Streita hefur mikið verið í umræðunni síðastliðin ár enda hefur hún mikil áhrif á líf okkar og heilsu. Rannsóknir undanfarinna ára hafa bent til þess að streita auki líkurnar á hjarta- og æðasjúkdómum. Langvinn streita hækkar oft blóðþrýsting og hefur neikvæð áhrif á líkamsstarfsemi, meðal annars ýtir streita undir æðasamdrátt og eykur hættuna á hjartaáfalli. Það er líka þannig að ein algengasta ástæða þess að fólk leitar til læknis er vegna einkenna sem rekja má til streitu. Hugmyndin sem við höfum um streitu er að hún sé slæm fyrir heilsuna okkar, það vill enginn þjást af streitu.
En hvernig getur þú gert streitu að vini þínum? Ég ákvað að leita svara og rakst á áhugaverðan fyrirlestur á Ted (www.ted.com). Kona að nafni Kelly McGonigal er heilsusálfræðingur sem hefur mikilvæga sögu að segja um streitu og streituviðbrögð.
Sjálf hefur Kelly byggt starfsferil sinn á því að kenna fólki að minnka streitu í sínu lífi vegna þeirrar útbreyddu skoðunar að streita sé slæm fyrir heilsuna. Eftir að hafa kafað ofan í rannsóknir og niðurstöður lítur hún nú öðrum augum á streitu en hún gerði áður fyrr og í fyrirlestrinum segist hún vilja breyta skoðun almennings á streitu og mögulega bjarga þannig mannslífum.
Kelly segir frá rannsókn einni sem gerð var í Bandaríkjunum. Í rannsókninni voru þrjátíu þúsund þátttakendur og stóð hún yfir í átta ár. Spurt var: „Hversu mikla streitu hefur þú upplifað á síðastliðnu ári?“ og „Trúir þú því að streita sé slæm fyrir heilsuna?“
Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu fram á 43% meiri hættu á ótímabærum dauða hjá fólki sem upplifði mikla streitu á síðastliðnu ári, en… og hér kemur það áhugaverða… þessi aukna áhætta var aðeins til staðar hjá því fólki sem trúði því einnig að streita væri slæm fyrir heilsuna. Það var hins vegar ekki meiri hætta á ótímabærum dauða hjá fólki sem upplifði mikla streitu, en trúði því ekki að streita væri slæm fyrir heilsuna. Í raun var minnsta hættan á ótímabærum dauða hjá því fólki, jafnvel minni en hjá fólki sem upplifði litla streitu á síðastliðnu ári. Það má áætla að á þessum átta árum sem rannsóknin náði yfir hafi um 182.000 manns dáið ótímabærum dauða, ekki vegna streitu, heldur vegna þeirrar skoðunar að streita sé slæm fyrir heilsuna.
Samkvæmt nýjustu rannsóknum á streitu getur það eitt að breyta því hvernig við hugsum um streitu gert okkur heilbrigðari, því um leið breytum við því hvernig líkaminn okkar bregst við streitu.
Tvær rannsóknir sem Kelly talar um í fyrirlestrinum sýndu fram á þetta. Í þeirri fyrri voru streituviðbrögð framkölluð hjá þátttakendum, meðal annars með því að láta þátttakendur halda fyrirlestur og fara í stærðfræðipróf. Mjög líklega upplifa þátttakendur mjög mikla streitu á þeim tímapunkti; hraðan hjartslátt, hraðan andardrátt, svitna jafnvel. Almennt túlkum við þessar líkamlegu breytingar sem kvíða eða merki um það að við séum ekki að standa okkur vel undir álagi. Í rannsókninni spurðu rannsakendur; hvað með ef við lítum á þessar líkamlegu breytingar sem merki um að líkaminn sé heilbrigður og sé að undirbúa okkur undir einhverja áskorun?
Í seinni rannsókninni var þátttakendum sagt að hugsa jákvætt um streituviðbrögð sín. Þeim var sagt að hugsa um streituviðbrögðin sem eðlileg og hjálpleg, að hraðari hjartsláttur undirbúi okkur fyrir líkamlega virkni, að aukinn andardráttur færi okkur meira súrefni í heilann og svo framvegis. Það kom í ljós að þátttakendur sem lærðu að líta á streituviðbrögð sín sem hjálpleg fundu fyrir minni streituviðbrögðum, voru minna kvíðnir og miklu öruggari.
Áhugaverðasta uppgötvunin var sú hvernig líkamleg viðbrögð þátttakendanna sem hugsuðu jákvætt um streituviðbrögð sín breyttust.
Vinstri myndin hér að ofan sýnir dæmigert streituviðbragð, þá verður hjartslátturinn hraðari og æðar dragast saman. Það er ekki heilbrigt að vera alltaf í slíku ástandi og þetta er ein af ástæðum þess að langvinn streita er tengd við hjarta- og æðasjúkdóma.
Hægri myndin sýnir slaka æð, eins og ástand æðar er þegar fólk lítur á streituviðbrögð sem eðlileg og hjálpleg. Hjartað slær kannski ört, en myndin sýnir miklu heilbrigðari hjarta- og æðastarfsemi. Svona lítur æð til dæmis út þegar að við upplifum gleði og hugrekki.
