Inngangur
Í lögum Náttúrulækningafélags Íslands segir svo í 3. gr.:
“Tilgangi sínum hyggst félagið að ná m.a.:
c) með því að vinna að stofnun heilsuhæla, sem beiti náttúrlegum heilsuverndar- og lækningaaðferðum (ljós, loft, vatn, mataræði, hreyfing, hvíld)”.
Þessi grein hefir staðið efnislega óbreytt í lögum félagsins frá stofnun þess fyrir rúmum 26 árum.
Fyrstu gjafir og fjáröflun
Rúmu ári eftir stofnun félagsins barst því fyrsta gjöfin til stofnunar heilsuhælis, að upphæð 100 krónur, frá frú Þuríði Erlendsdóttur, Grettisgötu 57B í Reykjavík. “Mjór er mikils vísir”. Í dag mundi ekki þykja mikið koma til slíkrar gjafar. En þá var verðgildi peninga meira en nú, þannig að af fátækri konu má kalla þetta stórgjöf, og hún sýnir bjartsýni gefandans og trú á gott málefni. Væri viðeigandi, að minningu þessarar mætu konu væri einhver meiri sómi sýndur en að geta nafns hennar í afmælisgreinum um félagið eða hælið.
Á aðalfundi félagsins 18. marz 1942 var samþykkt tillaga um stofnun Heilsuhælissjóðs NLFÍ, en ekki var endanlega gengið frá skipulagsskrá sjóðsins fyrr en tveimur árum síðar, og er hún birt í B-deild Stjórnartíðinda 1944 bls. 111, og prentuð í 3. hefti Heilsuverndar 1948 með breytingum, sem síðar voru gerðar.
Á aðalfundi 1943 var kosin fyrsta fjáröflunarnefnd fyrir sjóðinn, og var frú Matthildur Björnsdóttir formaður hennar, en aðrir nefndarmenn frú Arnheiður Jónsdóttir, ungfrú Elín Egilsdóttir, frú Guðrún Þ. Björnsdóttir, Pétur Jakobsson fasteignasali, frú Unnur Skúladóttir og Þorvaldur Jónsson verzlunarmaður. Nefndin sendi konum innan félagsins samskotalista, og söfnuðust þannig í fyrstu atrennu milli 40 og 50 þúsund krónur.
Fyrstu stjórn, sem kosin var samkvæmt skipulagsskrá sjóðsins, skipuðu: Frú Matthildur Björnsdóttir formaður, frú Fanney Ásgeirsdóttir, frú Guðrún Þ. Björnsdóttir, frú Kristjana Carlsson og Pétur Jakobsson. Unnið var ötullega að fjársöfnun næstu árin, fenginn fastur árlegur merkjasöludagur, prentuð minningarspjöld, haldnar skemmtanir, basarar, auk þess sem gjafir og áheit bárust úr ýmsum áttum. Stærstu gjafirnar á þessum fyrstu árum voru 5 þúsund krónur, sem Sigurður Guðmundsson klæðskerameistari afhenti á fimmtíu ára afmæli sínu, til minningar um móður sína og systur látnar, og 5 þúsund króna dánargjöf frá frú Unu Vagnsdóttur í Hafnarfirði.
Árið 1947 var stofnað til fyrsta happdrættis til ágóða fyrir sjóðinn. Tókst að afla margra glæsilegra happdrættismuna, svo sem bíls og heimilisvéla. Með góðri aðstoð félagsmanna seldust miðarnir upp, og varð hagnaður af happdrættinu 170 þús. krónur. Næst var efnt til happdrættis árið 1950, og varð ágóði af því um 100 þús. krónur, en síðari tilraunir með happdrætti hafa gefið minna af sér. Sala happdrættismiða hlýtur að verulegu leyti að byggjast á aðstoð félagsmanna, og er þess varla að vænta, að þeir bregðist alltaf jafn vel við, þegar oft er til þeirra leitað á þann hátt.
