Erindi þetta var flutt í afmælishófi, er Jónasi lækni Kristjánssyni var haldið í Heilsuhæli N.L.F.Í. þriðjudaginn 20. september 1955, í tilefni af 85 ára afmæli hans. Hefur það hvergi birzt en rétt þykir að það geymist í Heilsuvernd enda á það hvergi betur heima, og flest, sem þar er sagt, á enn þá við og er ekki tímabundið.
Ein af hinum merkilegu og innihaldsríku myndum Einars Jónssonar heitir „Natura Mater (Móðir náttúra)“. Er þar um að ræða eins konar manndýr, sem liggur fram á lappir sínar. Að ofan er dýrið kona með einkennilegan höfuðbúnað, sem gæti minnt á skóg eða jafnvel fjöll. Tvær mannverur, karl og kona, liggja við brjóst konunnar og sjúga þau. Hér er merkilegur sannleikur sagður á táknrænan hátt. Sannleikurinn er sá, að öll erum vér í raun og veru börn Móður náttúru. Vér liggjum við móðurbrjóst hennar og sjúgum þaðan allt vort lífsafl. Sumum er þetta ljósara en öðrum og þeir haga sér samkvæmt því. Þeir halla sér sem þéttast og í glöðu trausti að móðurbrjóstum Natura Mater og þeir hlusta eftir hjartslætti hennar og einhverju hvísli af vörum hennar. Þessir menn fá venjulega sín laun Þeir lifa glöðu, einföldu og áhyggjulausu lífi. Þeir njóta venjulega góðrar heilsu til hárrar elli. En svo eru aftur aðrir, sem öðruvísi er farið. Á mynd Einars Jónssonar sjást einhverjar mannverur, eins og eitthvert hrúgald, á milli fóta Natura Mater. Þær seilast ekki eftir móðurbrjóstunum. Til eru líka menn, eins og vér vitum, sem þannig er ástatt um, allt of margir meira að segja á vorum dögum. Þeir hirða ekki um að lifa samkvæmt lögmálum náttúrunnar, og eru þess vegna meira og minna á valdi sjúkdóma, óhamingjusamir menn, oft ofurseldir hrörnun um aldur fram. Þeir seilast ekki eftir móðurbrjóstum náttúrunnar, virðast jafnvel varla vita af þeim, en komast ekki hjá því að vera á valdi hinnar miklu móður að einhverju leyti. Ef til vill vita þeir mest af því, sem neikvætt getur talist í fari hennar, óstýrilátum hvötum, grimmd og öðru þess háttar. Þeir þvælast á milli fótanna á hinu undarlega dýri, sem er að hálfu leyti mannlegt, í stað þess að láta það þjóna sér. Þeir seilast ekki upp á við, til móðurbrjóstanna, og því síður til vizkunnar, sem ljómar í augum konuandlitsins, er rís í hljóðri tign frá hinu dýrslega gerfi.
Þessir tveir flokkar manna eru vissulega til, en þó vil ég ekki halda því fram, að þeir séu alltaf mjög aðgreindir, að eitthvert "járntjald sé alltaf á milli þeirra. Því að margir teljast báðum og aðrir standa óráðnir á milli þeirra, og margir, sem lært hafa að teygja sig upp í móðurbrjóstin, hafa gert það fyrir bitra reynslu. En sumir þeirra eru þann veg skapi farnir, að þeir þrá að gera aðra hluttakandi í þeim gæðum, er þeir sjálfir njóta eða vita af. Þeir eru gjöfulir menn og jákvæðir.
Vér erum komin hér saman í kvöld til þess að hylla einn af þessum gjöfulu mönnum og jákvæðu, föður náttúrulækningastefnunnar á Íslandi og helzta brautryðjanda, Jónas Kristjánsson lækni. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um náttúrulækningastefnuna. Ég hef í raun og veru þegar lýst henni með því að segja yður frá mannverunum tveim, sem teygja sig upp í móðurbrjóstin á mynd Einars Jónssonar. Því að náttúrulækningastefnan er, eins og nafnið sjálft bendir til, í stuttu máli viðurkenning þeirrar staðreyndar, að vér erum öll börn náttúrunnar, Natura Mater, og að oss getur ekki liðið vel til langframa nema með því að lifa í fyllsta samræmi við lögmál hennar. Í raun og veru þarf ég ekki heldur að fara mörgum orðum um Jónas Kristjánsson. Hann er sá Íslendingur, er mest og bezt hefur brýnt þennan sannleika fyrir löndum sínum, og er löngu orðinn þjóðkunnur maður. Fyrst í stað talaði hann að sjálfsögðu fyrir daufum eyrum, eins og flestir brautryðjendur verða að gera. En smám saman hafa kenningar hans seytlað inn í hugi manna, og nú er svo komið, að yfirleitt er hætt að líta á þá, er taka t.d. jurtafæðu fram yfir dýrafæðu, sem sérvitringa eða hálf geðveika menn, eins og ekki mun hafa verið laust við áður. Náttúrulækningastefnan hefur unnið sér hylli og allmikið fylgi hér á Íslandi, og það á hún Jónasi Kristjánssyni fyrst og fremst að þakka. Ég vil og ekki láta hjá líða að minnast þess við þetta tækifæri, hve ánægjulegt það er að vér skulum vera saman komin einmitt hér í þessum salarkynnum Heilsuhælis Náttúrulækningafélags Íslands. Þar er um að ræða einn af hinum stóru draumum afmælisbarnsins, og nú er sá draumur að byrja að rætast, þó að betur megi, ef duga skal.
