Margrét Arnljótsdóttir sálfræðingur flutti erindi um streitu.
Þakka þér fyrir, Árni. Ég verð víst að biðja ykkur afsökunar á fyrstu glærunni, ég held að mér hafi tekist að gera tvær stafsetningarvillur. Þetta hlýtur að vera stress. Nú, þær eru þrjár! Þetta er spurning um hraða, vegna þess að ég gerði þetta með alveg ógurlegum hraða, bara í rauninni fyrir hálftíma, klukkutíma síðan.
En ég ætlaði að tala um stress. Orðið stress eða streita er upphaflega komið frá vélamáli. Ef það er of mikið álag á einhverjum punkti í einhverjum málmi þá er það nefnt stress og þetta getur orsakað bilanir og haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir alla vélina.
En stressviðbrögð hjá okkur mönnunum eru ættuð alla leið frá frummönnunum. Þegar frummaðurinn fór út fyrir hellinn sinn og hitti tígrisdýr þá skipti máli að hann fengi súrefni og orku út í blóðið. Þannig að andardrátturinn varð dýpri, lifrin dældi sykri út í blóðið, hjartslátturinn jókst, blóðþrýstingurinn hækkaði og vöðvarnir bjuggu sig undir baráttu. Þetta þýddi að frummaðurinn gat annað hvort hlaupið í burtu eða barist við tígrisdýrið. Þetta er kallað fight-or-flight, að berjast eða flýja.
Við erum náttúrlega ekki úr málmi og við erum ekki vélar. Og það eru engin tígrisdýr þó svo að líkami okkar haldi það stundum þegar við spennum okkur upp. Það er líka mjög einstaklingsbundið hvernig við bregðumst við álagi. Það sem ein manneskja þrífst á og gerir henni lífið þess virði að lifa því, það getur verið ógn og skelfing fyrir aðra manneskju.
En hvað er stress hjá okkur nútímafólki? Það er eitthvað með álag og þeir sálfræðingar sem fyrst fóru að rannsaka stress voru mjög uppteknir af álagi og hvernig líkaminn brygðist við álagi.
Álag
En það er margs konar álag í nútímasamfélagi. Ef ég nefni fjórar mismunandi tegundir álags. Það geta verið kröfur sem þú velur þér sjálfur, eins og t.d. að ætla sér að ná ágætiseinkunn í skóla, eða ná langt í vinsældum, að vinna sér inn nægan lífeyri til þess að komast á eftirlaun sextugur.
Álag getur líka stafað af félagslegum samskiptum sem við erum í við aðra og þeim hlutverkum sem við leikum þar, s.s. við sem foreldrar, við sem fagaðilar, vinir, makar, starfsmenn. Og allir vita að álag fylgir líka lífsbreytingum, t.d. að byrja í nýrri vinnu, gifta sig, flytja, verða gjaldþrota, fara á eftirlaun. Ef lífsbreytingarnar eru of miklar eða of róttækar á stuttum tíma þá getur það orðið til þess að við stöndum okkur ekki. Miklar lífsbreytingar geta átt þátt í alvarlegum heilsufarsvandamálum.
Að lokum þá þurfum við í nútímasamfélagi endalaust að aðlaga okkur. Við þurfum að aðlaga okkur að veðrinu, umferðinni, hávaða, samstarfsmönnum í vondu skapi, þvottavél sem bilar. Það eru til rannsóknir sem benda til að daglega álagið geti haft enn meira að segja um það hvort við verðum stressuð heldur en stórir lífsviðburðir. Svo er önnur hlið sem segir að við þrífumst í ákveðnu álagi. Mátulegt álag gerir það að verkum að okkur verður eitthvað úr verki. Ef álagið er of lítið þá gerist ekkert hjá okkur. Fyrir suma er of lítið álag hræðilega stressandi.
