Vitur maður sagði mér fyrir nokkrum árum að einmanaleiki væri hættulegasta heilsufarsvandamál í heimi. Þetta eru orð að sönnu og þetta sé ég vel í störfum mínum í því að efla fólk í átt að heilsusamlegri lífsstíl.
Grunnur í því að stuðla að heilsueflingu er virðing og ást í eigin garð. Þegar einmanaleikinn bankar á dyrnar þá minnkar oft þessi umhyggja í eigin garð, manni verður sama um allt og gefur skít í lífið (og um leið að lifa heilsusamlegu lífi). Við mannfólkið erum félagsverur og án félagsskapar og samskipta við annað fólk er þetta líf frekar grámyglulegt.
Einmanaleiki spyr ekki um aldur en ég hef þó séð að einmanaleiki eykst oft eftir því sem árin færast yfir.
Við getum tekið sem dæmi sjálfan mig, 47 ára fjölskyldufaðirinn. Ef ég spóla t.d. 40 ár fram í tímann til ársins 2062 þegar ég er orðinn 87 ára og sit einn í kotinu því elskuleg eiginkona mín er nýlátin. Dætur mínar þrjár og afleggjarar þeirra hafa lítinn tíma til heimsækja gamla karlinn í Hafnarfjörðinn, enda mikið að gera hjá öllum.
Mikið af mínum gömlu vinum eru látnir og ég hef ekki verið nógu duglegur að byggja upp önnur vinasambönd og hef ekki haft þörf fyrir að vera í einhverjum karlaklúbbum eða öðrum félagsskap.
Ég eyði því flestum dögum vikunnar í eldhúskróknum og hlusta á fréttir og glugga í blöð dagsins. Í ísskápnum er gömul mjólk að súrna og ég nærist almennt mjög illa, drekk mjög ótæpilega af kaffi og bryð nokkrar kexkökur með kaffinu.
Daglegu göngutúrarnir með konunni er ekki lengur á dagskrá, mér finnst það of erfitt og sakna hennar óendanlega mikið að labba þessa stíga sem við vorum vön að labba. Ég hafði því miður ekki vit á því að vera í sundleikfimi eins og konan mín heitin, það voru einhverjir fordómar í mér að halda að sundleikfimi væri bara fyrir „gamlar konur“, ekki hressa karla eins og mig.
Svefninn er orðinn lélegur vegna mikillar kaffidrykkju og kvíða sem mér finnst hafa hellst yfir mig síðan ég missti konuna mína.
Ég vona svo heitt og innilega að líf mitt eftir 40 ár verði ekki svona einmanalegt og sorglegt. Þessa lýsingu sé ég því miður hjá sumum af mínum skjólstæðingum sem lýsa einmanaleika og afleiðingum hans á líf og líðan.
Heilsan okkar byggist á góðri næringu, reglulegri hreyfingu, nægum svefni og andlegu jafnvægi. Allir þessir þættir heilsunnar fara oft forgörðum þegar einmanaleikinn bankar að dyrum og okkur verður skítsama um heilsu okkar.
Ef þið eruð að finna fyrir einmanaleika gerið allt sem þið getið til að rjúfa hlekki einmanaleikans og farið út meðal fólks, farið í sund, skráið ykkur í gönguhóp, félagsstarf, karlakór eða kvennakór, farið á tónleika, í bíó og bara hvað sem er sem ræktar ykkur sem félagsverur. Það er engin félagskapur asnalegur og þið megið vera í hópi fólks sem stundar það að hlaupa afturábak berfætt, ef það nærir ykkur félagslega.
Ef þið þekkið einhvern sem þið teljið að sé að eiga við einmanaleika, heimsækið viðkomandi og hvetjið hann/hana til meiri þáttöku í lífi sínu. Þið gætuð verið að bjarga lífi viðkomandi og ekki skemmir fyrir vellíðanin sem maður finnur við að hjálpa öðrum.
Jólin eru á næsta leiti og jólin eru oft erfiðasti tíminn fyrir þá sem eru einmana. Í stað þess að gefa gjafir ættum við að gefa okkur í kærleik og rækta samskipti við þá sem eru einmana.