„Ég tek af alhug undir að endurhæfing er gríðarlega mikilvæg og skilar sér margfalt til samfélagsins,“ sagði Alma D. Möller heilbrigðisráðherra í svari við fyrirspurn Guðrúnar Hafsteinsdóttur formanns Sjálfstæðisflokksins og annars þingmanns Suðurkjördæmis í fyrirspurnartíma á Alþingi 22. september. Guðrún sagði að endurhæfing væri „ekki jaðarmál í heilbrigðiskerfinu heldur lykilþáttur þess að sjúklingar nái heilsu, komist aftur til vinnu og losni af biðlistum. Því vek ég athygli á þjónustusamningi um hið mikilvæga endurhæfingarstarf Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði en enginn samningur er í gildi og viðræður hafa staðið yfir í langan tíma án niðurstöðu. Á sama tíma liggur fyrir hjá Sjúkratryggingum Íslands að greiðslur hafa ekki staðið undir raunkostnaði og talið vanta verulega fjármuni til að greiða fyrir þjónustuna sem veitt er.“
Alma Möller heilbrigðisráðherra tók undir mikilvægi endurhæfingar sem skilaði sér margfalt til samfélagsins. „Það er hins vegar þannig að það hefur ekki verið raunvöxtur í undanförnum fjárlögum og þessi þjónusta hefur sætt aðhaldi. Ég hef talað fyrir því að svo megi hlutirnir ekki vera og held því áfram. En það sem ég tók mjög fljótt eftir þegar ég kom inn í heilbrigðisráðuneytið í upphafi ársins er að það er ekki nægilega vel skilgreint hvað heilbrigðistengd endurhæfing er. Þar setti ég þegar í stað af stað vinnu um að skilgreina það og svokölluð hvítbókarvinna er í gangi og hún verður kynnt á heilbrigðisþingi sem helgað verður endurhæfingu. Það er alveg rétt að það er gagnrýni á hvernig fjármunum hefur verið útdeilt til mismunandi stofnana og Náttúrulækningafélagið hefur gagnrýnt það. Þetta er ekkert nýtt, þetta er búið að vera til margra ára en auðvitað þarf að laga það.“