Margt er það, sem ég vildi segja við og um afmælisbarnið á þessum merkilegu tímamótum í lífi þess, og hunangstungu vildi ég geta talað. En ég veit, að margir fleiri munu segja eitthvað hér í kvöld, og vil ég því ekki teygja tímann um of. En fyrst og fremst vil ég þakka Jónasi Kristjánssyni, þakka honum fyrir hið drengilega brautryðjendastarf hans í þágu hins góða málefnis matvísinnar og annarra hollra lífshátta, þakka honum fyrir hið siðferðilega hugrekki, er hann ræðst gegn gömlum hleypidómum og þröngsýni, þakka honum fyrir öll þau mannslíf, er hann hefur bjargað eða bætt og síðast en ekki sízt vil ég þakka honum fyrir ljúfmennsku og persónulega vináttu í mörg ár, og liðveizlu við hugsjónir, sem mér eru kærar. Hér skal vakin athygli á því, að Jónas Kristjánsson er svo vitur maður, að hann hefur fullan skilning á því, að líkamleg og andleg heilsurækt verða að fara saman, ef vel á að vera. Maðurinn er fyrst og fremst sál eða andi, og andlegum kröfum og skilyrðum verður að fullnægja, um leið og líkamanum er sýndur sá sómi, sem honum ber. Mens sana in corpore sano = heilbrigð sál í hraustum líkama var kjörorð Grikkja, og það, sem fyrir Jónasi vakir, er ekki að skapa aðeins heilbrigð manndýr, heldur raunverulegan heilsuaðal tveggja heima, hins efnislega og hins andlega heims. Það er hin sígilda manngildishugsjón Grikkja, sem hér er um að ræða, hinn "fagur-góði maður, þar sem allir strengir eru stilltir til samræmis. Ég vil ekki bera neitt oflof á Jónas Kristjánsson, en mér hefur alltaf fundist návist hans góð. Eitt af því, sem einkennir hann, er mild rósemi, en það einkenni er ævinlega ávöxtur vel samræmdrar skapgerðar. Og enn er afmælisbarnið létt í spori og fært í flestan sjó. Það er því á marga lund góð auglýsing þeirrar stefnu, er það berst fyrir og þjónar, og hefur það alveg vafalaust átt sinn þátt í því að gera stefnuna vel metna og vinsæla. Betur að hið sama mætti segja um sem flesta forvígismenn og postula göfugra málefna.
Enn vil ég nefna eitt af skemmtilegum einkennum Jónasar Kristjánssonar. Það er það, hve mikið yndi hann hefur af að ferðast um fjöll og firnindi, og alveg eins einn síns liðs eins og í félagsskap manna. Mér er til dæmis kunnugt um, að fyrir fáum árum gekk hann aleinn upp á Heklu. Hann ann fegurð og töfrum þessa lands, ekki sízt fegurð fjallanna. Þetta er engin tilviljun og er táknrænt fyrir það, hve brattgengur hann er í andlegum efnum. Í viðtali við hann sjötíu og fimm ára kemst hann meðal annars svo að orði "Ekkert er eins lífgandi og styrkjandi og fjallgöngur. Þar er loftið hreinast, fegurð landsins mest, og þar ríkir kyrrð og friður. Svona talar enginn annar en sá, sem er sér þess meðvitandi að vera barn náttúrunnar, og er opinn og næmur, ekki aðeins fyrir ásýnd hennar eða ytri töfrum, heldur einnig fyrir sál hennar og huldu lífi. Jónas hefur vafalaust oft sótt innblástur og aukið lífsmagn í þagnarlindir öræfa og fjalla, og sem betur fer, eru margir nútímamenn farnir að skilja, hve mikla líkamlega og andlega heilsubót getur verið þangað að sækja. Slíkar "náttúrulækningar eru vissulega þess verðar, að þeim sé gaumur gefinn, ekki síður en réttu fæðuvali og öðru slíku.
