Nú er ekki nema tæplega mánuður til jóla og margir farnir að huga að bakstri fyrir jólin. Solla á Gló deildi þessari gómsætu og hollu jólakonfektsuppskrift með okkur. Njótið vel.
Súkkulaðið:
1 dl. kaldpressuð kókosolía EÐA kakósmjör
½ dl. hreint kakóduft (má líka nota RAW kakó)
½ dl. hlynsýróp EÐA xylitol EÐA kókospálmasykur
1 tsk. vanilluduft/dropar
1-2 msk. lucuma (má sleppa)
Örlítið salt
Heimagert marsipan:
75 gr. heslihnetur, malaðar fínt
1/8 tsk. salt
¼ dl. kókospálmasykur EÐA hlynsýróp EÐA xylatol
½ tsk. vanilludropar/duft
¼ dl. kókosolía EÐA kakósmjör
¼ – ½ tsk. möndludropar
Súkkulaðið:
Setið kókosolíudósina stutta stund í heitt vatn (40°C er passlegt) eða bræðið kakósmjörið yfir vatnsbaði. Hrærið síðan kókosolíunni/kakósmjörinu, kakóduftinu og sætunni saman í skál ásamt vanilluduftinu. Ef þið eigið lucum/mesquite þá hrærið smá útí. Þá er grunnblandan tilbúin.
Hippamarsipanið:
Setjið allt nema kókosolíu/kakósmjör í matvinnsluvélina og blandið vel saman. Bætið kókosolíu/kakósmjöri útí og klárið að blanda. Setjið fyllinguna inn í frysti í svona 10-15 mínútur til að hún geti stífnað.
Aðferð:
Setjið konfektformin inn í frysti í a.m.k. 30 – 60 mín. Hellið fljótandi súkkulaði í formin og veltið því upp eftir börmunum. Setjið síðan fyllinguna í formin og endið á að setja súkkulaði til að loka molanum.