Það er ekki bara álagið sem skiptir máli. Það er eitthvað með okkar eigin viðhorf, okkar eigin gildismat. Hvaða viðhorf við höfum til þess sem er að gerast og hvaða trú við höfum á okkur sjálfum til að standast það álag sem á okkur er lagt. Með öðrum orðum, það er eitthvað sem gerist innra með okkur, það sem við erum að hugsa, sem skiptir höfuðmáli fyrir það hvernig við bregðumst við. Þegar við stöndum frammi fyrir einhverju ytra álagi þá skipta þessi innri svör okkur máli. Þetta eru svörin sem við svörum okkur sjálf þegar við erum kannski að hugsa: Er ég í vandræðum með þrjár stafsetningarvillur í fimm orðum? Get ég höndlað hana?
Ég ætla að taka annað dæmi eins og er núna þegar fyrirtæki eru að sameinast og endurskipuleggja sig og fara yfir tvo millistjórnendur þegar tvö fyrirtæki sameinast. Í þessu sameiningarferli öllu saman kemur hópur af sérfræðingum og þessi hópur af sérfræðingum er að meta hvað er að gerast.
Þetta er deildarstjóri A.
Hann segir: Þið gætuð ekki komið á verri tíma. Hér er algert upplausnarástand. Enginn veit hvað er að gerast, enginn getur gefið neinar almennilegar upplýsingar. Við vitum ekki hvert á að beina erindum eða hver tekur ákvarðanir. Það er ekki hægt að gera nokkurn skapaðan hlut, þetta er hræðilegt ástand. Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt áður. Ég veit ekki hvað ég get sagt ykkur sem gæti nýst ykkur. Þessa dagana er allt afskaplega ruglingslegt og óskipulagt. Ég skal reyna að aðstoða ykkur eins vel og ég get en ég er ekki viss um að ég geti svarað spurningum ykkar. Þetta er sá maður sem hefur svarað: Er ég í vandræðum? Já. Get ég höndlað þetta? Nei.
Þetta er deildarstjóri B.
Hann segir: Velkomnir. Þið gátuð ekki komið á betri tíma. Hér er algjört upplausnarástand. Enginn stjórnar einu eða neinu. Við erum öll að reyna að fikra okkur áfram og finna bestu leiðirnar. Það er allt svolítið óskýrt og enginn veit almennilega hvert á að snúa sér. Þannig að við höldum bara áfram og gerum það sem við teljum vera réttast. Það er hægt að gera hvað sem er vegna þess að enginn stöðvar þig. Það hefur gengið á ýmsu en þetta er afskaplega spennandi tími. Ég er viss um að þessi samruni verður til góðs. Ég er feginn að þið komuð einmitt núna. Hvaða spurningar eruð þið með? Þessi svaraði: Er ég í vandræðum núna? Já. Get ég höndlað það? Já! Þetta er gaman!
Það sem ég er kannski að segja, er að það á ekki bara að horfa á stressið þarna úti, þetta er líka spurning um okkar eigin hugarheim. Hvaða viðhorf við höfum og hvaða mat við leggjum á það sem er að gerast. Tígrisdýrin eru sálfræðileg tígrisdýr. Þau byggja á hver lífssýn okkar er og hvaða trú við höfum á eigin getu til að takast á við vandamálin.
Sumt álag getum við kallað lítilvægt og að það skipti engu máli og við höfum ekkert stress út af því. Það má segja að það sem bjargi þér er það hvernig þú metur að þú standist álagið. Það þýðir að okkur finnst þetta ögrandi og við verðum sterkari á eftir, við styrkjumst.
En stundum er álagið of mikið og innra ástand okkar í samræmi við ytra ástandið og bjargir okkar ófullnægjandi sem þýðir að við fáum þessi stresseinkenni. Stresseinkennin eru að sjálfsögðu þau sömu eins og þegar frummaðurinn fann tígrisdýrið en þegar líkaminn er búinn að vera að búa sig undir einhvern bardaga í lengri tíma og vöðvarnir orðnir stífir þá fara þeir að hafa áhrif á taugarnar og svo fara þeir að búa til alls konar veikindi.
Hugsun, tilfinningar og hegðun
Ég ætla að sleppa þessu líkamlega og fara frekar yfir í hugsun og tilfinningar og hegðun. Ef við tökum fyrst hugarfarslegu einkennin. Stressviðbrögð undirbúa okkur til þess að bregðast líkamlega hratt við en þau undirbúa okkur ekki undir að hugsa skýrt.
