Talið er að 1-5 prósent þeirra sem fengu Covid séu með langvarandi einkenni Covid eða 400 milljónir manna í heiminum. Kostnaður við langvarandi einkenni Covid eru um eitt prósent af heimsframleiðslunni árlega. Þetta kom fram í erindi Friðbjörns Sigurðssonar læknis á ráðstefnunni Heilsan okkar – Langvinn einkenni Covid í Veröld – húsi Vigdísar. Friðbjörn er læknir hjá Akureyrarklíníkinni sem er þjónustumiðstöð fyrir einstaklinga með ME-sjúkdóminn eða langvarandi einkenni Covid. Hægt er að hlusta á öll erindi ráðstefnunnar hér.
Í erindi Friðbjörns kom fram að langvinn einkenni Covid eru öll langtíma einkenni sem tengjast Covid sýkingu sem var í þrjá mánuði hið minnsta. Yfir tvö hundruð mismunandi einkennum hefur verið lýst og má þar nefna síþreytu, heilaþoku, andnauð, hjartasjúkdóma, svefntruflanir, þunglyndi, kvíða og einkenni frá ósjálfráða taugakerfinu. Einkennin geta varað í mánuði eða fjölda ára en sumum batnar smám saman. Einkennin eru óháð því hvort fólk veiktist mikið eða lítið af Covid. Algengustu einkenni langvarandi Covid eru eins og við ME sjúkdóminn og margir telja þetta sama sjúkdóminn. Anthony Fauci forstjóri Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna sagði strax í júlí 2020 að langvarandi eftirstöðvar Covid væru líklega sami sjúkdómur og ME eða mjög áþekkur. Þetta svipar líka mjög til Akureyrarveikinnar en 20 prósent þeirra sem fengu hana voru með einkenni alla ævi.
Mynd: Glæra úr fyrirlestri Friðbjörns Sigurðssonar.