Staðarval
Það mun hafa verið árið 1941, sem stjórn NLFÍ fór fyrst að svipast um eftir stað fyrir væntanlegt hæli. Æskilegt var talið, að þar væri nægur jarðhiti, skilyrði til ræktunar matjurta og helzt einnig fyrir kúabú. Árið 1943 var kosin sérstök nefnd til að velja hælinu stað, og að tillögum hennar festi félagið 1946 kaup á landnámsjörðinni Gröf í Hrunamannahreppi. Tveimur árum síðar var Ágústi Steingrímssyni byggingafræðingi falið að gera tillöguuppdrátt að hælisbyggingu.
Sumardvalarheimili
Gerðist nú ekkert nýtt í málinu um hríð. Vegna fjárskorts voru engin tök á að hefja byggingaframkvæmdir. En sumarið 1951 var ákveðið að starfrækja sumardvalarheimili í húsakynnum húsmæðraskólans að Hverabökkum í Hveragerði. Var það talið æskilegur undirbúningur undir stofnun væntanlegs hælis, enda fékkst af því mikilsverð reynsla varðandi starfsemi núverandi hælis. Þessi tilraun leiddi í ljós: 1. Að dvalargestir sættu sig vel við mjólkur- og jurtafæði og söknuðu þess furðu lítið, að ekki var kjöt, fiskur né kaffi á borðum. 2. Að fæðiskostnaður var sízt meiri en þar sem notað er venjulegt blandað fæði. 3. Að í fæðinu var yfrið nóg af helztu næringarefnum, svo sem eggjahvítu, steinefnum og fjörefnum. Um þetta var birt ítarleg skýrsla í 4. h. Heilsuverndar 1951 og 2. h. 1961.
Aðsókn var eins mikil og hægt var að sinna, og dvöldu þarna um sumarið 103 konur og 54 karlar. Daggjöld voru 50-55 krónur. Næsta sumar var sumardvalarheimili starfrækt í húsmæðraskólanum að Varmalandi í Borgarfirði, og dvöldu þar 121 kona, 64 karlar og 23 börn, en sumurin 1953 og 1954 fór reksturinn fram á ný í Hverabökkum í Hveragerði. Voru daggjöldin þá komin upp í 70 krónur.
Nýr staður valinn og hælið reist
Á þessum árum hafði stjórn NLFÍ verið að leita fyrir sér um möguleika á landi fyrir væntanlegt heilsuhæli í Hveragerði, sem þótti betur í sveit sett en Gröf hvað samgöngur snerti. Að lokum lét ríkið félaginu í té landspildur beggja vegna Varmár austan við Hveragerðisþorp, samtals að stærð um 18 hektarar. Gröf var seld, og bygging hælisins hófst árið 1953 og hinn 24. júlí 1955 var hælið opnað með 40 rúmum.
Árið 1956 var hafizt handa um byggingu baðdeildar, sem tók til starfa 1957, og með bréfi dagsettu 15. okt. sama ár veitti heilbrigðisstjórnin félaginu heimild til að starfrækja gigtlækningadeild innan hælisins. Til þess tíma höfðu flestir dvalargestir orðið að greiða sjálfir allan kostnað af dvöl og meðferð í hælinu, en síðan hafa öll sjúkrasamlög tekið á sig nokkuð af þessum kostnaði, yfirleitt að; hlutum, þegar um gigtarsjúklinga er að ræða. Sama gildir um ýmsa sjúklinga, sem sendir hafa verið frá sjúkrahúsum, og sjúklinga á ríkisframfærslu.
Árið 1957-8 var byggð sundlaug við hælið og árið 1962 önnur minni, ætluð ósyndum dvalargestum. Árlega hafa verið reistar nýbyggingar við hælið, og skal það helzta rakið hér á eftir:
1958-59: Önnur íbúðarálma reist með 36 rúmum í tveggja og þriggja manna herbergjum, og í þeim síðarnefndu er snyrtiklefi með steypibaði. Rúmafjöldi er nú 80.
1960: Tekið í notkun starfsmannahús með 13 einbýlis- og tvíbýlisherbergjum, eldhúsi, baði og geymslu.
