Viðmælandinn í „yfirheyrslunni“ að þessu sinni er Sóley Margrét Jónsdóttir kraftlyftingakona með meiru. Þrátt fyrir ungan aldur er hún ein öflugasta íþróttakona landsins. Hún er á á heimsmælikvarða í kraftlyftingum og er ein besta kraftlyftingakona sem Ísland hefur alið. Í lok síðasta árs var hún kjörin íþróttakona Kópavogs.
Það er okkur hjá NLFÍ mikill heiður að fá þessa mögnuðu íþróttakonu í viðtal og það verður gaman að fylgjast með afrekum hennar í framtíðinni.
Fyrstu sex í kennitölu:
070601
Fullt nafn:
Sóley Margrét Jónsdóttir
Ertu með gælunafn?
Solla
Fjölskylduhagir og einhver gæludýr?
Bý ein í borginni, kom ekki fjölskyldunni í ferðatöskuna þegar ég flutti árið 2020. Ég á ekki gæludýr, eins og er á ég nóg með mig sjálfa.
Hvar ertu fædd og uppalinn?
Stoltur aKureyringur!
Núverandi búseta?
Reykjavík.
Menntun?
Útskrifast sem sjúkraliði í vor og stefni á kennarann eða iðjuþjálfann eftir það.
Atvinna?
Vinn í heilbrigðisgeiranum.
Hvenær og af hverju byrjaðir þú að stunda kraftlyftingar?
Ég var lengi vel í handbolta en datt inn á kraftlyftingaæfingu fyrir slysni haustið 2015 og það var aldrei snúið við í boltann eftir það.
Hvert var þitt fyrsta mót?
Ég tók einhver æfingamót 2016 en fyrsta alvöru mótið mitt var Reykjavik International Games janúar 2017. Þá tók ég fyrsta evrópumetið mitt, í 14-18 ára flokki, með 170kg í hnébeygju og var tekin í mitt fyrsta lyfjapróf!
Hver er öflugasti lyftingamaður (konur eru líka menn) sem hefur verið uppi?
Það er svo ótal mikið af efnilegu lyftingafólki búið að koma upp að ég á erfitt með að velja eina manneskju en svo einhver sé nefndur þá er það hinn norski Carl Yngvar.
Hefur þú tölu á þeim mótum sem þú hefur unnið:
Ég hef hana ekki límda í heilanum að öllu jöfnuðu en samkvæmt minni ferilskrá hjá Kraftlyftingasambandi Íslands eru það 26 skipti á tímabilinu 2016-2022.
Hefur þú stundað aðrar íþróttir en kraftlyftingar?
Ég var í handbolta í 10 ár. Fyrir þann tíma prófaði ég eflaust allar íþróttir sem til eru.
Fylgir þú einhverri ákveðinni stefnu í mataræðinu s.s. paleo, ketó, whole9 eða annað? Og ef svo er þá af hverju?
Ég legg mesta áherslu á að borða hreinan óunninn mat.
Hverjar eru þínar fyrirmyndir í kraftlyftingum og lífinu almennt?
Ég á mér engar sérstakar fyrirmyndir í sportinu en ég hef verið nokkuð dugleg að fylgjast með tækni og æfingaútfærslum hjá öðru kraftlyftingafólki úti í heimi. Bonica Brown og Hildeborg Hugdal eru kraftlyftingakonur sem ég hef fylgst með frá því ég var 14 ára en þær hafa verið í sportinu lengi og keppa í sama þyngdarflokki og ég. Markmiðið mitt einn daginn er að sigra þær og annarsvegar nappa heimsmetinu hennar Bonicu í hnébeygjuni sem eru 322,5kg og heimsmetinu hennar Hildeborgar í bekkpressunni sem eru 230kg.
Hversu marga facebook vini áttu?
774 og ég þekki eflaust 2,3% af þeim.
Hver var síðasti facebook status þinn?
Ég að auglýsa link af live streymi frá HM í nóvember. Það hafa verið einu statusarnir frá mér eflaust síðan ég byrjaði á facebook.
Hversu marga fylgjendur áttu á instagram?
Helling fleiri en á facebook, 776.
Hverju deildir þú síðast á instagram?
Mynd af mér frá því þegar ég var valin Íþróttakona Kópavogs árið 2022.
Ertu á twitter? Og ef já þá hverju deildir þú síðast?
Nei
Ertu á tiktok?
