Katrín H. Árnadóttir framkvæmdastjóri og eigandi Ecospíra leyfði okkur að skyggnast inn í líf sitt og svaraði nokkrum spurningum í „yfirheyrslunni“.
Innan skamms munum við heimsækja fyrirtæki Katrínar og kynnast betur ræktun á hennar á heilsufæðinu spírum og öðrum afurðum.
Fyrstu sex í kennitölu?
300760
Fullt nafn?
Katrín Halldóra Árnadóttir
Hefur þú einhver gælunöfn?
Kata
Fjölskylduhagir og einhver gæludýr?
Gift, 2 börn, hund og kisu
Hvar ertu fædd og uppalin?
Keflavík, uppalin í Sandgerði
Hefur þú búið erlendis?
Já í Hollandi, Þýskalandi, Spáni, Noregi
Núverandi búseta?
Garðabæ
Hvenær og hvers vegna vaknaði áhugi þinn á spírum?
Árið 2007 í leit minni að betri heilsu
Ertu sjálf dugleg að útbúa mat úr spírunum?
Ég borða spírur alla daga, þær fara vel með öllum mat, í þeytinginn, í salatið, í vefjur, ofan á brauð, í samlokur, ofaná pizzur, í grænmetisborgarana, með fisk- og kjöt- eða grænmetisréttum.
Getur hver sem er ræktað sínar eigin spírur, er þetta flókin ræktun?
Já allir geta ræktað spírur, ræktun spíra er eins og að rækta garðinn sinn eða blómin sín, þetta krefst smá þekkingar á samspili vatns, hita og ljóss við ræktunina einsog í allri ræktun.
Hvað er það sem helst klikkar í ræktun á spírum?
Spírur geta ofhitnað eða fengið of mikla vökvun eða fengið of lítinn vökva, þá er ljósið mikilvægt, almenna reglana er að rækta þær við óbeint sólarljós.
Ef of kalt á þeim þá vaxa þær ekki og ef fræin eru of gömul þá spíra þau ekki. Þá er mikilvægt að huga að hreinlæti við meðferð fræjanna og ílátana sem þær eru ræktaðar í, sem sagt margt sem huga þarf að.
Er erfitt og kostnaðarsamt að uppfylla skilyrði um lífræna ræktun?
Það er ekki erfitt en það krefst ákveðins vinnulags og ferlis sem þarf að uppfylla ásamt ítarlegri skjalagerð, allt þetta krefst tíma og nákvæmni í vinnsluferlinu.
Ertu vegan?
Nei en ég reyni að forðast neyslu á verksmiðjuframleiddu kjöti og eldisfiski. Neyti ekki mjólkurvara nema rjóma, smjörs og mjólkur útí lífræna kaffið.
Ertu með bakgrunn í einhverjum íþróttum?
Nei engan grunn, hef þó prófað að stunda eitt og annað en ekki ánetjast neitt í þeim efnum.
Stundar þú einhverja líkamsrækt, og þá hverja?
Syndi nánast daglega og geri morgunleikfimi með Halldóru í útvarpinu á morgnanna 🙂
Hversu marga facebook vini áttu?
Fer sjaldan á facebook og er ekki með það á hreinu
Hver var síðasti facebook status þinn?
Óskir um gleðilegt ár minnir mig
Uppáhaldsmatur?
Miðjarðarhafsmatur, gæti borðað hann alla daga
Uppáhaldsdrykkur?
Grænn þeytingur með brokkólíspírum og ananas
Uppáhaldslag?
Í augnablikinu Wuthering Heights með Moses Hightower
Uppáhaldsbíómynd?
The Intouchables
Frægasta persóna sem þú hefur hitt?
Man ekki eftir neinni, alla vega ekki frægari en það
Markmið í spírubransanum?
Koma lifandi fæðismáltíð á disk landsmanna a.m.k einu sinni í viku
Markmið í lífinu?
Fylgja hjartanu
Mottó?
Gera mitt besta
Hræðist þú eitthvað?
Nei
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í?
Það er langt mál að segja frá því en það var mjög neyðarlegt atvik sem tengist tæknimálum með ipad og iphone síma í skýinu. Ipadinn hafði ég lánaði erlendum vini mínum þessa helgi en iphone símanum hafði ég týnt þetta kvöld og hélt að honum hefði verið stolið frá mér. Ég fór á icloud og þóttist sjá ferðir símans á Suðulandi og var komin með tvo lögreglubíla í gegnum símasamband að elta uppi símann, þegar „þjófurinn” var síðan gómaður af blikkandi lögreglubílum reyndist þetta vera ipadinn sem ég hafði lánað vini mínum en ekki síminn. Símann fann ég svo seinna rafmagnslausan í vinnunni 🙁 Lögreglan hafði þá elt viðkomandi frá Vík til Selfoss með leiðbeiningum frá mér þar sem ég hafði fylgt ipadinum í skýjunu á googlemaps.