1961: Tvö gróðurhús reist, að flatarmáli samtals 300 m2. Gufubaðstofa sett upp.
1962: Eldri íbúðarálma lengd og komið þar fyrir 7 einbýlisherbergjum og lítilli setustofu. Álma norðan sundlaugar lengd til austurs. Þar er m.a. föndurstofa og skápar fyrir bókasafn hælisins.
1963: Nýtt þvottahús fullgert með afkastamiklum vélum. Baðdeild stækkuð og endurbætt. M.a. voru sett þar upp leirbaðker úr trefjaplasti frá plastverksmiðjunni á Blönduósi, og komið fyrir vatnsnuddi. Hænsnabú sett upp.
1964: Reist nýtt starfsmannahús með þremur íbúðum, tveggja herbergja, með eldhúsi, baði og góðum skápum.
1965: Um páskana var tekin í notkun þriðja íbúðarálman með 22 eins manns herbergjum og 3 tvíbýlisherbergjum. Þar var og komið fyrir litlu bænaherbergi, og var frú Barbara Árnason fengin til að mála glugga í það. Þessari álmu fylgir lítil setustofa. Eru þá alls í hælinu 110 rúm.
Öll þessi ár hefir verið lögð mikil vinna í fegrun lóðarinnar, ræktaðir grasfletir, gróðursett tré og plantað út blómum, og sett hafa verið upp sólskýli.
Garðyrkjustöðin
Árið 1958 var hafizt handa um garðrækt á landi hælisins. Er nú ræktað þar allt venjulegt grænmeti, sem fullnægir að mestu þörfum hælisins. Enginn tilbúinn áburður er notaður, heldur húsdýraáburður, þang, úrgangur frá sláturhúsinu á Selfossi og úrgangur frá görðum og gróðurhúsum, allt sett í safnhauga og látið rotna og ummyndast, áður en það er sett í garðana.
Bað- og nudddeildin í dag
Þegar þetta er ritað, í september 1965, er nýlokið standsetningu nýrrar nuddstofu í tengiálmunni milli aðalgangs og baðdeildar. Er þar komið fyrir kolbogaljósum, hljóðbylgju- og stuttbylgjutækjum og áhöldum til sjúkraleikfimi, og í baðdeildina eru komin sérstök baðker fyrir setböð, fótaböð og armböð, auk venjulegra baðkera. Er aðstaða til bað- og nuddmeðferðar nú orðin betri en annarstaðar hér á landi og þótt víðar væri leitað og hælið orðið eitt stærsta og fullkomnasta náttúrulækningahæli í Evrópu.
Aðsókn að hælinu
Aðsókn að hælinu hefir farið sívaxandi frá því fyrsta. Þannig var tala dvalargesta árið 1957 350 og 1958 um 550, en árið 1963 um 1150, og frá 1959 hefir tala dvalardaga hækkað úr 17.680 upp í 27.000, sem svarar til þess, að daglega hafi dvalið þar að meðaltali 50 manns árið 1959 og 75 1964.
Suma tíma árs þarf að neita fólki um hælisvist, og eru þá margir á biðlista. Um miðsvetrarleytið fækkar talsvert, og einnig að sumrinu þá tvo mánuði, sem sjúkrasamlögin greiða minna en aðra tíma árs.
Ekki er gert ráð fyrir, að hælið verði stækkað meira. Ef fjölga ætti rúmum, þyrfti að stækka borðstofu, svo og sum önnur húsakynni, og væri þá varla um annað að ræða en að reisa nýtt hæli. Á hinn bóginn er þörf á auknu húsnæði fyrir starfsfólk, bæði íbúðum og einbýlisherbergjum. Auk þess er ærið verkefni fyrir höndum á landareign hælisins að skipuleggja hana og prýða.
Fjárhagur
Ekki verður annað sagt en að rekstur hælisins hafi gengið að óskum. Öll þessi ár hefir hælið skilað dálitlum hagnaði, enda þarf svo að vera, þar sem afkoma stofnunarinnar byggist svo að segja eingöngu á rekstri hennar. Rekstrarstyrk fær hælið engan frá opinberum aðilum, og gjafir hafa yfirleitt gengið til ákveðinna verkefna eða nýbygginga.