Á heillri ævi streitumikilla upplifana gæti þessi eina líffræðilega breyting, að hugsa jákvætt um streituviðbrögð sín, verið munurinn á hjartaáfalli framkölluðu af streitu í kringum fimmtugsaldurinn og að lifa heilbrigðu lífi til hundrað ára. Vísindarannsóknir eru í raun að segja okkur að það hvernig við hugsum um streitu skiptir máli.
Markmið Kelly sem heilsusálfræðingur hefur breyst, hana langar ekki lengur að aðstoða skjólstæðinga sína við að losna við streitu, heldur hjálpa þeim að líta jákvæðum augum á streituviðbrögð sín og verða betri í því að meðhöndla streitu. Næst þegar að þú upplifir hraðari hjartslátt vil ég að þú munir eftir þessari grein og að þú hugsir með sjálfum þér þetta er líkaminn minn að hjálpa mér að takast á við þessa áskorun. Þegar þú lítur á streituviðbrögð þín á þennan hátt trúir líkaminn þinn þér og streituviðbrögðin þín verða betri fyrir heilsuna þína.
Það er fleira áhugavert um streituviðbrögð okkar. Streita hvetur okkur til þess að vera félagslynd og leita félagsskapar við annað fólk. Til þess að skilja þessa hlið á streitu er gott að skoða taugahormónið oxytocin, eða knúshormónið eins og það hefur verið kallað undanfarin ár. Heiladingullinn losar oxytocin þegar að við föðmumst. Oxytocin fær okkur til að gera hluti sem styrkja náin tengsl. Það fær okkur til að finnast við þurfa líkamlega snertingu við vini og fjölskyldu, eykur samúð okkar og gerir okkur viljugri til þess að aðstoða fólk sem okkur þykir vænt um.
En oxytocin er einnig streituhormón sem heiladingullinn pumpar út sem hluta af streituviðbragði líkamans. Oxytocin er í raun jafnmikill hluti streituviðbragðs okkar eins og adrenalínið sem fær hjartað til að slá hraðar. Þegar að oxytocin er losað í streituviðbragði er líkaminn að hvetja okkur til þess að leita aðstoðar. Líffræðilegt viðbragð okkar er að ýta okkur í þá átt að segja einhverjum hvernig okkur líður í stað þess að byrgja það inni. Streituviðbragðið okkar vill að við tökum eftir því þegar einhver í kringum okkur á erfitt, þannig að við getum verið til staðar fyrir hvert annað. Þegar að lífið er erfitt vill streituviðbragðið okkar að við séum umkringd fólki sem þykir vænt um okkur.
Og hvernig getur það hjálpað okkur með heilsuna að þekkja þessa hlið á streitu? Oxytocin er ekki aðeins virkt í heilanum heldur einnig í líkamanum. Eitt af meginhlutverkum oxytocin í líkamanum er að vernda hjarta- og æðakerfið fyrir áhrifum streitu. Það er náttúrulega bólgueyðandi og hjálpar æðunum að slaka á í streituviðbragði. Kelly segir í fyrirlestrinum sínum að það besta við oxytocin sé styrkjandi áhrif þess á hjartað. Oxytocin hjálpar hjartafrumum að endurnýja sig og læknast af hvers kyns streitutengdum skemmdum. Það flotta er að allur þessi líkamlegi ávinningur frá oxytocin eykst þegar að við upplifum félagsleg tengsl og félagslegan stuðning. Þannig að þegar að við leitum til annarra, hvort sem er eftir stuðningi eða til að aðstoða, þá losnar meira oxytocin, streituviðbrögð okkar verða heilbrigðari og við jöfnum okkur fyrr á streitu. Þetta er magnað kerfi!
Að lokum verð ég að segja frá rannsókn sem var gerð í kjölfarið á hinum, en í henni var fylgst með þúsund manns í Bandaríkjunum á aldrinum 34 til 93. Spurningarnar voru: „Hversu mikla streitu hefur þú upplifað á síðastliðnu ári?“ og „Hvað hefur þú varið miklum tíma í að aðstoða vini og aðra?“ Síðan var athugað hverjir dóu á næstu fimm árum. Fyrir hverja streitumikla upplifun í lífinu jókst hættan á ótímabærum dauða um 30%. Það gilti samt ekki fyrir alla. Það að aðstoða vini og aðra jók á mótstöðuna gegn streitu. Þetta segir okkur svo margt. Slæm áhrif streitu á heilsuna eru ekki óumflýjanleg. Hvernig við hugsum og breytum getur breytt upplifun okkar á streitu. Þegar við veljum að líta á streituviðbragð sem hjálplegt þá er það gott fyrir heilsuna okkar. Þegar við veljum að tengjast öðrum eða leita til annarra vegna streitu þá getum við skapað mótstöðu gegn streitu. Streita veitir okkur aðgang að hjörtum okkar, hjörtum fullum af umhyggju sem finna gleði og tilgang í því að tengjast öðrum.
Heimildir:
How to make stress your friend, Kelly McGonigal. (http://www.youtube.com/watch?v=RcGyVTAoXEU)
Skrifað af Rögnu Ingólfsdóttur, ragnaingolfs@gmail.com