Síðan Náttúrulækningafélagið var stofnað, hefir þeim, er að því standa, með hverju árinu orðið augljósari hin brýna þörf á að komið væri upp heilsuhæli, þar sem framkvæmdar væru lækningar með náttúrlegum ráðum, svo sem náttúrlegri og heilnæmri fæðu, hreinu lofti, ljósi, vatnsböðum og nauðsynlegum líkamsæfingum.
Það er á allra vitorði, að þrátt fyrir aukna læknishjálp, vaxandi læknafjölda, meiri lyf og aukna læknisþekkingu hafa hrörnunarkvillar vaxið talsvert hröðum skrefum. En mestallt starf lækna fer til þess að gera við sjúkdómseinkenni, án þess að hirt sé um að útrýma orsökum sjúkdómanna. Meðan þessu fer fram, er batnandi heilsufar ekki á næsta leiti. Hér verður að grípa til annarra ráða, ef duga skal.
Það er vísindaleg staðreynd, að fæði alþýðu og lifnaðarhættir eru á annan veg en þeir, er skapað hafa þá framþróun, sem mannkynið hefir náð. Og þetta er meginorsök hinnar sífelldu hrörnunar. Þegar á bernskualdri má sjá ótvíræð merki þess, að hnignun heilsunnar er byrjuð. Á það bendir tannveiki, botnlangabólga, bólgnir kirtlar og margt fleira. Hér duga engin önnur ráð en þau, að taka á róttækan hátt fyrir orsakirnar, á sama hátt og gert er við ýmsar næmar sóttir. Það verður að kenna fólki náttúrlega og heilnæma lifnaðarhætti. Hér er um þjóðarnauðsyn að ræða, eða svo lítum vér á, sem að Náttúrulækningafélagi Íslands stöndum. Því að hvernig fer um atvinnulíf vort, efnahagslegt og stjórnmálalegt sjálfstæði, ef heilsu landsmanna fer stöðugt hrörnandi?
Félag vort hefir nú fest kaup á jörðinni Gröf í Hrunamannahreppi í Árnessýslu fyrir væntanlegt heilsuhæli. Sumum kann að þykja þessi staður of fjarlægur Reykjavík. Ég fyrir mitt leyti lít svo á, að þetta sé frekar kostur en hið gagnstæða. Heilsuhæli þetta á ekki að vera neinn skrallstaður fyrir skemmtanafíkinn kaupstaðalýð, reykspúandi, nautnasjúkan og ölþyrstan. Því er ætlað að vera nokkurskonar kennslustofnun til þess að kenna fólki að iðka holla og heilsubætandi lifnaðarhætti, jafnframt því að vera lækningastofnun. Heilsuhæli vort munu sækja sjúklingar hvaðanæva af landinu, og mun enginn láta sig muna tveggja til þriggja tíma ferð í viðbót eftir góðum vegi, auk þess sem þetta væri sjúklingum, sem heima eiga á öllu Suðurlandsundirlendi, til hins mesta hagræðis. Og von vor er sú, að svona hæli eigi eftir að rísa einnig í öðrum landsfjórðungum.
Ég á bágt með að trúa á sælustað eilífðar, meðan menn umgangast hverjir aðra með haturshug og hefnigirni, í stað þess að rækta mannkærleika og guðs ríki hér vor á meðal. Ég óttast ys og þys og hraðann hjá menningarþjóðunum. Allt veldur þetta truflun á sálarlífi voru, styttir lífið og gerir það vansælt. Ef oss tekst að koma upp heilsuhæli til þess að rækta þar heilbrigði, mundi ég leggja til, að í því væri lítil kapella eða bænahús, þar sem þeir menn, sem trúræknir eru og trúa á kraft bænarinnar, gætu gengið inn og leitast við að finna sjálfa sig og samræmið við höfund lífsins.
Ég vona, að oss auðnist að koma upp heilsuhæli á hinum útvalda stað og takist ennfremur að sýna í verkinu það, sem vér höfum haldið fram, sem sé að lykillinn að heilbrigði og varðveizlu hennar eru hollir lifnaðarhættir. En þar eru matarvenjur og fæðuval sterkasti þátturinn.
Ennfremur er vinnan eitt af hinum þýðingarmestu skilyrðum heilbrigðinnar. Og ég vona, að ef oss auðnast að safna fé til að reisa heilsuhæli, þá safnist þar einnig saman starfsfúsir gestir, sem verði reiðubúnir til að prýða þetta framtíðarheimili heilsu og heilbrigði.