Félagið hafði ekki úr miklu að spila, þegar bygging hælisins var hafin. Þá voru handbærar í sjóði rúmar 400 þús. krónur, fyrir Gröf fengust tæpar 300 þúsundir, gefið var út skuldabréfalán að upphæð 100 þús. krónur, og Tryggingastofnun ríkisins lánaði 250 þús. krónur, en aðeins til eins til þriggja ára. Um skeið lágu framkvæmdir niðri vegna fjárskorts, en þá hljóp forseti félagsins, Jónas Kristjánsson læknir, undir bagga og gaf til byggingarinnar 150 þús. krónur til minningar um þrjá látna ástvini sína, og bera þrjú herbergi hælisins nöfn þeirra. Fyrir merkjasölu o.fl. höfðu safnazt 100 þús. krónur, og loks veitti Alþingi byggingarstyrk til hælisins, að upphæð 100 þús. krónur. Þegar hælið var opnað, nam byggingarkostnaður með innbúi um 1.6 milljónum króna.
Fjár til þeirra bygginga, sem síðan hafa verið reistar, og til annarra framkvæmda, hefir aðallega verið aflað með lánum í ýmsum lánastofnunum. Alþingi hefir árlega veitt styrk til slíkra framkvæmda, eitt til tvö hundruð þúsund krónur, og á árinu 1965 320 þúsund krónur, og ágóði af happdrættum, merkjasölu og gjafir hafa numið talsverðum upphæðum. Í árslok 1964 hafði verið varið í byggingar rúmum 9 milljónum króna og í húsgögn og áhöld um 250 þúsundum. Á þessu ári var lokið byggingu síðustu íbúðarálmunnar, sem með innbúi mun hafa kostað um 3.5 milljónir króna. Alþingi veitti á síðasta ári heimild fyrir þriggja milljón króna ríkisábyrgð fyrir lánum til þessarar byggingar, þannig að greiðlega gekk að afla lánsfjár til hennar. Við síðustu áramót var skuldlaus eign hælisins 3.7 milljónir króna, eftir að fasteignir og áhöld hafa alltaf verið afskrifuð með venjulegum hætti. Heildarveltan nam á síðasta ári 8.5 milljónum króna. Langsamlega hæsti útgjaldaliðurinn er vinnulaun, sem námu 3.3 milljónum króna, og er hælið nú sá atvinnurekandi, sem mest vinnulaun greiðir í Hveragerði.
Daggjöld
Eins og að líkum lætur, hafa daggjöld dvalargesta farið síhækkandi, svo að segja með hverju ári. Árið 1958 voru daggjöld þannig 135 krónur, 180 krónur árið 1962, hækkuðu upp í 245 krónur árið 1963, en eru nú á þessu ári 350 krónur og 50 krónur að auki á einbýlisherbergjum. Af þessu greiða sjúkrasamlög vegna gigtarsjúklinga 265 krónur á dag, nema tvo mánuði að sumrinu aðeins 140 krónur. Í daggjöldum er innifalin öll meðferð, svo og rannsóknir og önnur læknisþjónusta hins fastráðna hælislæknis. Er þetta miklum mun ódýrara en á flestum sjúkrahúsum eða hælum hérlendis. Og dvalarkostnaður í áþekkum hælum erlendis mun yfirleitt vera hærri, víða svo að munar helming eða vel það.
Starfslið
Fyrst skal getið þeirra fagmanna, sem unnið hafa að byggingu hælisins.
Ágúst Steingrímsson byggingafræðingur teiknaði fyrsta áfanga hælisins, eins og áður er sagt. Síðari viðbætur hafa teiknað Manfred Vilhjálmsson og Bjarni Pálsson, Selfossi.
Jón Guðmundsson byggingameistari, Hveragerði, hefir reist allar byggingar hælisins, Sigurjón Vilhjálmsson málarameistari, Hafnarfirði, annazt málningu og Guðjón Pálsson rafvirkjameistari, Hveragerði, raflagnir.
