Forsíða Náttúrulækningastefnan

Náttúrulækningastefnan

Höf. Geir Gunnar Markússon
Náttúrulækningastefnan

Upphafsmaður náttúrulækningastefnunnar hér á landi, Jónas Kristjánsson læknir, vildi auka lífsgæði þjóðarinnar með heilbrigðari lífsháttum. Hann höfðaði til skynseminnar og hvatti fólk til að bera ábyrgð á eigin heilsu. Hann kappkostaði að miðla þeirri þekkingu og fróðleik, sem sannastur var og réttastur á hverjum tíma. Hann stóð ætíð traustum fótum í þekkingarheimi vísindanna.

Öll þekkjum við borgarlíf nútímans. Þar lifum við í tilbúnu umhverfi, gerðu af manna höndum. Það er heimur malbiks og steinsteypu. Það er heimur kyrrsetumanna. Þar er andrúmsloftið mengað, maturinn mengaður og umhverfið mengað. Þar ríkir einnig sálræn og félagsleg spenna, sem margir eiga erfitt með að þola. Náttúrulækningastefnan er ma. fólgin í því að hafa aðgát á þeim áhrifum, sem þessi þróun hins tilbúna umhverfis nútímans hefur á andlega og líkamlega heilsu manna og halda sambandinu við hin náttúrulegu lífsskilyrði.
Náttúrulækningastefnan er mjög gömul, enda þótt þetta heiti sé tiltölulega nýtilkomið. Faðir þessarar stefnu er gríski læknirinn Hippókrates, sem jafnframt er talinn faðir læknisfræðinnar og var uppi á 5. öld fyrir Krists burð. Hippókrates lagði megináherslu á að koma í veg fyrir sjúkdóma með réttum lifnaðarháttum.

Margir álíta að náttúrulækningastefnan og jurtaneyslustefnan séu eitt og hið sama og að aðalmarkmið náttúrulækningamanna sé að útrýma kjöti og fiski af matborðum almennings. Þetta er misskilningur. Jurtaneyslustefnan er forn og byggir aðallega á trúfræðilegum og siðfræðilegum forsendum. Jurtaneytendur telja ekki heimilt að deyða dýr til matar. Þeir borða hins vegar mjólkurmat og egg. Sumir ganga þó lengra og nota engar dýraafurðir, hvorki mjólk, egg, ull né húðir. Þessir hópur kallar sig vegana en aðrir jurtaneytendur ganga undir nafninu vegetarinar. Jurtaneytendur hafa til skamms tíma ekkert haft á móti kaffi, hvítu hveiti og hvítum sykri, en þessar neysluvörur eru í augum náttúrulækningamanna einhverjir skæðustu heilsuspillar nútímans, auk reykinga. Samtök jurtaneytenda hafa nú almennt tekið upp alhliða heilsuverndarstefnu að hætti náttúrulækningamanna.

Náttúrulækningastefna Heilsustofnunar NLFÍ í Hveragerði, sem tók til starfa árið 1955, byggir á heildrænum lækningum. Þar er heilsuvandi einstaklinganna skoðaður með það í huga, að líta þurfi á andlegt líkamlegt og félagslegt ástand í samhengi. Meðferðarstefnan felur m.a. í sér þá viðleitni, að koma á og viðhalda eðlilegum og heilbrigðum tengslum á milli einstaklings og umhverfis hans og að efla varnir líkama og sálar gegn hvers konar vanheilsu og sjúkdómum. Meginhlutverk Heilsustofnunar NLFÍ er að vera heilsuverndar-, endurhæfingar- og kennslustofnun. Dvalargestir þurfa að hafa fótavist og geta bjargað sér að mestu sjálfir við daglegar athafnir. Við meðferð er lögð áhersla á markvissa hreyfingu, hollt mataræði, slökun og hvíld. Fræðsla og fagleg ráðgjöf er stór þáttur í starfinu og er þar lögð mest áhersla á heilsuvernd og bætta lífshætti. Náttúrulækningastefna Heilsustofnunar NLFÍ er í fullu samræmi við markmið Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um bætt heilbrigði og heilsufarsþróun í heiminum og hún fellur vel að íslenskri heilbrigðisstefnu.

Stefna Náttúrulækningafélags Íslands hefur ávallt verið sú, að auka og efla þátt hugtakanna heilbrigði og heilsuvernd í umræðu og verkum, og víkja frá hinni einlitu sjúkdómaumræðu. Það eflir heilbrigði og þroska að fara eftir stefnunni, meðal annars með fræðslu, neyslu holls fæðis, líkamsþjálfun, slökun og hvíld. Tilgangur og takmark náttúrulækningastefnunnar eru því annars vegar heilsuvernd og hinsvegar heilsubót. Þessi markmið eru enn í fullu gildi. NLFÍ forðast kennisetningar eða kreddur, sem ekki standast vísindalega gagnrýni. Hófsemi í líferni og skilningur á heildstæðum lausnum læknisfræðinnar, heilbrigt líferni í víðum skilningi, verður meginhlutverk félagsins í nútíð og framtíð, auk umhverfisverndar.

Þessi vefsíða notar vafrakökur (cookies) til að bæta upplifun notenda. Leyfa vafrakökur Lesa meira