Bara alls ekki!
Uppáhaldsmatur?
Sushi og grjónagrautur.
Uppáhaldsdrykkur?
Nýmjólk.
Uppáhaldslag og tónlistarmaður (konur eru líka menn)?
Ég skipti um tónlistarval oftar en ég skipti um sokka.
Hvetur góð tónlist þig áfram á æfingum/mótum og þá hvernig tónlist?
Fyrir seinustu hnébeygjuna mína á síðasta HM kom lagið ,,Dancing on my own” með Calum Scott í heyrnartólin af óþekktum ástæðum og ég hafði ekki símann hjá mér til að skipta. Þannig ég hafði mig til fyrir 275kg hnébeygju með mesta vælulag allra tíma til að „peppa” mig í gang. Annars finnst mér meira hvetjandi að hafa einhverja upplífgandi tónlist í gangi þegar ég er við stöngina.
Uppáhaldsbíómynd?
Ég horfi lítið á bíómyndir en bestu þættir allra tíma eru Bates Motel, You og Friends. Síðan horfi ég mikið á heimildaþætti um sakamál.
Frægasta persóna sem þú hefur hitt?
Var það ekki bara Justin Bieber þegar hann var með tónleikana sína hér á Íslandi.
Markmið í starfi?
Finna framtíðarstarf sem mér líður vel í og get gefið af mér.
Markmið í kraftlyftingum?
Á næstu 2 árum: Taka heimsmetin í hnébeygju og bekkpressu í u23 ára flokki.
Á næstu 10 árum: Eiga öll heimsmetin í opnum flokki og vera heimsmeistari í opnum flokki.
En svona heilt yfir vil ég vera fyrirmynd fyrir ungar stelpur sem finna sig kannski ekki í íþróttum og hafa átt í basli við líkamsímyndina. Ég veit allavega hve mikið það lyfti mér upp að sjá allar þessar mögnuðu konur þegar ég var að byrja minn feril.
Markmið í lífinu?
Vera heilbrigð og líða vel í líkama og sál.
Mottó?
Ég á ekkert sérstakt mottó sem ég fer eftir en þó svo ég sé ekki trúuð þá er æðruleysisbænin alltaf með mér.
Hræðist þú eitthvað?
Að vera ekki með allt á 100% hreinu. Það er eitthvað sem ég er að vinna í.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í?
Ekkert sem mér dettur í hug, hef gaman að því að gera mig að fífli.
Eitthvað sem þú sérð mikið eftir og vilt/þorir að deila með lesendum?
Að hafa ekki lagt neinn metnað í samræmdu prófin í grunnskóla og þurft að taka 2 grunnáfanga (þ.e.a.s. auka áfanga) í framhaldsskóla vegna þess.
Hvað er það sem fáir vita um þig?
Að ég kemst í splitt, nota gleraugu og fæ blóðnasir að meðal tali 3x á dag.
Hverjir eru þínir styrkleikar í kraftlyftingum og veikleikar (ef einhverjir)?
Ég er með mjög sterk og stór læri og hef alltaf verið sterkbyggð almennt. Ég er með háan sársaukaþröskuld sem er mjög nauðsynlegt í þessu sporti. Einnig er ég með svo gífurlega löngun og áhuga að ná langt í þessu og ég tel það veita mér ákveðinn styrk líka. Síðan á mér skrilljón veikleika eins og ég á styrkleika en minn helsti er auðvitað bara álagsbrotið sem ég hef verið með í bakinu síðan ég var 13 – 14 ára. Það er það eina sem hefur haldið svona að alvöru aftur af mér að fara í hærri þyngdir, ná að æfa almennilega alltaf og komast á öll þau mót sem ég ætla mér. Síðan stressast ég mjög auðveldlega þegar hlutirnir ganga ekki eins og þeir ættu að ganga en ég hef náð að sigrast aðeins á því.
Hvað getur þú lyft miklu í?
Hnébeygju: 280kg
Bekkpressu: 190kg
Réttstöðulyftu: 220kg
Notar þú einhver bætiefni (fæðubótarefni) sem þér finnst hjálpa þér að ná árangri í kraftlyftingum og að almennri heilsu?
Það eina sem ég tek er D-vítamín en ég hef aldrei tekið nein önnur fæðubótarefni vegna þess að ég passa að fá öll vítamín og steinefni úr fæðunni. Ég er hins vegar nýbyrjuð að taka inn kreatín og það kemur í ljós hvort það geri eitthvað.