Margar gamansögur eru til um lækna, ekki síður en aðra menn. Ein af hinum beztu er kínversk og er á þessa leið Keisarinn í Kína var alvarlega veikur. Enginn af hirðlæknunum gat læknað hann og yfirleitt enginn þeirra lækna, er til náðist. Nú voru góð ráð dýr. Var því leitað ráða hjá spekingi einum, sem var dulskyggn, og hann beðinn að leita um allt hið víðáttumikla Kínaveldi þess læknis, er líklegur væri til að geta hjálpað hátigninni. Það var trú Kínverja á þessum tímum, að allir þeir sjúklingar, er létu lífið í höndum lækna sinna vegna þekkingarskorts eða einhvers konar mistaka, fylgdu síðan læknunum eftir dauðann, og sáust oft af skyggnum mönnum tugir eða jafnvel hundruð framliðinna manna með læknum þeim, sem þannig höfðu misst sjúklinga sína í hendur dauðanum. Læknar með mikið fylgdarlið dáinna manna þóttu því viðsjárverðir læknar, svo sem vonlegt var, og misstu traust. Hinn vitri maður leitaði og leitaði um allt Kínaveldi að hinum rétta lækni, er líklegur væri til að bjarga lífi keisarans. En ekki blés byrlega í þessum efnum. Nóg var að vísu af læknum, en allir höfðu þeir í kringum sig heila herskara dáinna manna. Þar kom þó, að læknir kom fram á sjónarsviðið með aðeins þrjá framliðna menn í kringum sig. Spekingurinn varð himinlifandi! Hér var þá hinn rétti læknir fundinn, læknirinn, sem óhætt var að trúa fyrir lífi keisarans. En áður en hinn vitri maður kallaði lækninn að sóttarsæng keisarans, datt honum í hug að spyrja lækninn, hve lengi hann hefði sinnt læknisstörfum til þessa dags. Svarið var Í þrjá daga! Hann hafði þá drepið af sér einn mann á dag!
Það fylgir ekki sögunni, hvort tekist hafi að ná í lækni, sem engan framliðinn mann hafði í fylgd með sér, eða hver afdrif keisarans urðu. Líklega hefur hann orðið að deyja Drottni sínum. Ég skal nú ekki fullyrða um það, hvort læknirinn vor góði, sem vér hyllum hér í kvöld, sé alveg saklaus af því að hafa einhvern slæðing framliðins fólks í kringum sig eða ekki, en hitt veit ég, að hann hefur í kringum sig heila hirð lifandi manna, manna, sem hann hefur hjálpað til að endurheimta heilsu sína og jafnvel bjargað frá dauða. Sumir af þessum mönnum eru hér í kvöld, öllum sýnilegir, en margir þeirra eru viðstaddir aðeins í anda. Í þessum skilningi er Jónas liðsterkur maður, og hann er ennþá að bæta við þessa hirð sína, og mun halda því áfram til dauðadags.
Og nú minnist ég draums, er hann sagði mér, að sig hefði dreymt fyrir nokkrum árum. Hann dreymdi, að dauðinn sjálfur kæmi til sín og vildi fá sig með sér. En Jónas mótmælti harðlega. Kvaðst hann hafa svo mikið að gera, að hann hefði engan tíma til að fara í einhverjar hégómlegar skemmtiferðir, og mundi hann sig hvergi hræra. Og með svo miklum sannfæringarkrafti talaði hann við hans hátign, dauðann, að hinn síðar nefndi lét þetta gott heita og hvarf á braut.
Ég vil nú enda þetta erindi með þeirri ósk, að þess megi verða sem lengst að bíða, að dauðinn komi aftur í heimsókn til Jónasar, að hann haldi áfram að virða annríki læknisins og láti hann í friði. Hin fjölmenna hirð þakklátra manna og kvenna, sem Jónas hefur í kringum sig, mun taka undir þessa ósk einum rómi. Megi þessum öldungi og öðlingi endast líf og heilsa sem allra lengst til þess að þjóna hinni göfugu og alhliða heilsuræktarstefnu, sem hann hefur gert að aðaláhugamáli lífs síns. Og vér skulum færa honum þá afmælisgjöf, sem ég veit, að honum er kærust, en það er heitstrenging þess að styðja hann betur og betur að starfi og hjálpa til að leiða náttúrulækningastefnuna til sigurs í hrjáðum heimi, sem svo mjög þarf á henni að halda. Vil ég svo biðja veizlugesti að rísa úr sætum, afmælisbarninu til heiðurs.
Gretar Fells.