Aðalbjörg er ein af þeim miklu snillingum sem vinna á Heilsustofnun. Hún hefur gert sér gott orð undanfarið með útgáfu bókar um bætt samskipti. Hún leyfði okkur hjá NLFÍ að fræðast aðeins um líf sitt.
Fyrstu sex í kennitölu?
280672
Fullt nafn?
Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir
Hefur þú einhver gælunöfn?
Já, Adda. Ég heiti í höfuðið á móðurömmu minni sem er kölluð Adda og hef ég alltaf verið kölluð Adda eins og hún.
Fjölskylduhagir og einhver gæludýr?
Ég er gift Heiðari Inga Svanssyni, saman eigum við Birtu Björgu 17 ára og Örnu Dís 15 ára, áður átti ég Sóleyju Ylju og Unni Blæ, 21 árs tvíbura og Daníel Mána 24 ára. Heiðar átti svo Steinunni Lilju sem er þrítug.
Hvar ertu fædd og uppalin?
Ég er fædd í Reykjavík, bjó þar fyrstu tvö æviárin og flutti þá ásamt foreldrum mínum til Vopnafjarðar hvar ég ólst upp.
Hefur þú búið erlendis?
Nei.
Núverandi búseta?
Í Reykjavík – ég er líka mikið í litlu starfsmannaíbúðinni minni við Heilsustofnun J
Hverju viltu koma til skila með nýrri bók þinni um samskipti?
Megintilgangurinn felst í að auka þekkingu á því að það er á ábyrgð hvers og eins okkar að samskipti séu góð. Og að reynslan okkar, uppeldi og samskipti við aðra mótar okkur – við erum nefnilega alltaf með eina manneskju með okkur gegnum allt lífið, sem er við sjálf. Við þurfum að annast vel um þessa manneskju – okkur sjálf – taka utan um reynsluna og taka ábyrgð á okkur sjálfum.
Hvernig vaknaði áhugi þinn á bættum samskiptum?
Áhugi minn á bættum samskiptum kviknaði þegar ég var barn á Vopnafirði og varð fyrir einelti og útilokun. Þá strax fann ég tilgang í þessari reynslu og það fór að búa umsig innra með mér löngun til að fræða og tala um mikilvægi góðra samskipta fyrir líf, vellíðan og heilsu fólks.
Hvernig gengur að samhæfa ritstörfin og hjúkrunina?
Það gengur mjög vel! Það gefur mér mikið að starfa með fólki en það er mér líka mikilvægt að draga mig í hlé, vera ein og endurnæra mig. Það geri ég þegar ég er að skrifa.
Hversu lengi hefur þú starfað á Heilsustofnun NLFÍ og hvað gerir þú þar?
Ég byrjaði að starfa á Heilsustofnun 20. janúar 2016 og er deildarstjóri hjúkrunar.
Ertu með bakgrunn í einhverjum íþróttum?
Ég hef alltaf hlaupið mikið. Keppti í 800 metra hlaupi þegar ég var unglingur en náði svo sem ekki neinum sérstökum árangri!
Stundar þú einhverja líkamsrækt, og þá hverja?
Já ég fer 3-4 sinnum í viku og lyfti lóðum og hleyp úti þess á milli.
Ertu á Facebook og hversu marga Facebook vini áttu?
Já ég er á Facebook, bæði ég sjálf og svo eru Samskiptaboðorðin líka á Facebook! Samskiptaboðorðin eiga 1826 fylgjendur, ég á 889 vini.
Hver var síðasti Facebook status þinn?
Síðasti status hjá mér var status sem ég deildi frá Samskiptaboðorðunum:
Í morgunbjarma
hugsum við til þín
Hulin – falin
Í kvöldrökkri
gráta hjörtu okkar
Fundin – farin
(höf. Aðalbjörg Helgadóttir, 22. janúar 2017)
Megi kærleikur og samkennd okkar allra
umvefja þig, elsku Birna, og ástvini þína
Hvaða samfélagsmiðla notar þú?
Ég nota Facebook og Instagram.
Uppáhaldsmatur?
Grænmetispizzan sem Halldór kokkur á Heilsustofnun gerir.
Uppáhaldsdrykkur?
Toppur með sítrónubragði, kaffi latte með fjörmjólk eins og Unnur mín gerir á Kaffitári og svo ískalt Sauvignon Blanc á góðum degi.
