Ásdís grasalæknir er þekkt á Íslandi fyrir sína mikla þekkingu á lækningamætti íslenskra jurta. Við hjá NLFÍ vorum þess heiðurs njótandi að fá að spyrja hana nokkurra skemmtilegra spurninga um líf hennar í Yfirheyrslunni.
Hvað ert þú að gera þessa daganna?
Þessa dagana er ég að taka á móti skjólstæðingum á viðtalsstofunni minni, blanda jurtablöndur, undirbúa námskeið fyrir haustið og vinna betur að því að koma heimasíðunni minni www.grasalaeknir.is í gagnið.
Fyrstu sex í kennitölu?
171279
Fullt nafn?
Ásdís Ragna Einarsdóttir.
Ertu með einhver gælunnöfn?
Alveg sloppið við gælunöfn hingað til.
Fjölskylduhagir og einhver gæludýr?
Vel gift og á 3 dásamleg börn, 16, 12 og 8 ára.
Hvar ertu fædd og uppalin?
Fædd og uppalin í Keflavík en bjó í Svíþjóð í 3 ár þegar ég var yngri og tala enn sænskuna.
Núverandi búseta (eða póstnúmer)?
230 Keflavík.
Menntun?
BSc gráða í grasalækningum frá University of East London. Hef reynt að vera dugleg í gegnum árin að sækja ráðstefnur hérlendis og erlendis um heilsutengd málefni til að fylgjast með því sem er að gerast hverju sinni í heilsugeiranum og til að viðhalda þekkingu minni.
Atvinna?
Grasalæknir.
Hvenær fórstu fyrst að spá í heilbrigðum lífsstíl? Og Hvaðan kemur þessi áhugi á jurtum?
Ég fékk fyrst áhuga á lækningajurtum þegar ég var unglingur að flækjast um hálendið á jeppaferðalagi með fjölskyldunni en þar byrjaði ég fyrst að skoða plöntur í náttúrunni og komst yfir gamla bók eftir Björn Halldórsson um lækningajurtir sem kveikti áhuga minn á jurtum. 15 ára fékk ég vinnu í sveit hjá Kristbjörgu jógakennara og Eymundi bónda í Vallanesi en þar aðstoðaði ég við heimilið og lærði að elda grænmetismat handa heilli fjölskyldu, vinna í gróðurhúsi og við matjurtaræktun. Þarna gat ég lesið alls kyns heilsubækur sem voru til á heimilinu og höfðu áhrif á mig og ýttu enn frekar undir áhuga minn á heilsu og jurtum og hafði áhrif á hvað mig langaði til að læra og starfa við.
Hver voru þín fyrstu skerf í heilsu og náttúrulegum lækningum?
Tók út hvítan unnin sykur en ég var algjör sælgætisgrís langt fram eftir aldri og alltaf verið veik fyrir bakkelsi og sætindum.
Finnst þér gaman að elda?
Að elda fyrir mér er hugleiðsla og það veitir mér mikla ánægju að bardúsa í eldhúsinu og elda næringarríkan mat fyrir fjölskylduna. Finnst ég líka fá útrás fyrir sköpunarkraftinn í leiðinni að láta eitthvað gómsætt verða til.
Ertu með bakgrunn í einhverjum íþróttum?
Ég átti nokkur ár í körfubolta.
Stundar þú einhverja líkamsrækt, og þá hverja?
Ég er háð hreyfingu og fer í röska göngu nær daglega til að fylla á súrefnið og fá tíma ein með sjálfri mér og huganum. Svo hendist ég líka reglulega og lyfti lóðum og skokka en ég hef stundað útihlaup reglulega í nokkur ár. Hef verið að færa mig upp á skaftið í fjallgöngu og langar að stunda það af meiri krafti.
Hversu marga facebook vini áttu?
900
Hver var síðasti facebook status þinn?
‘Frábær dagur að baki út á Reykjanesi á námskeiði með Eydísi land- og umhverfisfræðingi um hvernig við eigum að tína söl og þara okkur til heilsubótar’.
Uppáhalds matur?
