Olof Lindahl er prófessor í læknisfræði og virkur félagi í ,Hälsofrämjandet, samtökum sænskra náttúrulækningamanna. Hann er ráðgefandi sérfræðingur tímarits samtakanna, „Hälsa“,og skrifar mikið í það.
„Við sem aðhyllumst náttúrulækningar viðurkennum, að til séu náttúrulyf, sem í óhóflegum skömmtum geta valdið tjóni eða sjúkdómum. Við leitumst hinsvegar umfram allt við að nota hættulausar aðferðir og lyf. Jafnvel þótt aukaverkanir geti fylgt náttúrlegum lyfjum, eru þau allajafnan notuð þannig, að þessar aukaverkanir eru sjaldgæfar eða nánast ómerkjanlegar. Sleggjudómar um hættuleg náttúrulyf koma stundum fram í fræðiritum og fjölmiðlum en virðast oftast sóttir til liðinnar tíðar í Kína, Malasíu og Rússlands, þar sem áhrifin virðast oftast stafa af lélegum vinnsluaðferðum og vankunnáttu.
En skráð læknislyf okkar valda tíðum aukaverkunum og dauðsföllum. Í þessum efnum er æskilegt, að læknastéttin gæti nokkurs hófs, og þá sér í lagi heilbrigðisyfirvöldin þegar um er að ræða gagnrýni á náttúrulyfjum. Heilbrigðisyfirvöldin, sem viðurkenna öll eiturlyf á skrá lyfjaeftirlitsins, ættu að minnast spakmælisins um flísina og bjálkann!
Á sama hátt og skólalæknisfræðin byggir náttúrulækningastefnan á misjafnlega velgrunduðum tilgátum. Að áliti okkar eru tilgátur okkar betur grundaðar, þegar um ágreiningsefni er að ræða, en skólalæknisfræðinnar.
Við teljum, að allir sjúkdómar eigi sér tvær, og aðeins tvær, orsakir, en sú kenning hefir svo til aldrei verið rædd í kennslubókum í læknisfræði.
Þessar orsakir eru:
1) erfðafræðilegar
2) áhrif frá umhverfinu.
Um erfðafræðilegu orsökina erum við sjálfsagt sammála, sem og að arfgengisþátta gæti í flestum sjúkdómum enda þótt meginorsakarinnar sé að leita í umhverfinu.
Hugtakið umhverfi felur fyrst og fremst í sér mat, drykk og loft, þar sem við teljum að flestra sjúkdómsorsaka sé að leita. Nú á tímum umhverfismengunar er vitaskuld náið samband á milli heilsuhreyfingarinnar og náttúruverndarhreyfingarinnar. Það bætist stöðugt við þann aragrúa framandi efna sem sleppt er út í umhverfi okkar ekki hvað minnst læknislyf og flest berast inn í líkama okkar með mat, drykk eða lofti. Hið skaðlega, vélvædda vinnuumhverfi mannsins ræður hér vitaskuld miklu, og þá ekki síður hið sálræna umhverfi. Við tölum oft um "heildina (holismen), enda þótt við teljum okkur ekki hafa fundið upp það hugtak.
Það er sem sé hugmynd okkar, að besta hugsanleg fæða og að öðru leyti óaðfinnanlegt umhverfi leiði af sér fullkomnasta heilsu. Við slík skilyrði hrjái engir sjúkdómar mennina nema þeir sem rekja má til erfðagalla, og eftir langt, heilbrigt og athafnasamt líf deyi þeir 120 eða 130 ára, saddir lífdaga og helst í svefni. Við stefnum sem sé á stjörnurnar, en erum fyrst um sinn ánægð ef við komumst út úr myrkviðnum.
Við teljum að svokölluð læknislyf eigi í rauninni alls ekki heima í þessari óskatilveru. Við neitum því á hinn bóginn ekki, að þau geti verið gagnleg í þessum sjúkdómshrjáða heimi, blátt áfram bjargað mannslífum, og við viðurkennum í stórum dráttum staðreyndir hefðbundinnar lyfjafræði.
En við teljum í fyrsta lagi, að þessi læknislyf séu að miklu leyti óþörf, ef notaðar eru fyrirbyggjandi aðgerðir eða læknisráð náttúrulækningastefnunnar, og í öðru lagi að eituráhrif þeirra séu gróflega vanmetin og þó umfram allt óþekkt.
Vitaskuld leggjum við megináherslu á að koma í veg fyrir sjúkdóma. Eftir að maður er orðinn veikur er ekki alltaf hægt að "lækna hann. Þetta má skýra með dæmisögu. Sá sem vanhirðir bílinn sinn árum saman og leyfir ryðinu að tæra að mestu blikkið getur ekki "læknað bílinn sinn með því að moka pillum í bensíngeyminn!
Í hnotskurn er inntak sænsku náttúrulækningastefnunnar sem sé þetta: Koma ber í veg fyrir sjúkdóma með réttu mataræði og stuðla jafnframt að því að aðrir þættir umhverfisins séu eins góðir og framast er kostur.
Úr „Hälsa“