Uppáhaldslag?
„Þannig týnist tíminn“ með Ragga Bjarna og Lay Low
Uppáhaldsbíómynd?
„Captain Fantastic“. Sonur minn benti mér á þessa mynd í fyrra og við Heiðar horfðum á hana meðan við flugum milli Frankfurt og Alicante í október. Hún hafði mikil áhrif á mig þessi mynd.
Frægasta persóna sem þú hefur hitt?
Nick Cave.
Markmið í starfi?
Að efla fagmennsku og gæði hjúkrunarþjónustu á Heilsustofnun, með þeim framúrskarandi mannauði sem starfar hér á hjúkrunarvaktinni. Einnig að halda áfram að leggja mitt af mörkum til að gestirnir okkar eflist í því að bera ábyrgð á eigin heilsu.
Markmið í lífinu?
- Að gera mitt besta til að börnin mín verði hamingjusöm og læri að bera ábyrgð á sjálfum sér.
- Að halda áfram að bera út hugsjón mína um góð samskipti og Samskiptaboðorðin, bæði með framkomu og gjörðum mínum og einnig með öllum þeim tækifærum til miðlunar sem eru til staðar.
- Að koma fram við aðra á sama hátt og ég vil að komið sé fram við mig.
- Að ljúka meistaraprófi í heilbrigðisvísindum árið 2017.
Mottó?
Kærleikurinn sigrar allt.
Hræðist þú eitthvað?
Já, ég hræðist dauðann.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í?
Þau eru nú nokkuð mörg…eitt var til dæmis þegar ég hljóp 21.1 km í Reykjavíkurmaraþoninu árið 2009. Á sama tíma og ég var að hlaupa í mark í Lækjargötunni var mikið klappað og hvatningarhrópin mögnuðust um allan helming svo að ég náttúrlega baðaði út höndum, sendi fingurkossa í allar áttir og brosti hringinn. En það var svo ekki fyrr en ég var komin í mark að ég tók eftir því að Gylfi Magnússon, þáverandi viðskiptaráðherra, efnahagsleg frelsishetja okkar eftir hrunið og hlaupagarpur var rétt á eftir mér…
Hvað er það sem fáir vita um þig?
Það er nú ekki margt eftir að bókin mín um Samskiptaboðorðin kom út! Sennilega samt það að ég er algjör sökker fyrir eurovision.
Hverjar eru þínar fyrirmyndir í lífi og starfi?
Vilborg G. Guðnadóttir og Adda Tryggvadóttir hjúkrunarfræðingar, Vigdís Finnbogadóttir forseti og allt það góða fólk sem ég er svo lánsöm að vera samferða í lífinu eru fyrirmyndir mínar.
Hvaða góða og einfalda ráð getur þú gefið lesendum sem vill bæta samskipti sín við aðra?
Gefðu þér tíma og hlúðu að þér, þá getur þú annast um og átt í góðum samskiptum við aðra.
Nú hefur samskiptatækni okkar aukist mikið undanfarin ár með ýmsum samfélagsmiðlum en samt erum við orðin miklu ósvífnari í samskiptum við tilkomu þessarar tækni. Hvað segir þú um þetta og ertu með góð ráð um bætt samskipti okkar á samfélagsmiðlum?
Við skulum hafa í huga að framkoma okkar á samfélagsmiðlum opinberar oft okkar innri kenndir og gildismat. Við getum bætt samskipti okkar á samfélagsmiðlum með því að vera kurteis, efla samkennd okkar með öðru fólki, koma fram við aðra eins og við viljum að komið sé fram við okkur, gera okkur grein fyrir gildismati okkar sjálfra – þekkja okkur sjálf – og setja ekkert fram á samfélagsmiðla sem við ekki getum sagt við manneskjur augliti til auglitis.
Hvað er framundan hjá þér?
Að skipuleggja sumarfríið mitt, halda áfram að hlakka til að koma í vinnuna, að læra meira, að knúsa fólkið mitt meira og að njóta lífsins.
Eitthvað að lokum?
Eitt af því mikilvægasta sem lífið hefur kennt mér er þakklæti. Því að með þakklæti og auðmýkt fyrir tækifærunum sem við fáum og fyrir reynsluna sem lífið gefur okkur, þá verður tilgangur lífsins augljósari og tilveran hamingjurík.