Eins of fram hefur komið hér á síðunni er í bígerð heimildarmynd um Jónas
Kristjánsson lækni og stofnanda Náttúrlælningafélags Íslands. Myndin er í tilefni
að því að 150 ár eru frá fæðingu Jónasar á þessu ári.
Okkur hjá NLFÍ lék forvitni á því að vita hvernig vinnan við myndina gengi og
tókum því leikstjóra myndarinnar tali. Leikstjórinn er ungur og efnilegur og
heitir Guðjón Ragnarsson. Hér er viðtal sem ritstjóri tók við Guðjón á dögunum.
Hver er Guðjón Ragnarsson?
Best væri nú að spyrja
einhvern mér nákominn en ég skal reyna. Ég er 27 ára og hef elskað bíómyndir og
tónlist síðan ég man eftir mér. Ég er ættaður að norðan og austan en ólst upp í
Garðabæ. Ég byrjaði að vinna í kvikmyndagerð þegar ég var 13 ára og hef aldrei
kvikað frá því. Ég lærði leiklist við New York Film Academy (NYFA) í Los
Angeles þar sem ég bjó um hríð. Ég kláraði síðan þrjár annir af fjórum í
Kvikmyndaskóla Íslands á handrits- og leikstjórnarbraut eftir að ég flutti heim
frá Kaliforníu. Í dag vinn ég sjálfstætt sem leikstjóri, handritshöfundur og
leikari. Ég elska fólkið mitt, Ísland, Stanley Kubrick og vinnuna mína.
Hvernig kom það til að þú tókst að þér þetta verkefni?
Margrét Jónasdóttir framleiðandi hjá Sagafilm, kallaði mig á fund og sagði mér frá verkefninu. Við höfum unnið saman í þrjú ár við gerð á annarri heimildarmynd. Ég heillaðist strax af sögu Jónasar Kristjánssonar og hef alltaf verið forvitin um Heilsuhælið í Hveragerði. það leið ekki á löngu þar til ég var kominn um borð. Þetta var aldrei spurning fyrir mig. Það er alltaf mikill heiður að fá svona beiðni frá framleiðanda. Orð fá því ekki lýst hvað ég er þakklátur Margréti fyrir það að hafa trú á mér í þetta verkefni. Hún er ekki bara vinur og samstarfskona, hún er einnig fyrirmynd mín og mentor.
Hvernig hefur gengið að vinna að heimildarmyndinni?
Það hefur verið
einstakt að byrja þetta verkefni út af ástandinu í þjóðfélaginu en
undirbúningur gengur mjög vel. Ég fór í fjóra daga á Sauðárkrók og náði góðu
myndefni af bænum og firðinum öllum í vetrarbúningi. Ég var þess heiðurs
aðnjótandi að fá að kynnast Jóni Ormari Ormarssyni og gaf hann mér mikla og
nákvæma innsýn í líf Jónasar og Sauðkrækinga yfir höfuð. Jón Ormar var svo
örlátur á tíma sinn og hjálpsamur að ég varð hálf klökkur þegar ég kvaddi hann
fyrir utan gamla sjúkrahúsið við Aðalgötuna á Króknum áður en ég keyrði heim.
Hann gerði ferðina ógleymanlega og betri byrjun á ferlinu hefði ég ekki getað
óskað mér. Núna er ég að undirbúa að fara á fullt í tökur. Það verður spennandi
að kynnast viðmælendunum.
Hvenær áttu von á því að hún verði frumsýnd?
Hún verður
frumsýnd í september á þessu ári. (Innskot ritstjóra: 150 ár eru frá fæðingu Jónasar
Kristjánssonar 20.september).
Hefur eitthvað komið þér á óvart í þessari vinnu?
Ævi Jónasar er
klárlega ein sú merkilegasta á 19. og 20. öldinni. Það hefur komið mér talsvert
á óvart að læra hvað hann var langt á undan sinni samtíð. Hvernig hann vann og
dugnaðinn sem skein í öllum hans verkum. Það er magnað að læra um landið sitt í
gegnum þessar sögur. Ég veit að þessi saga mun hafa áhrif og jafnvel hvetja fólk
til að taka ábyrgð á eigin heilsu. Ég get ekki beðið um meira sem leikstjóri en
tækifæri til að ná því fram.
Þekktir þú til Jónasar Kristjánssonar áður en þú tókst þetta verkefni að
þér?
Nei ég viðurkenni
það fúslega að ég hafði aldrei heyrt af honum fyrr en í janúar á þessu ári.
Hugar þú sjálfur mikið að heilsu þinni?
Síðan ég var 18 ára hef ég
mikið hugsað út í mataræði og hreyfingu. Ég stunda yoga (þegar það er í boði)
og vinn í að styrkja mig. Ég hjóla mikið á sumrin, er góður sundmaður og hleyp
líka reglulega. Mataræðið er klárlega það sem er mér erfiðast en best líður mér
þegar ég sleppi sykri og borða lítið kjöt. Kærasta mín er vegan og ef ég
fylgi henni þá líður mér best.