„Allsherjarnefnd lýsir yfir þungum áhyggjum af rekstri Heilsustofnunar í ljósi viðræðna um framlengingu samnings og yfirvofandi niðurskurð vegna þess. Leita þarf allra leiða til að tryggja rekstur Heilsustofnunar sem og viðhald og endurbætur á húsnæði til lengri framtíðar.“ Þetta kemur fram í tillögum allsherjarnefndar sem samþykktar voru á Landsþingi Náttúrulækningafélags Íslands 20. september 2025.
Á þinginu var jafnframt samþykkt tillaga nefndarinnar um að fela stjórn Náttúrulækningafélagsins að yfirfara lög og þingsköp samtakanna ekki síst í þeim tilgangi að uppfæra texta í samræmi við tíðarandann. Þá var samþykkt mikilvægi þess „að tryggja áframhaldandi öflugt fræðslu- og kynningarstarf Náttúrulækningafélags Íslands. Uppfæra þarf vefsvæði og tryggja þarf nauðsynlegt fjármagn til reksturs fræðslunefndar, heimasíðu og samfélagsmiðla.“
Í allsherjarnefnd fyrir Landsþing NLFÍ árið 2025 sátu Ingi Þór Jónsson, Inga Lóa Birgisdóttir og Geir Gunnar Markússon.
Á myndinni má sjá fulltrúa Náttúrulækningafélags Akureyrar á Landsþinginu.
Mynd: Ingi Þór Jónsson