„Endurhæfing er ekki jaðarmál í heilbrigðiskerfinu heldur lykilþáttur þess að sjúklingar nái heilsu, komist aftur til vinnu og losni af biðlistum,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins og 2. þingmaður Suðurkjördæmis í fyrirspurnartíma á Alþingi 22. september. „Því vek ég athygli á þjónustusamningi um hið mikilvæga endurhæfingarstarf Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði en enginn samningur er í gildi og viðræður hafa staðið yfir í langan tíma án niðurstöðu. Á sama tíma liggur fyrir hjá Sjúkratryggingum Íslands að greiðslur hafa ekki staðið undir raunkostnaði og talið vanta verulega fjármuni til að greiða fyrir þjónustuna sem veitt er.“
Guðrún sagði að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar sætti furðu en samkvæmt fjárlagafrumvarpinu stæði til að skerða stuðning til mikilvægra sjálfseignarstofnana. „Einnig spyr ég hvort ráðherra ætli að tryggja samningsöryggi og fjármögnun endurhæfingarstarfs Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands svo að fólk detti ekki út úr kerfinu og eigi raunverulega möguleika til endurhæfingar?“