Hvað er það sem fáir vita um þig?
Elska súkkulaði og rauðvín
Hverjar eru þínar fyrirmyndir í lífi og starfi?
Foreldrar mínir, lögðu áherslu á að maður gerði ávallt sitt besta og voru mjög kærleiksríkir.
Hvar er hægt að nálgast skemmtilegar og góðar uppskriftir með spírum?
Það eru uppskriftir á vefsíðunni www.ecospira.is en til stendur að uppfæra síðuna með fleiri uppskriftum og hugmyndum um notkun spíra við dagleg fæði. Spíranna er neytt ferskra með öllum mat – eins og salat. Þær eru settar ofan á brauð, í hamborgara, í vefjur, í samlokur og í græna drykki. Það er í raun hægt að borða þær með öllu.
Henta spírur með flestum mat?
Sjá svar hér að ofan
Eru spírur ofurfæða?
Ef við skilgreinum ofurfæðu sem mjög næringarríka fæðu þá má segja að spírur séu ofurfæða. Í spírum eru ríkuleg andoxunarefni (vítamín) og mikilvæg sérvirk jurtaefni sem eru frumuverjandi og hægja á öldrun. Þá eru spírur mjög auðmeltar og ensímríkar sem auðveldar upptöku næringarefnanna út í blóðið sem er mjög mikilvægt því það sem við neytum skilar sér ekki endilega sem næring út í blóðið. Þá eru þær trefjaríkar sem nærir góðu þarmaflóruna.
Hafa verið gerðar ritrýndar vísindarannsóknir á heilsubætandi áhrifum spíra?
Já einkum á brokkólíspírum en aðrar eins og radísuspírur er nýverið farið að skoða m.t.t. frumuverjandi efnisins sulforaphane. Sulforaphane sem er að finna í kálmeti af krossblómaætt hefur sýnt vera frumuverjandi og getað komið í veg fyrir vöxt margra krabbameinsæxla sem og minnkað hættu á algengum sjúkdómum einsog sykursýki, hjartasjúkdómum, augnsjúkdómum og öndunarfærasjúkdómum. Til að tryggja að sulforaphane berist útí blóðrásina er mikilvægt að neyta kálmetisins ósoðins því ensímið myrosinase, sem þarf til niðurbrots efnisins, verður óvirkt við suðu.
Brokkóli hefur verið talið einna ríkast af þessu náttúruefni og hafa rannsóknir beinst að brokkólíspírum þar sem spíranna er neytt ferskra og myrosinase ensímið til staðar við neyslu. Nýjar rannsóknir benda til að radísuspírur hafi mögulega virkari frumuverjandi áhrif vegna hins ríkulega magns myrosinase ensíms sem er í radísuspírum. Ensímið myrosinase er lykilþáttur í myndun sulforaphane í meltingarveginum þannig og að það berist út í blóðið. Rannsóknir hafa sýnt að um 20 g eða hálfur bolli á dag af brokkólí- og radísuspírum er hæfilegur skammtur til að sulforaphane mælist í blóði. Auk þessa eru spírurnar auðugar af andoxunarefnum sem hægja á öldrun með því að hlutleysa sindurefni sem eru skaðleg frumum.
Hvað er framundan hjá þér?
Ég er að bæta við framleiðsluna ræktunarkerfum á smájurtum ( e. microgreens) sem ég hef hingað til verið að rækta handvirkt og einnig ræktunarkerfi til að rækta salöt og blaðjurtir. Ég er að hefja framleiðslu á tilbúnum réttum sem er fersk lifandi fæða, og mun ég framleiða um 80% innihaldsins sjálf, þ.e. spírur, grös, smájurtir og salatið sem ég nota í réttina.
Með þessari framleiðslu má segja að Ecospíra sé í raun komin í útrás því þetta er sérstaklega gert fyrir viðskiptavini Flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli sem eru að mestu erlendir ferðamenn.
Svo held ég auðvitað áfram að spíra eins og ég hef gert og kannski með vorinu verður tími til að halda nokkur námskeið um spírufæði.
Eitthvað að lokum?
Allt er vænt sem vel er grænt!