Þegar Björn L. Jónsson, sem verið hafði framkvæmdastjóri NLFÍ um árabil, hvarf að læknisfræðinámi árið 1953, var Sigurjón Danívalsson ráðinn í hans stað, og tók hann við því starfi í febrúar 1954. Hafði hann veg og vanda af byggingu fyrsta áfanga hælisins og rekstri þess fyrstu árin. Hann andaðist 15. ágúst 1958, og í stað hans var ráðinn núverandi framkvæmdastjóri, Árni Ásbjarnarson, frá 1. nóv. 1958, svo sem getið er í síðasta hefti Heilsuverndar.
Fyrsti læknir hælisins var Jónas Kristjánsson, sem lézt að heimili sínu í Heilsuhælinu sunnudaginn 3. apríl 1960. Þegar bygging baðdeildar hófst árið 1956, var Úlfur Ragnarsson læknir ráðinn Jónasi til aðstoðar, og fór hann utan til að kynna sér baðlækningar. Hann lét af störfum haustið 1960, og í stað hans var ráðinn Högni Björnsson, sem gegndi störfum hælislæknis frá byrjun október 1960 til febrúarloka 1965. Halldór Guðnason tók við af honum um nokkurra mánaða skeið, en frá 1. júní þessa árs var Björn L. Jónsson ráðinn yfirlæknir hælisins í samræmi við ákvæði sjúkrahúsalaganna. Þegar hælið fékk viðurkenningu sem gigtlækningahæli, var Karl Jónsson ráðinn sem sérfræðingur hælisins í gigtarsjúkdómum. Tekur hann á móti sjúklingum í lækningastofu sinni í Reykjavík og kemur síðan vikulega í hælið til eftirlits og viðtals.
Fastráðnar matráðskonur hafa verið þessar: Guðrún Hrönn Hilmarsdóttir, Sigurlaug Jónsdóttir, Sigurbjörg Guðlaugsdóttir, Guðborg Brynjólfsdóttir og Pálína Kjartansdóttir, sem lengst hefir starfað við hælið, eða frá ársbyrjun 1961. Allar eru þær húsmæðrakennarar nema Guðborg og Sigurbjörg. Í vetur gegnir frú Sigurlaug Jónsdóttir störfum fyrir Pálínu, sem dvelur í Danmörku við nám í næringarfræði.
Hjúkrunarkonur hefir jafnan gengið erfiðlega að fá, og veldur því hinn almenni hjúkrunarkvennaskortur í landinu. Þó mun alltaf hafa starfað við hælið ein lærð hjúkrunarkona, og hafa sumar verið erlendar. Yrði of langt mál að telja upp nöfn þeirra. En fyrstu hjúkrunarkonurnar og þær, sem lengst hafa starfað við hælið, eru Helga Kaaber, Ásthildur Briem og Ragna Nordal.
Starfsfólk í bað- og nudddeild hefir aldrei skort, en síðustu árin hafa flestar nuddkonur verið frá Þýzkalandi, því að þaðan reynist auðvelt að útvega þær, en vöntun er á innlendu nuddfólki. Frá 1. júlí 1965 var Svana Einarsdóttir ráðin yfirsjúkraþjálfari hælisins.
Það hefir gengið greiðlega að ráða annað starfsfólk að hælinu, og er ekki hægt að sjá, að fæðið fæli fólk frá að vinna þar.
Núverandi garðyrkjumaður, Niels Busk, hefir starfað við hælið frá því í ársbyrjun 1963, og annast hann bæði garðyrkjustöðina og hirðingu lóðar. Fyrirrennari hans var Pétur Guðvarðsson um rúmlega eins árs skeið frá því gróðurhúsunum var komið upp árið 1961.
Gjafir
Hér verður getið helztu gjafa, sem hælinu hafa hlotnazt. Skulu þá fyrst talin upp herbergi, helguð minningu látinna manna eða einstakra félaga, en nöfn gefenda og upphæðir verða ekki tilgreind. Öll þessi minningarherbergi eru í fyrstu íbúðarálmu hælisins.
