Yotam Ottolenghi hefur þróað matargerð sem á rætur sínar að rekja til hefða frá Mið-Austurlöndum og Miðjarðarhafinu. Grænmeti er í forgrunni og áhersla lögð á fjölbreytni í bragði, litum og gleði. Yotam Ottolenghi er yfirmatreiðslumeistari Ottolenghi hópsins og er höfundur níu metsölubóka. Hann skrifar reglulega í Saturday Guardian og New York Times. Þetta afganska pulao er passlegt fyrir fjóra eða jafnvel sex með góðu brauði.
Kryddblanda:
- 2,5 tsk cumin fræ
- 10 kardimommur, bara fræin
- 1,5 tsk kanill
- 1/4 tsk negull
Aðferð:
- Malið cumin og kardimommu fræin smátt í morteli. Blandið saman við kanil og negul.
- Setjið 1/2 matskeið af kryddblöndunni til hliðar fyrir kjúklingabaunasalsa.
Hrísgrjón:
- 45 ml ólífuolía
- 1 tsk heil cumin fræ
- 1 laukur
- 3 hvítlauksrif
- 300 g gulrætur
- 1 tsk sykur
- 400 g hrísgrjón
- 3 lárviðarlauf
- 1 sítróna
- 800 ml vatn
Aðferð:
- Hitið olíuna í potti eða pönnu sem má fara í ofn. Bætið kryddblöndunni við, ásamt heilum cummin fræjum, lauki og hvítlauk. Eldið í 15 mínútur og hrærið reglulega á meðan þetta karamellíserast aðeins.
- Hækkið hitan aðeins og bætið við rifnum gulrótum og sykri ásamt salti og pipar. Eldið áfram í 15-20 mínútur og hrærið reglulega.
- Takið af hitanum og hrærið út í vel skoluðum hrísgrjónum, lárviðarlaufum, salti og vel af pipar. Hellið sjóðandi vatninu yfir, lokið vel og bakið í ofni í 20-25 mínútur. Takið úr ofninum og látið hvíla undir loki í 10 mínútur.
Kjúklingabaunasalsa:
- 60 ml ólífuolía
- 30 g pistasíuhnetur
- 1/2 msk kryddblanda
- 25 g þurrkuð ber, ávextir eða döðlur
- 1 dós svartar kjúklingabaunir
- 1/2 tsk sykur
- 2 tsk sítrónusafi
- salt og pipar
Aðferð:
- Hitið olíu í pönnu og eldið hnetur í 2 mínútur eða þar til þær eru létt ristaðar og ilmandi. Bætið kryddblöndunni við og döðlum eða þeim berjum eða ávöxtum sem þið viljið. Eldið í hálfa mínútu og bætið þá kjúklingabaunum við, sykri og 1/2 teskeið af salti.
- Takið af hitanum og leifið þessu að taka sig á meðan hrísgrjónin eru elduð. Hrærið þá sítrónusafanum saman við.
- Setjið hrísgrjónin í stóra skál og hrærið þau aðeins upp með gaffli. Setjið kjúklingabaunasalsa yfir og ferskar kryddjurtir að eigin vali, kóríander, basil eða mynta. Berið fram með góðu brauði og grískri jógúrt.
Mynd: Pálmi Jónasson
