Í framhaldi af grein um ranga forgangsröðun í heilbrigðismálum sem birtist hér á vefnum fyrir síðustu Alþingiskosningar þá fylgir hér grein um hversu miklu máli heilsan skiptir í velflestum málaflokkum er koma að stjórnun sveitarfélaga eða landsins.
Sveitarstjórnarkostningar eru framundan og þá koma frambjóðendur fram á sviðið og það er mikið um loforð allt frá því að kjör leikskólakennara og til bættra samgangna. Velflestir flokkar virðast nú vera á sömu línunni en það skortir meiri umræðu um alvöru heilbrigðismál, forvarnir og virkilega heilsurækt landsmanna. Það er alltaf sama rullan hjá stjórnmálamönnum að til þess að bæta heilbrigðiskerfið þurfi að bæta aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu með betri heilsugæslu og spítölum. Geðheilbrigðismál hafa verið mikið í deiglunni undanfarin ár og það kemur fram í loforðaflaumi stjórnmálamannanna og velflestir flokkar lofa bættri þjónustu fyrir fólk með geðraskanir.
Þessu er lofað af einum stærsta stjórnmálaflokk Íslands:
„…..flokkurinn leggur áherslu á góða og öfluga heilbrigðisþjónustu“.
„Fjölga þarf hjúkrunarrýmum, efla heimahjúkrun og stytta biðlista. Eins þarf að leggja aukið kapp á að halda í og laða til okkar heilbrigðisstarfsfólk á heimsmælikvarða.“
„Áfram verður að hlúa að heilsugæslunni sem fyrsta viðkomustaðar í heilbirgðiskerfinu. Fjölga verður heilsugæslustöðvum og auka þjónustu þeirra, ekki síst á sviði geðheilbrigðis.“
Við viljum ljúka framkvæmd geðheilbrigðisstefnunnar og fylgja henni eftir. Greina verður og takast á við vandamál á fyrstu stigum og tryggja aðgengi allra að sálfræðiþjónustu, óháð búsetu. Leggja þarf aukna áherslu á forvarnir í geðheilbrigðismálum og auðvelda heilsugæslunni að sinna frumþjónustu við fólkmeð geðræn vandamál. Sérstaklega þarf að huga að brýnni þörf ungmenna á þessu
sviði.“
„…….flokkurinn leggur áherslu á forvarnir og heilsueflingu almennings og að stuðlað verði að heilbrigðari lífsháttum m.a. með fræðslu um ávinning hreyfingar og hollra lifnaðarhátta.“
Það væri líklega hægt að fara inn á heimasíður allra þeirra tuga flokka sem eru í framboði og finna svipaðar áherslur alveg sama hvar flokkarnir standa á hinum pólitíska ás til hægri eða vinstri.
Það er auðvelt að slá um sig og skrifa fögur fyrirheit er snúa að heilbrigðismálum en á þessum vettvangi er oft lítið um efndir. Það er lítið skrifað um hvaðan fjármagn á að koma í þessi áhersluatriði. En þar liggur hundurinn grafinn og þetta er líklega ein aðal ástæða þess að fólk hefur lítið traust til stjórnmálamanna, það er mikið um loforð en minna um að standa við stóru orðin þegar fólk sest í „mjúku“ stólana.
Því langar mig að biðla til allra stjórnmálamanna þessa lands að fara að rita sínar stefnuskrár út frá heilsusamlegum viðmiðum. Ekkert er okkur mikilvægara en heilsan og án hennar eru við mjög snauð. Heilsan kemur inn á öll svið mannlegs eðlis s.s. félagsleg, líkamleg og andleg. Það er því ekki til sá málaflokkur sem snýr að okkar mannlega lífi og þar með stjórnmálunum sem ekki er hægt að huga betur að ef heilsan er sett í fyrsta sætið.
Bætt heilsa landsmanna hefur margfeldisáhrif til að bæta alla málaflokka sem stjórnmálamenn eru að rífast um forgangsröðun á. Hér eru ýmis dæmi:
Heilbrigðismál – Hugsa þarf heilbrigðismál alveg upp á nýtt og fara að setja miklu stærri hluta af kökunni í forvarnir í stað þess að stækka spítala, ávísa dýrari lyfjum og stoðtækjum. Allt fjármagn sem kemur í Ríkiskassann mun enda í heilbrigðismálum ef við ætlum bara að lækna sjúkt fólk en ekki að koma í veg fyrir að fólk verði sjúkt. Kennum fólki að bera ábyrgð á eigin heilsu og það verður mun minni þörf fyrir öflugan spítala eða heilsugæslu.
Efnahags- og viðskiptamál – Ef við setjum heilsuna í fyrsta sæti verður til fullt af peningum sem annars færi í að lækna fólk sem er orðið veikt af lífsstílssjúkdómum. Einnig skapast fullt af störfum tengt þeirri miklu heilsuefling sem Íslendingar munu standa að. Aðrar þjóðir munu líta til Íslands sem fyrirmyndar í heilsueflingu og heilsuferðaþjónusta mun blómstra.
Allt viðskiptalífið, verðbréfamarkaðir og efnahagur mun eflast ef fólkið sem stýrir fjármálakerfinu hugar betur að heilsu sinni.
Skattamál – Notum skatta til heilsuefingar og verum óhrædd við að skattleggja óhollustuna í allri sinni mynd í matvælum, áfengi, tóbaki, umhverfisspillandi farartækjum og heilsuspillandi athöfnum. Á hinn bóginn má vera með skattaívilanir fyrir vörur og þjónustu sem stuðla að heilsueflingu landsmanna eins og t.d. grænmeti og reiðhjól.
