„Hér er skorað á heilbrigðisráðherra og fjárlaganefnd Alþingis að greiða úr fjárhagsvanda Heilsustofnunar NLFÍ,“ segir Guðni Ágústsson fyrrverandi alþingismaður og ráðherra í aðsendri grein í Morgunblaðinu. Hann segir það vekja furðu að hjálparstofnun eins og Heilsustofnun skuli vera fjársvelt.
„Því vekur það furðu að hjálparstofnun eins og Heilsustofnun skuli vera fjársvelt svo við blasir að starfsemin berst í bökkum. Heilsustofnun gerir þjónustusamninga við ríkið. Hitt vekur líka athygli að Reykjalundur, sem er mikilvæg stofnun og sinnir svipuðu hlutverki, fær t.d. samkvæmt úttekt Tryggingastofnunar Íslands á hvern meðferðartíma í þverfaglegri endurhæfingu ríflega tvöfalt hærra framlag en til sambærilegrar þjónustu hjá Heilsustofnun. Nú hefur heilbrigðisráðherra, Alma Möller, lagt áherslu á endurhæfingu og viðurkennt í ræðu á Alþingi vanda Heilsustofnunar með þessum orðum: „Þeir hafa ekki fengið greitt (þá eða Heilsustofnun) eins og þeir ættu að fá.“ Stjórn Heilsustofnunar fagnaði þessari yfirlýsingu ráðherra og minnir á að Sjúkratryggingar Íslands og Ríkisendurskoðun hafa staðfest að Heilsustofnun hafi fengið innan við helming af þeim greiðslum sem aðrir aðilar hafa fengið fyrir sambærilega þjónustu.“
Guðni skorar á Alþingi og heilbrigðisráðherra að greiða úr fjárhagsvanda Heilsutofnunar. „Hér er skorað á heilbrigðisráðherra og fjárlaganefnd Alþingis að greiða úr fjárhagsvanda Heilsustofnunar NLFÍ. Það væri köld kveðja á afmælisári ef ríkisvaldið telur sig þess umkomið að loka dyrum að því húsi sem Jónas Kristjánsson læknir stofnaði með svita og tárum til bjargar sjúkum og öldruðum. Heilsustofnun sem enn gegnir því lykilhlutverki að gefa fólki lífsþrótt sinn og spara ríkinu milljarða útgjöld. Veikur maður á aðeins eina ósk, það er hjálpin sem Heilsuhælið hefur fært fólki í sjötíu ár. Heilsu og betra líf.“
Mynd: Jóhann Helgi Hlöðversson