Nr. 3 Guðspekifélag Íslands.
– 5 Regína Margrét Jónasdóttir (f. 30.4.05, d. 31.8.23).
– 6 Kristján Jónasson (f. 12.5.14, d. 27.7.47).
– 7 Hansína Benediktsdóttir (f. 17.5.74, d. 21.7.48).
– 9 Guðjón H. Sæmundsson (f. 11.8.83, d. 26.10.60).
– 17 Guðrún Guðnadóttir (f. 13.10.91, d. 1.11.25).
– 18 Náttúrulækningafélag Ísafjarðar.
– 19 Siglfirðingabúð.
– 20 Kristmundur Jónsson (f. 8.8.95, d. 9.1.60).
Margar smærri og stærri peningagjafir og áheit hafa hælinu borizt, t.d. 20 þúsund krónur frá gefanda, sem vildi ekki láta nafns síns getið, og hinn 14. okt. 1956 færði Jón Ívarsson, fyrrv. forstjóri Grænmetisverzlunar ríkisins, Jónasi Kristjánssyni 25 þúsund krónur að gjöf til hælisins frá Grænmetisverzluninni, í tilefni af 20 ára starfi verzlunarinnar, og fylgdu gjöfinni þau ummæli, að hún væri innt af hendi sem uppbót á mikil og ágæt viðskipti um langt árabil og jafnhliða sem viðurkenning á brautryðjanda- og þjóðnytjastarfi NLFÍ.
En langsamlega stærstu gjafirnar eru þær, sem getið er nýlega í Heilsuvernd: Frá Jónasi lækni Kristjánssyni, aðalstofnanda og fyrsta forseta NLFÍ, hefir runnið til hælisins samtals nærfellt hálf milljón króna, og eftirmaður hans í forsetasæti, frú Arnheiður Jónsdóttir, hefir nýlega ánafnað hælinu eftir sinn dag íbúð, sem hún keypti í starfsmannahúsi hælisins fyrir 300 þúsund krónur.
Af öðrum gjöfum skal þessara getið:
Jónas Kristjánsson hafði fyrir mörgum árum ánafnað félaginu eftir sinn dag bókasafn sitt, sem hefir að geyma mikinn fjölda verðmætra bóka, innlendra og erlendra. Er bókasafnið geymt í herbergi því, þar sem Jónas bjó síðustu ár ævi sinnar, og standa húsgögn og aðrir munir þar óhreyfðir enn í dag. Á áttræðisafmæli Jónasar barst honum bréf frá hjónunum Ingibjörgu Guðmundsdóttur og Þorvaldi Árnasyni skattstjóra í Hafnarfirði, þess efnis, að frú Sigríður Davíðsdóttir, fyrrv. ljósmóðir, móðir og tengdamóðir þeirra hjóna, hefði á dánarbeði sínum mælt svo fyrir, að bækur hennar skyldu afhentar sem gjöf einhverju hæli eða sjúkrahúsi, og hafi þau nú ákveðið að láta Heilsuhæli NLFÍ verða þessarar gjafar aðnjótandi. Gjöf þessi varð síðar uppistaðan í bókasafni hælisins, því sem ætlað er dvalargestum til afnota. Síðan hafa hælinu borizt bókagjafir úr ýmsum áttum, og eru nú í bókasafninu um 700 bindi.
Árið 1956 eignaðist hælið vandaða slaghörpu, sem jurtaneytendafélagið Gróandi færði því að gjöf. Fyrir samskot sjúklinga var keypt stundaklukka, og með samskotum sjúklinga var stofnaður Kapellusjóður til minningar um Sigurjón Danívalsson. Þá hafa hælinu borizt að gjöf málverk og myndir, m.a. ljósmynd af altaristöflu Bessastaðakirkju frá forsetahjónunum Ásgeiri Ásgeirssyni og Dóru Þórhallsdóttur, sem nokkrum sinnum höfðu dvalið í hælinu.
