Það finnast yfir 700 tegundir hattsveppa á Íslandi en aðeins tíu prósent þeirra eru flokkaðir sem matsveppir. Það eru því 90 prósent líkur að sveppurinn sé ekki ætur. Þú verður að vita hvað sveppurinn heitir áður en þú borðar hann því það eru til lífshættulega eitraðir sveppir á Íslandi. Þetta er meðal þess sem kom fram í fræðsluerindi Helenu Mörtu Stefánsdóttur skógvistfræðings í sveppatínsluferð NLFR á Hólmsheiði 14. ágúst.
Félagsmenn Náttúrulækningafélags Reykjavíkur fylgdust í andakt með um hálftíma erindi Helenar um sveppi. Síðan dreifði hópurinn sér um skóginn og tíndi sveppi af margvíslegri gerð. Helena fór síðan yfir afrakstur hvers og eins. Sveppaferðin þótt afar vel heppnuð.
Helena sagði mikilvægt að hafa með sér í tínsluna sveppahandbók, sveppahníf eða vasahníf og körfu, bréfpoka eða taupoka undir sveppina. Hún ráðlagði öllum að skrá sig í Funga Íslands á Facebook sem væri frábær síða til að fá hjálp við greiningu og að öðlast meira sjálfstraust í sveppatínslu. Hún lagði áherslu á að ganga frá sveppunum til geymslu samdægurs því sveppir skemmast fljótt.
Myndina tók Valdimar Harðarson