Auðvelt er að varpa fram slíkri spurningu sem er fyrirsögn þessarar greinar, en kannski ekki eins auðvelt að svara henni.
Vörur sem eru á boðstólum í dag eru auglýstar sem fyrsta flokks, úrvals, gæðavara, undir ströngu eftirliti o.s.frv.
Fyrr á tímum var til matvara, sem var ljúffeng og framleidd af þeim sem höfðu þekkingu og reynslu í því sem þeir gerðu og lögðu sál sína í að gera það eins vel og vandað og kostur var. En finnst slík vara ennþá? Hún er að minnsta kosti vandfundin. Verslanir eru yfirfullar af fjöldaframleiddum matvörum og hlutum.
Öll okkar tilvera hefir breyst gífurlega á síðustu 100 árum, og krafan um gæði hefir einnig breyst mjög, já, jafnvel hugtakið hefir breyst.
Hvað er það sem hefir breyst, og hvernig hefir það breyst?
Í dag felur hugtakið gæði og gæðavara, þegar um matvæli er að ræða, fyrst og fremst í sér hugmyndina um lögun og lit; grænmeti og ávextir eiga að hafa "réttan lit og vera falleg í laginu, sem sagt einskonar fegurðarsamkeppni. Í niðursuðuvörur og tilbúin matvæli eru sett litarefni, efni til að auka geymsluþol auk ýmissa efna til að kitla bragðlaukana. Í gæðamati í dag er ekki spurt hvort matvaran innihaldi eiturefni, sem notuð eru til úðunar, eða hvort næringargildið sé eins og best væri á kosið; nei, númer eitt er útlitið.
Venjulegar ræktunaraðferðir leggja áherslu á að fá sem mesta uppskeru með sem minnstum tilkostnaði, og helstu hjálpartækin eru tilbúinn áburður og lyf gegn sjúkdómum og sníkjudýrum. Hverskonar matvara er það, sem við fáum úr jarðvegi sem þannig er farið með? Fyrsta flokks, segir gæðamatið. En neytandinn, hvað segir hann? Oft hefir heyrst á undanförnum árum kvartað yfir slæmum og jafnvel óætum kartöflum, bragðlausum tómötum, eiturbragði af gulrófunum, og svo mætti lengi telja.
En hvað er til ráða? Er ekkert hægt að gera til úrbóta? Því miður er hugur þeirra sem framleiða matvæli alltof mikið bundinn við stundargróðann; til þess að breyting verði á, þarf að verða hugarfarsbreyting hjá bæði neytendum og framleiðendum. Neytendur þurfa að gera sér grein fyrir, að ekki er allt gull sem glóir, og að það er ekki nóg að fá bara eitthvað til að fylla magann, heldur þarf líkaminn að fá sem besta næringu.
Á hvern hátt er svo hægt að stuðla að meiri gæðum í þeim jurtum og ávöxtum sem ræktuð eru?
Svarið við þeirri spurningu er stutt, en það er að breyta ræktunarháttum á þann veg að vinna með náttúrunni í stað þess að vinna á móti henni. Úr sjúkum jarðvegi fáum við sjúkar plöntur og lélega matvöru, og úr lélegri matvöru fáum við lélega næringu, auk ýmissa skaðlegra efna í kaupbæti.
Til þess að fá matvöru í hæsta gæðaflokki þarf að byggja upp lífið í jarðveginum, lífskraft sem síðan gengur áfram í plönturnar og þaðan í mannslíkamann. Tilgangurinn með lífrænni ræktun er að auka þennan lífskraft, þessa orku sem er undirstaða lífsins, já lífið sjálft; án hennar væri ekkert líf, heldur aðeins dautt efni, sundurlaust og óskipulegt. Því meiri sem lífskrafturinn er í fæðunni, þeim mun betri er hún sem næring fyrir mannslíkamann.
Guðfinnur Jakobsson garðyrkjumaður
Heilsuvernd 6. tbl. 1976, bls. 141-142