjónarmiði skoðað er engin ástæða til að hafa mikinn verðmun á nýmjólk og undanrennu, enda þótt nær helmingsmunur sé á hitaeiningafjölda vegna brottnáms fitunnar.
Annars er allt þetta fjaðrafok út af verðhækkun undanrennunnar byggt á hreinustu hugsunarvillu, því að feitt fólk og hjartasjúklingar, sem neyta undanrennu en hætta að nota nýmjólk og smjör, spara við það drjúgan skilding.
Og lætur nokkur heilvita maður sér til hugar koma, að verðhækkun á undanrennu leiði til þess, að þetta fólk fari aftur að kaupa mjólk á hærra verði og borða smjör til þess að spilla heilsu sinni?
Loks má þess geta að neysla undanrennu mun nema milli 5 og 10% af neyslu nýmjólkur.
Björn L. Jónsson
Heilsuvernd 1. tbl. 1978, bls. 9-13