Planta mánaðarins er í „retro“ stíl og getur „poppað“ upp hvert heimili.
Begonia Rex er hópur blendinga og ræktunarafbrigða er gengur undir íslenska heitinu kóngaskáblað. Skemmtilega fögur og sérkennileg planta sem er ræktuð vegna blaðanna. Mikill breytileiki er innan hópsins varðandi liti og því ættu allir að finna eintak við hæfi. Plantan myndar þykkan jarðstöngul, blaðstilkar 10-20 cm langir, laufblöð egglaga, 15-30 cm löng, 10-20 cm breið, stuttydd og hjartalaga í grunninn með bylgjaða, tennta jaðra. Æðar loðnar á neðraborði, svargrænir, silfurgráir, fjólubláir og rauðleitir litir, fögur litamynstur. Blómin bleik.
Staðsetning
Begonia Rex þrífst best á björtum stað en þolir ekki beina sól. Austur – eða norður gluggi hentar henni vel frá vori og fram á haust – að vetri hentar suðurgluggi eða staðsetning við suðurglugga henni vel.
Hita – og rakastig
Stofuhiti hentar tegundinni vel (15-22°C), í góðum sumrum væri hægt að nota hana utandyra. Þolir þokkalega þurrt stofuloft en þrífst betur við hærra rakastig. Varist að úða yfir laufblöðin, kóngaskáblað er viðkvæmt fyrir mjöldögg.
Vökvun og næring
Best er að halda pottamoldinni jafnrakri og áburðargjöf með fjórðu hverri vökvun á vaxtartíma líkar henni vel. Pottamoldin má þorna í yfirborði á milli vökvana, æskilegt er að vökva neðan frá, plantan stendur þá í vatni að hámarki 20-30 mínútur, umfram vatni er hellt frá.
Annað
Kóngaskáblað kýs grunnan en víðan pott, betra rými fyrir jarðstöngulinn. Kóngaskáblaði er auðvelt að fjölga með blaðgræðlingum.
Samantekt:
Guðrún Helga Guðbjörnsdóttir, garðyrkjufræðingur.
Heimildir:
Lavsen, Erik Riis. Potteplanter – slægter, arter og grundlæggende dyrkningsdata, 2003. Biofolia.
Kristín Þórðardóttir. Pottaplöntur, handbók um meðferð og umhirðu, 1. hefti. 1997. Garðyrkjuskóli Ríkisins.
https://www.rhs.org.uk/advice/profile?PID=814
http://floradania.dk/nc/da/planter/pv/sl/data/begonia-1/
http://floradania.dk/da/nyheder/artikler/planteartikel/art/den-smukke-kongebegonia/
http://floradania.dk/nc/da/planter/pv/sl/data/begonia-1/