Málþing Náttúrulækningafélags Íslands í janúar 2004. Efni þessa málþings fjallar um erfðabreyttar afuðir.
Fundarstjóri: Anna Elísabet Ólafsdóttir , forstjóri Lýðheilsustöðvar.
Sjá allar greinar frá málþinginu
Inngangur
Hulda Sigurlína Þórðardóttir: Góða kvöldið, gott fólk. Ég heiti Hulda Sigurlína Þórðardóttir og er hjúkrunarforstjóri á Heilsustofnuninni í Hveragerði. Ég er í málþinganefnd Náttúrulækningafélags Íslands og vil fyrir hönd þessarar nefndar fræðslunefndar bjóða ykkur hjartanlega velkomin á þetta málþing um erfðabreyttar afurðir. Fræðslunefnd NLFÍ hefur staðið fyrir málþingum um ýmis efni frá árinu 1996 og má þar nefna málþing um ruslfæði, fæðubótarefni, nálastungur, líf án streitu, lækningamátt jurta, heilsutengda ferðaþjónustu, mjólk, skammdegisþunglyndi, streitu, sykur, offitu og lífsstíl barna. Fyrir ári héldum við málþing um lífsgleði sem var svo vel sótt að það skapaði öngþveiti hér á götum úti.
Mig langar að kynna fræðslunefndina sem hefur staðið nokkurn veginn óbreytt að þessum málþingum frá árinu 1996. Þar er fyrstan að nefna Inga Þór Jónsson sem er formaður NLFR, Eydísi Eiðsdóttur formann NLFA, Björgu Stefánsdóttur skrifstofustjóra NLFÍ, Önnu Pálsdóttur upplýsingafulltrúa Heilsustofnunar NLFÍ, og eins og áður sagði sit ég í þessari nefnd.
En nú er komið að því að snúa sér að erindi kvöldsins, erfðabreyttum afurðum. Mig langar að kynna fundarstjóra kvöldsins en það er Anna Elísabet Ólafsdóttir, forstjóri Lýðheilsustöðvar. Anna er matvælafræðingur frá Háskóla Íslands, næringarfræðingur frá háskólanum í Ósló og viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Hún hefur mikla og víðtæka starfsreynslu og vann m.a. hjá okkur á Heilsustofnun fyrir rúmum 10 árum og hún hefur líka unnið hjá Náttúrulækningafélagi Íslands. Hún vann sem ráðgjafi á sviði næringarmála við Næringarsetrið, hún hefur unnið hjá Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins, hjá Pharmaco og nú síðast sem forstjóri nýrrar Lýðheilsustöðvar. Ég vil bjóða þig, Anna Elísabet, velkomna. (hér kemur fundarstjóri inn í og tekur við)
Anna Elísabet Ólafsdóttir: Ég ætla að byrja á því að þakka Náttúrulækningafélaginu og þá þessari ágætu fræðslunefnd fyrir þetta frumkvæði að efna til málþings um erfðabreyttar afurðir. Ég bjóst satt að segja við mun fleira fólki, af því að í mínum huga er þetta það heitt málefni, ef ég má orða það svona, en kannski erum við ekki búin að átta okkur á því ennþá. Þá ætla ég að þakka ykkur fyrir traustið sem þið sýnið mér með því að óska eftir því að ég sjái um fundarstjórn hér í kvöld og ég ætla að reyna að leggja mig fram við það. Í fundarboðinu eru margar spurningar sem verður leitast við að svara í kvöld eins og kostur er og við erum spennt að hlusta á frummælendur.
Þær spurningar sem lagðar voru fram í fundarboðinu eru:
– Hvað er erfðabreytt afurð?
– Hvers virði eru erfðabreytingar?
– Geta erfðabreyttar afurðir hjálpað hungruðum?
– Stafar heilsunni ógn af erfðabreyttum plöntum?
– Er gróðavon of stór þáttur í erfðatækni?
– Hvernig er eftirliti háttað?
Þessar spurningar eru settar hér fram og til þess að reyna að velta þessu upp og hugsanlega svara einhverju af því höfum við fengið hér fjóra aðila sem frummælendur:
– Jónína Stefánsdóttir, matvælafræðingur
– Þórður G. Halldórsson, garðyrkjubóndi
– Dr. Einar Mantyla, plöntuerfðafræðingur
– Dr. Gunnar Á. Gunnarsson, framkvæmdastjóri
Ég mun ekki leyfa neinar fyrirspurnir strax að loknum þeirra erindum, þannig að ég bið ykkur um að punkta hjá ykkur þær spurningar sem vakna við að hlusta á frummælendurna. Þegar þeir hafa lokið máli sínu, stöndum við aðeins upp, fáum okkur vínber og smávegis vatn, en setjumst síðan inn aftur og þá getið þið fengið tækifæri til að koma með spurningarnar, því að þá verða pallborðsumræður og þá bætast við tveir aðilar, en það eru dr. Bjarni E. Guðleifsson plöntulífeðlisfræðingur og dr. Björn Sigurbjörnsson erfðafræðingur.
En okkur er ekki til setunnar boðið og ég held við hefjum þetta. Frummælendur hafa um 15 mínútur og þegar 15 mínútur eru liðnar þá læt ég ykkur vita af því og ég ætla ekki að segja ykkur hvað ég gef ykkur margar mínútur til viðbótar, en þær verða nú ekki mikið fleiri en fimm og þykir gott.
En fyrst á mælendaskrá er Jónína Stefánsdóttir matvælafræðingur. Hún er fædd 1957 í Árnessýslu, stúdent frá MR, B.S. í matvælafræði 1980 frá Háskólanum, B.S. Honor. í matvælafræði 1986. Hún hefur starfað sem matvælafræðingur hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, hjá Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins, verið í sælgætisgerðinni Freyju, Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, Hollustuvernd ríkisins og Umhverfisstofnun, og hún tók við málaflokknum erfðabreyttar lífverur hjá Umhverfisstofnun í ársbyrjun 2003.