Planta mánaðarins er gamalkunn stofuplanta – Viðeigandi í byrjun sumars því hún er blað og blómfögur.
Clivia miniata eða röðulblóm vex villt í skógarbotnum Suður Afríku en þrífst ágætlega í íslenskum stofum. Röðulblóm tilheyrir hjarðliljuættinni og myndar jarðstöngul eða jarðstöngulhnýði. Úr jarðstönglinum vex blaðhvirfing af dökkgrænum, gljáandi og strikalaga laufblöðum – blaðhvirfingin getur minnt á blævæng. Blómstöngull með fjölda klukkulaga blóma vex upp úr blaðhvirfingunni að vori, blómin eru appelsínugul eða gul, fjöldi litabrigða fáanleg
Staðsetning
Clivia miniata þrífst best á björtum stað en þolir ekki beina sól, tegund sem hentar vel við norðurglugga. Laufblöð geta sólbrunnið í beinni sól.
Hita – og rakastig
Stofuhiti hentar tegundinni vel, en til að fá blómgun í gang þarf tegundin lágt hitastig að vetri (nóvember – febrúar), allt að 10°C. Svalur norðurgluggi ætti að duga. Við hærra hitastig á hvíldartíma verður blómgun minni.
Þolir ágætlega þurrt stofuloft en forðist að koma henni fyrir við ofn.
Vökvun og næring
Vökvun eftir þörfum á vaxtartíma, pottamoldin má verða þurr á yfirborðinu. Ef plantan er vökvuð ofan frá þá er vökvað þar til vatn fer að leka úr pottinum – ef vökvað er neðan frá, t.d. í undirskálina þá er ágætt viðmið að potturinn standi í vatni í 20-30 mínútur, umfram vatni er hellt frá. Vökvað með volgu vatni. Á hvíldartíma (að vetri við lágt hitastig) er dregið verulega úr vökvun. Áburður er gefin eftir blómgun í hvert skipti sem vökvað er fram í ágúst – september.
Annað
Röðulblóm ætti að standa óhreyft í potti sínum eins lengi og kostur er, plöntunni líður vel með dálítið þröngt á rótunum. Til að tegundin geti myndað blóm og blómgast ríkulega, er kaldur hvíldartími í um þrjá mánuði nauðsynlegur. Að blómgun lokinni er blómstilkur klipptur niður, óþarfi að eyða orku í aldin – og fræmyndun. Jarðstöngull og aldin eru eitruð, safi úr hvorutveggja getur verið ertandi, notið því hanska þegar plöntu er umpottað, blómstilkur klipptur af eða fræ handleikið.
Skemmtileg planta með og án blóma.
Samantekt:
Guðrún Helga Guðbjörnsdóttir, garðyrkjufræðingur.
Heimildir:
Lavsen, Erik Riis. Potteplanter – slægter, arter og grundlæggende dyrkningsdata, 2003. Biofolia.
Kristín Þórðardóttir. Pottaplöntur, handbók um meðferð og umhirðu, 2. hefti. 1997. Garðyrkjuskóli Ríkisins.
https://www.plantzafrica.com/plantcd/cliviaminiata.htm
https://www.rhs.org.uk/advice/profile?PID=655
http://www.whiteflowerfarm.com/how-to-grow-clivia-plants
https://www.landsbjorg.is/assets/slysavarnirheimilid/skadlegar_jurtir.pdf
Mynd: https://pixabay.com/en/clivia-houseplant-winterblueher-1750744/