Hvað færðu þér að borða eftir erfiðar æfingar og mót?
Fljótlega eftir eða á lokapunkti æfingarinnar fæ ég mér eitthvað einfalt, einföld kolvetni og fer frekar í næringarríkari máltíð um kvöldið.
Hvað ertu að innbyrða á æfingum, er það bara vatn?
Það fer eftir því á hvaða tíma ég æfi þar sem ég borða það sama klukkan það sama á hverjum degi. Ég reyni að miða æfinguna þannig að ég er ekki að borða á æfingunni sjálfri en ef svo er fæ ég mér eitthvað skjótt í systemið.
Af hverju er keppnisfólk í lyftingum oft í mjög þröngum bolum í bekkpressu? Hver eru vísindin á bakvið þetta? Kraftlyftingar skiptast í 2 flokka þ.e. kraftlyftingar og klassískar kraftlyftingar. Í kraftlyftingum keppir þú í svokallaðri stálbrók í hnébeygju og réttstöðulyftu og svo bekkpressuslopp í bekknum. Bæði er þetta úr mjög stífu efni sem heldur þétt utan um líkamann, það er minni meiðslahætta og gerir þér kleift að fara í hærri þyngdir þar sem efnið styður við þig. Kraftlyftingar miða mikið af tækni og er það í raun algjör lykilpunktur. Síðan eru það klassískar kraftlyftingar en það er ekki svo langt síðan það var byrjað að keppa í þeim en áður voru þetta bara kraftlyftingar. Í klassískum kraftlyftingum er leyfilegt að keppa með belti, hnéhlífar og úlnliðsvafningar sem er síðan einnig leyft í kraftlyftingum.
Eru kraftlyftingar dýrt sport?
Ég endurnýjaði allan keppnisbúnaðinn í október í fyrra og það kostaði mig 120.000kr. Sumir eru að endurnýja fyrir hvert einasta mót þar sem efnið slitnar með hverri notkun, vona að þetta svari spurningunni.
Hvaða útbúnað þarf maður að hafa til að geta farið að æfa kraftlyftingar?
Ef þú ert að mæta á þína fyrstu æfingu þá er nóg að koma bara í flatbotna skóm og þægilegum íþróttafatnaði. Ef þú sérð fram á að halda áfram þá mæli ég með að fjárfesta í lyftingaskóm, belti, hnéhlífum og úlnliðsvafningum.
Af hverju eigum við Íslendingar svona mikið af sterku fólki og þá sérstaklega sterkum konum sem hafa komið fram í ólympískum lyftingum, kraftlyftingum og crossfit?
Það er góð spurning, ekki er það þorramaturinn af því hann er bæði úreltur og vondur.
Hvaða góðu og einföldu ráð getur þú gefið fólki sem er að byrja sinn feril í lyftingum?
Einbeittu þér alfarið af tækninni áður en þú setur þyngd á stöngina. Það brenna sig allt of margir á þessu.
Hvað getur þú sagt við stelpur og konur sem eru hræddar við að lyfta því að þær verði þær verði of massaðar?
Í fyrsta lagi tekur tíma að byggja og stækka vöðvana og þú verður ekki massaður á leiðinni út af fyrstu lyftingaræfingunni. Ég skil líka ekki hvað á að vera svona hræðilegt við að vera mössuð kona en þetta eru því miður staðalímyndir sem hafa þróast með okkur. Ég hef einmitt ótal oft lent í karlmönnum sem koma upp að mér að fyrra bragði til að láta mig vita að ég sé of stór og þeir myndu aldrei laðast að sterkum konum sem eru stærri en þeir en það er líka í góðu lagi af því að eina manneskjan sem þarf að samþykkja þig í þínum líkama ert þú sjálfur. Þannig ég vil hvetja konur til að standa með sjálfri sér ef þær vilja byggja upp vöðva og við getum staðið saman í að brjóta niður þessa úreltu staðalímynd.
Hvað eru að þínu mati grunnþættir góðrar líkamlegrar og andlegrar heilsu?
Regluleg hreyfing sama af hvaða toga, góður svefn, næringarríkt mataræði og að halda einhverskonar dagsrútínu hjálpar bæði líkamlegri og andlegri heilsu. Gefðu af þér og umkringdu þig fólki sem veitir þér gleði og stuðning… og minnkaðu samfélagsmiðlagláp!