Björn L. Jónsson fyrrverandi yfirlæknir Heilsustofnunnar NLFÍ í Hveragerði fæddist á þessum degi árið 1904. Til að minnast þessa merka manns er vert að fara yfir ævi hans og störf.
Björn Leví Jónsson, eða Björn L. Jónsson eins og hann var oftast nefndur var fæddur að Torfalæk í Húnaþingi 4. febrúar 1904, sonur Jóns Guðmundssonar bónda og konu hans Ingibjargar Björnsdóttur Leví.
Björn kvæntist Halldóru Guðmundsdóttur og eignuðust þau þrjú börn. Að loknu stúdentsprófi árið 1925 hélt Björn til náms í náttúruvísindum við Sorbonne-háskóla í París, lauk þaðan prófi eftir fjögur ár og kom heim 1930. Hann hóf störf sem veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands við heimkomuna og gengdi því óslitið í 30 ár. Björn hélt ætíð miklum tengslum við Frakkland og var mikill aðdáandi franskrar menningar,hafði dálæti á tónlist og spilaði sjálfur þónokkuð á píanó. Um árabil var hann í stjórn Alliance Francaise og prófdómari í frönsku við Menntaskólann í Reykjavík.
Haustið 1952 hóf hann nám í læknisfræði við Háskóla Íslands og lauk kandidatsprófi í janúar 1958. Meðan á náminu stóð vann Björn fullan vinnudag á Veðurstofunni. Að loknu kandidatsári á sjúkrahúsum og héraðslæknisskyldu hélt hann til Þýskalands til að kynna sér náttúrulækningar og starfaði á bað og nuddlækningahæli í eitt ár.
Við heimkomuna 1960 gerðist hann aðstoðarlæknir borgarlæknis í Reykjavík og gengdi því starfi í nær fimm ár en var jafnframt starfandi læknir í Reykjavík.
Í maí 1965 gerðist hann yfirlæknir á Heilsuhæli NLFÍ í Hveragerði og gengdi því starfi til æviloka. Björn var í ritstjórn Heilsuverndar, tímarits NLFÍ, frá stofnun þess 1946 og ritstjóri frá 1961 til æviloka. Björn þýddi flestar þær erlendu bækur sem NLFÍ gaf út auk þess sem hann bar mestan þunga af útgáfu innlendu bókanna. Þá var Björn framkvæmdastjóri og varaforseti samtakanna. Hægt kynna sér skrif og hugðarefni Björns með því að lesa fjöldan allan af greinum hans um heilbrigt líferni og heilsuvernd hér á vef NLFÍ.
Að Jónasi Kristjánssyni lækni undanskildum er óhætt að fullyrða, að enginn hefur komist til jafns við Björn L. Jónsson í öflugu og ósérhlífnu starfi í þágu náttúrulækningastefnunnar hér á landi.