Íslensk kjötsúpa. Ég á alltaf til auka skammta af matarmiklum súpum í frysti til að grípa með í vinnuna eða þegar naumur tími. Svo elska ég að henda í alls konar heilsusamlega djúsí rétti eins og kúrbítspasta með heimagerðu pestó, grillaðan lax með quinoa, brokkolí og parmesan. Baka líka oft brauð og hendi í franska súkkulaðiköku en ég mikil súkkulaðikona.
Uppáhalds drykkur?
Jurtate, sítrónu sódavatn. Finnst líka mjög ljúft að drekka lífræna koffínlausa kaffið mitt með smá kókósrjóma.
Uppáhalds lag?
‘Space oddity’ með David Bowie og mörg lög með Sting eru líka í uppáhaldi. Annars hlusta ég á mjög fjölbreytta tónlist og fer alveg eftir stuði ég er í hverju sinni.
Uppáhalds bíómynd?
Eat pray and love.
Frægasta persona sem þú hefur hitt?
Labbaði næstum því á Sting og konuna hans í göngu í Central Park í New York síðasta sumar. Dauðsá eftir því að hafa ekki smellt í eina selfie með honum.
Markmið í starfi?
Vekja fólk til meðvitundar um að taka ábyrgð á eigin heilsu og reyna miðla þekkingu minni af bestu getu svo nýtist öðrum til góðs.
Markmið í lífinu?
Vera börnunum mínum góð fyrirmynd og koma þeim skikkanlega til manns. Halda áfram að vaxa í starfi og sem einstaklingur og láta gott af mér leiða í þeim verkefnum sem ég tek mér fyrir hendur.
Mottó?
Face the fear and do it anyway!
Hræðist þú eitthvað?
Hræðist eitt og annað í lífinu en reyni bara að takast á við óttann eftir bestu getu. Eftir að hafa horft alltof oft á ‘Jaws’ sem krakki þá hræðist ég sennilega hákarla einna mest.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í?
Ýmis neyðarleg atvik hér og þar en eiga það til að gleymast ansi hratt…
Hvað er það sem fair vita um þig?
Að ég skuli ennþá vera hlusta á sama rappið og hip hoppið síðan ég var unglingur.
Hverjar eru þínar fyrirmyndir í lífinu?
Fólk sem er óhrætt við að fara sínar eigin leiðir í lífinu.
Eitt gott fegurðarráð?
Kókósolía. Ég nota hana út á matinn minn, ber hana á þurra húðbletti og þríf maskarann með henni. Snilldar efni úr náttúrunni…
Hvaða góða og einfalda ráð getur þú gefið fólki sem vill huga að heilsu sinni og hugsa betur um sig?
Fókusera á það sem skiptir mestu máli og byrja á því og takast á við skrefin upp á við í átt að bættri heilsu á þeim hraða sem þú treystir þér til. Þetta snýst ekki um ‘allt eða ekkert’ nálgun á heilsu heldur að tileinka sér góðar heilsusamlegar lífsvenjur sem gefa af sér betri heilsu og aukin lífsgæði. Það er sama hvaðan gott kemur og yfirleitt er besta leiðin hinn gullni meðalvegur. ‘Health happens in the middle’ sagði einhver spekingurinn…
Heldur þú að fólk gæti nýtt sér náttúru Íslands betur og það sem hún hefur upp á að bjóða?
Ég hef mikla ástríðu fyrir því að kenna fólki að nýta það sem náttúran gefur af sér og vekja áhuga fólks á lækningajurtum til að nota sér til heilsubótar. Íslensk flóra státar af fjölmörgum kröftugum lækningajurtum sem við höfum öll aðgang að og hægt að nota þær til þess að efla heilsu okkur og vellíðan.
Hvað er framundan hjá þér?
Framundan eru nokkur spennandi verkefni sem ég er að vinna að með ákveðnum aðilum og á eftir að koma í ljós hver útkoman verður. Ég fæ reglulega þörf til að setjast aftur á skólabekk og ætla taka mér tíma á næstunni í að skoða hvaða valkostir eru í boði. Svo er það bara halda áfram að breiða út heilsuboðskapinn!