Föndurstofa og bókasafn
Ingveldur Kristmunda Brynjólfsdóttir, er dvaldi sem sjúklingur í hressingarheimilinu í Hveragerði sumarið 1951 og hlaut upp úr því eftirtektarverðan bata á langvarandi heilsuleysi, hefir átt heimili í hælinu frá stofnun þess. Hún er hög og listræn og tók brátt að leiðbeina dvalargestum í föndri. Árið 1962 fékk hún betri aðstöðu til slíkrar kennslu, sem fer fram að vetrinum og er vel sótt. Jafnframt sér hún um bókasafn hælisins, annast útlán og gerir við og bindur jafnvel inn bækur þess, auk ýmissa annarra starfa fyrir hælið.
Dægrastyttingar
Töfl og spil liggja frammi til afnota fyrir hælisgesti. Oft safnast dvalargestir saman á kvöldin og taka lagið, ef einhver spilar undir, en meðal gesta eru iðulega hljóðfæraleikarar. Þá eru fengnir menn til að flytja erindi eða haldnar kvöldvökur með ýmsum hætti. Nýlega var komið upp krokketvelli á milli tveggja eldri álma hælisins, og í ráði er að skapa aðstöðu til einhverra innileikja.
Minnisvarði Jónasar Kristjánssonar
Á 90 ára afmælisdegi Jónasar Kristjánssonar, hinn 20. sept. 1960, var afhjúpaður minnisvarði um hann á grasflötinni framan við aðalinngang hælisins. Er það eirafsteypa af brjóstmynd eftir Einar Jónsson myndhöggvara.
Reykingaskálinn
Þar sem erfitt reyndist að halda uppi reykingabindindi í hælinu, var það tekið til bragðs árið 1963 að leyfa reykingar í sérstöku herbergi innan hælisins. Virðist sú tilhögun hafa gefið góða raun, þannig að reykingar hafi að mestu horfið úr sögunni í hreinlætisherbergjum og íbúðarherbergjum, en áður voru mikil brögð að slíku. Margir eru svo háðir tóbakinu, að vonlaust er að geta útrýmt reykingum með öllu, og þetta er sú tilhögun, sem ætti að valda öðrum minnstum óþægindum.
Framtíðarhorfur
Eins og fyrr er sagt, verður hælið varla stækkað frá því sem nú er, enda þótt ekki sé hægt að fullnægja eftirspurn suma tíma ársins. En framundan eru næg verkefni. Byggja þarf fleiri starfsmannaíbúðir, leggja nýja hitavatnsleiðslu, fegra umhverfi hælisins, koma á margs konar umbótum innanhúss og utan, m.a. í sambandi við starfsskilyrði, allt með það fyrir augum að auðvelda og bæta þjónustu við dvalargesti og gera þeim dvölina sem ánægjulegasta og árangursríkasta. Það er því engin hætta á, að stjórnendur hælisins þurfi að sitja auðum höndum næstu árin vegna skorts á verkefnum.
Niðurlagsorð
Að lokum skal áherzla lögð á það, að tilgangurinn með stofnun þessa hælis var ekki sá einn að veita fólki kost á lækningu meina sinna, heldur vakti það fyrst og fremst fyrir stofnanda Náttúrulækningafélagsins og brautryðjanda náttúrulækningastefnunnar hér á landi, Jónasi lækni Kristjánssyni, að kenna fólki að lifa rétt til þess að koma í veg fyrir sjúkdóma. Hugsjón hans var að setja hér upp einskonar skóla í heilsusamlegu líferni, skóla fyrir unga sem aldna. Það hlutverk hefir orðið nokkuð útundan þennan fyrsta áratug, m.a. vegna þess að kraftar forráðamanna hælisins hafa orðið að beinast svo mjög að uppbyggingu þess. En hugsjónir brautryðjandans eru ekki grafnar eða gleymdar, þótt hann sé horfinn af sjónarsviðinu. Og vonandi bera arftakar hans um langa framtíð gæfu til að halda merki hans á lofti, landi og lýð til farsældar.
Björn L. Jónsson
Heilsuvernd 5. tbl. 1965, bls. 137-151