Þegar alvörutígrisdýrið nálgaðist þurftum við annað hvort að berjast eða hlaupa. Ekki að hugsa. Því miður versnar athygli okkar, einbeiting og minni snarlega þegar við verðum stressuð. Aðrir tala en við erum ekki að hlusta vegna þess að við erum of upptekin af eigin vandamálum. Við erum svo upptrekkt að við eigum erfitt með að einbeita okkur að flóknum verkefnum. Við nýtum illa gamla reynslu og gerum mistök vegna þess að minni okkar er verra en það á að sér að vera.
Það að hugsa ekki skýrt þegar við erum stressuð er mjög bagalegt vegna þess að í nútímasamfélagi þurfum við oftast að leysa mál á einhvern skapandi máta. Við þurfum að vinna mörg í einu, við þurfum að velja það sem skiptir mestu máli að vinna að, við þurfum að skerpa það sem er óskýrt og þetta gengur verr þegar við erum stressuð.
Þá hættir okkur til að vera stíf og ósveigjanleg, kannski sem leið til að halda stjórn, og við leyfum svolítið áhyggjum að spóla í sama farinu. Við leysum ekki málin.
Stress hefur líka tilfinningaleg einkenni. Þetta eru tilfinningar eins og reiði, pirringur, hræðsla, kvíði og þunglyndi. Þetta eru algengustu stresstilfinningarnar. Við verðum pirruð og æsum okkur auðveldlega við þá sem næstir okkur eru eða enn verra: leysum ekki vandamálin heldur byrgjum reiði okkar inni þar til hún flæðir yfir allt og alla sem í kringum okkur eru. Hræðslan við að stjórna sér ekki, áhugaleysi og leiði og doði eru allt saman þessi tilfinningalegu einkenni.
Hegðun breytist líka þegar við verðum stressuð. Við stress minnkar hæfileiki okkar til að skipuleggja okkur og stýra tímanum. Það þýðir að okkur hættir til að þjóta skipulagslítið hingað og þangað. Okkur hættir til að vinna lengur og lengur, taka helst vinnuna með heim, vinna um helgar. Okkur hættir til að missa samband við vini, finna engan tíma til að skemmta okkur. Okkur hættir til að missa svefn. Kannski er svefnleysi algengur vítahringur og raunveruleg hætta.
Það má rekja mjög slæm slys til þess að einhver hafi ekki sofið. Bæði Tsjernóbil-slysið og eins þegar geimferjan Challenger sprakk í loft upp mátti að hluta rekja til svefnleysis þeirra sem voru við stjórn.
Að lokum hefur stress náttúrlega líkamleg áhrif á okkur. Allt frá spennu í hálsi og öxlum yfir í hjartaáföll. Þegar við erum stressuð þá hefur það áhrif á allt þetta fernt: líkama, hugsun, hegðun og tilfinningar. Það borgar sig ekki að hunsa neinn partinn af þessu.
Ég ætla ekki að tala mikið um hvernig eigi að bregðast við. Það eru til fjölmargar leiðir til að bregðast við álagi. Ef maður er farinn að finna fyrir stresseinkennum þarf maður að staldra við, taka stjórn og endurmeta þá stöðu sem maður er kominn í. Það að stoppa, hugsa og þora að taka stjórn er eiginlega langmikilvægast í því að fást við stress.
Við skulum samt ekki gleyma að lífið myndi vera leiðinlegt án streitu. Við vinnum betur og okkur líður betur undir mátulegu álagi. Það að læra að höndla stress held ég að feli í sér að finna rétta magnið af streitu, réttu tegundina af streitu miðað við persónuleika okkar, hvað það er sem skiptir okkur máli og hverjar lífsaðstæður okkar eru. Það er hægt að læra leiðir til að þola mikið álag t.d. slökun, hugleiðslu, halda sér í formi, hafa stjórn á hugsunum okkar, stýra tilfinningum okkar.
Þetta eru allt hlutir sem hægt er að læra. En ég held að lífið sé allt of flókið og margbrotið til að einhver ein leið sé réttust. Svo held ég líka að við þurfum að læra að höndla streitu alla okkar ævi.
Ég hef þetta þá ekki lengra. Ég þakka fyrir.