Húsnæðismál – Húsnæðiskortur er mikið vandamál á Íslandi og sérstaklega hjá yngra fólki sem er enn í foreldrahúsum. Með bættri líkamlegri og andlegri heilsu er fólk betur í stakk búið að koma sér upp húsnæði þar sem starfsþrek gæti aukist.
Einn hluti heilsunnar er lika að sætta sig við það sem maður á og halda vel utan um það í stað þess að einblína á allt sem maður á ekki. Yngra fólkið getur ekki gert kröfur á fínustu íbúðir heldur þarf að vinna sig smátt og smátt upp með sínar fasteignir.
Einnig mætti gera hús ódýrari og sleppum ýmsum „nauðsynlegum“ aukahlutum til að efla heilsu fólks s.s. sleppa því að setja upp lyftur, hafa rafmagn að hluta til knúið að afli húseigenda s.s. sjónvarp sem fær rafmagn úr hjóli, hafa kaðla í stað stiga milli hæða og minnka einangrun og fækka ofnum til að fólk sé duglegra að hreyfa sig innandyra til að halda á sér hita.
Félagsmál – Félagslegum vandamálum mun fækka mikið ef við eflum einstaklinga líkamlega, andlega og félagslega. Ef fólk hugar að heilsunni þá mun það síður veikjast líkamlega eða andlega, er félagslega virkara og leggur helling til samfélagsins.
Umhverfis- og auðlindarmál – Þetta er nú líklega mikilvægasti þátturinn í eflingu heilsu okkar. Því heilsa móður Jarðar er mikilvægasta af öllu er kemur að heilsu okkar. Án okkar plánetu er ekker líf né heilsa en stundum komum við fram við móður Jörð eins og við eigum annað eintak af henni. Til er slagorð sem segir allt sem segja þarf um umhverfismál „aðeins þegar síðasta tréð er fellt, síðasta áin virkjuð eða eitruð og síðasta dýrið veitt áttum við okkur á því að við getum ekki borðað peninga“. Leyfum náttúrunni oftar að njóta vafans þegar kemur að virkjunum og öðrum náttúruspillandi mannaverkum. Við erum að fá fullt af pening hér til Íslands frá erlendum ferðamönnum sem koma aðallega til Íslands til að sjá hina mikilfenglegu náttúru sem við eigum.
Mikilvægt er að efla græn svæði til útivistar til að efla heislu landsmanna. Í stað virkjana virkjum einstaklingana til að efla heilsu sína og sá kraftur sem kemur úr því verður á við margar Kárahnúkjavirkjanir.
Samgöngumál – Leggjum allt kapp á að bæta aðgengi fólks að hjóla- og göngustígum.
Réttarkerfið – Álag á dómskerfið mun minnka því mikið af dómsmálum er vegna andlegra veikinda, áfengis- og vímaefnaneyslu sem á sér grunn í heilsuleysi okkar.
Stuðlum að heilsueflingu í fangelsum og gerum einstaklinga sem þar lenda betur í stakk búna að huga að heilsu sinni og þar með lífi sínu þegar í frelsið er komið.
Mennta og menningarmál – Kennum börnum okkar að bera ábyrgð á eigin heilsu strax í leikskólum og eflum þau til bættrar heilsu alla skólagönguna.
Verum með virka kennsluáætlun til heilsueflingar á sviði líkamlegrar-, andlegrar- og félagslegrar heilsu. Það er ekki nóg að vera með leikfimi tvisvar sinnum í viku það þarf líka kúrsa í því að styrkja andann s.s. með jóga, kennslu í samkennd og sjálfsstyrkingu.
„Utanríkismál“ – Komum á stofn Íslenska Heilsuhernum (en. Icelandic Health Army) sem mun berjast fyrir bættri heilsu alls heimsins. Þessi her gæti orðið fordæmi fyrir aðrar þjóðir að minnka stríðsrekstur í vopnabúnaði og fara að efla sína hermenn í að fræða heiminn um mikilvægi þess að bera ábyrgð á eigin heilsu. Það væri líka lítið um stríð í heiminum ef allir hugaðu að sinni heilsu því stríð eiga sér grunn í slæmri andlegri heilsu þar sem öfund, fordómar og græðgi ráða ríkjum.
Það þarf virkilega að berjast á móti allri óhollstunni sem tröllríður öllu Vestrænu samfélagi og Heilsuherinn væri vel til þess fallinn að vera mótvægi við það.
Nýsköpun, rannsóknir og vísindi – Markmið okkar ætti að vera að Ísland verði hraustasta þjóð í heimi en til þess þarf að efla ýmsa nýsköpun og nýja hugsun. Þetta mun setja mikinn kraft í allt er snýr að bættri heilsu með nýsköpun á sviði heilsueflingar, vöruþróun, heilsurannsókna og heilbrigðisvísindina.
Þessi upptalning á bættri stjórnun landsins í átt að heilsueflingu er kannski draumsýn og sett fram í gamni, að sumu leiti. En það er þörf á róttækum aðgerðum ef við viljum virkilega efla heilsu landsmanna til frambúðar.
Íslendingar hafa virkilega til brunns að vera til að geta verið ein hraustasta þjóð í heimi og þá er ég ekki að tala um langlífi heldur með minnstu notkun allra þjóða af lyfjum, stoðtækjum og nærri ónotaðra spítala.
Vert er að taka það fram að x-H er nýr framboðslisti óháðra í Fjallabyggð og tengist hann að engu leyti efni þessarar greinar.