Tyrkneski egg eru dásamlegur matur kvölds og morgna. Hér er stuðst við uppskrift úr smiðju Nigellu Lawson. Það þarf engum að koma á óvart að það var faðir hennar sem fékk að velja nafnið á dótturinni. Nigel Lawson var ráðherra í ríkisstjórn Margrétar Thatcher 1979-1989. Uppskriftin er fyrir fjóra.
Þú þarft:
- 400 grömm grísk jógúrt
- 2 kramin hvítlauksrif
- 2 tsk sjávarsalt
- 4 msk ósaltað smjör
- 2 msk ólífuolía
- 2 tsk chilipipar
- 8 egg
- 4 tsk sítrónusafi
- Ferskt dill
- 2 grísk pítabrauð
Aðferð:
- Hitið jógúrt með salti og hvítlauk yfir vatnsbaði þar til það nær líkamshita og minnir á léttþeyttan rjóma.
- Bræðið smjörið þar til kemur hnetulykt og það er orðið léttbrúnað. Takið af hitanum og bætið við olíu og chili.
- Hitið pítabrauð í ofni og skerið eins og sést á myndinni.
- Hitið vatn að suðu. Brjótið eggin og hristið þau í fínu sigti í um hálfa mínútu til að losna við mesta vökvann. Setjið hvert egg í bolla með einni teskeið af sítrónusafa. Setjið eggin í sjóðandi vatnið og slökkvið undir hitanum á meðan eggin malla í 3-4 mínútur. Ekki hafa of mörg egg í einu. Takið eggin upp með gataðri ausu og færið á eldhúspappír.
- Dreifið jógúrti á fjóra diska og setjið tvö egg á hvern disk. Hellið smjörblöndunni yfir og skreytið með fersku dilli og brauði.
Mynd: Kristín Pálmadóttir Thorlacius