Það fer ekki hjá því svona á haustdögum þegar uppskeran er öll að komast í hús að gulrætur séu manni hugleiknar. Þessar litfögru, bragðgóðu rætur hafa oftar en ekki glatt augu og bragðlauka og jafnvel verið tilefni mikillar kátínu í þeim tilfellum þegar ræktunarjarðvegurinn veldur vandræðalegu vaxtarlagi. Gulrætur hafa þó ekki alltaf verið jafn hátt skrifaðar og þær eru í dag. Á öldum áður voru þær aðallega ræktaðar sem dýrafóður og til eru upplýsingar um ráðlagða dagskammta gulróta fyrir hin ýmsustu búfjárkyn. Þegar hart var í ári og uppskera annarra viðkvæmari matjurtategunda brást, var gott að geta gripið til gulrótanna til að metta svanga munna. Smám saman jukust vinsældir gulróta en það má segja að þær hafi endanlega slegið í gegn á Vesturlöndum í seinni heimstyrjöldinni.
Bretlandseyjar hafa frá fornu fari verið töluvert háðar innflutningi á matvælum og um það leyti sem síðari heimstyrjöldin hófst á síðustu öld er talið að innflutt matvæli hafi verið um 70% af matvælaþörf landsins. Þegar stríðið skall á rofnaði flutningskeðjan til landsins og góð ráð urðu rándýr. Innflutt matvara var vandfengin og skömmtuð allt stríðið og kallaði það á að finna aðrar leiðir til að brauðfæða þjóðina með heimafengnum kosti. Allir sem vettlingi gátu valdið fóru í að rækta matjurtir og lögðu þannig sitt af mörkum til stríðsrekstrarins. Matjurtagarðar spruttu upp alls staðar þar sem hægt var að koma matjurtum niður, hvort sem það var inni í þéttbýli eða á landsbyggðinni.
Kartöflur eru mjög heppilegur valkostur þegar þarf að nýta hráefnið vel. Ein niðursett kartafla margfaldast í jörðinni og gefur af sér næringarríka og mettandi máltíð fyrir lítinn aur. Eyjaskeggjar voru því hvattir eindregið til kartöfluræktunar og var búinn til sérstök teiknimyndafígúra, Kartöflu-Pési, sem hafði það hlutverk að minna landsmenn á ágæti kartöflunnar og hvetja þá til ræktunardáða. Jafnframt gaf hann góð ráð um það með hvaða hætti mætti nota kartöflur í staðinn fyrir önnur innihaldsefni til dæmis við bakstur og matargerð. Kartöflu-Pési náði miklum vinsældum og jókst kartöfluframleiðsla til mikilla muna. Það er hins vegar leiðigjarnt til lengdar að borða alltaf sama matinn, auk þess sem koma þarf í veg fyrir ýmiss konar hörgulsjúkdóma sem fylgja einhæfu mataræði.
Gulrætur, rétt eins og kartöflur, eru auðræktanlegar og hollar og gefa góða fyllingu í maga. Stjórnvöld hvöttu því ræktendur einnig til að framleiða sem mest þeir máttu af gulrótum. Hvatningarorðin báru svo mikinn og góðan árangur að gulrótaframleiðsla fór fram úr björtustu vonum og árið 1942 var framleiðslan þrefalt meiri en nokkru sinni áður í sögunni. Þetta var margfalt það magn sem þurfti til að metta mannfólkið þannig að bændur gátu keypt umframframleiðslu á niðursettu verði sem fóður fyrir búpening. Til að koma í veg fyrir misnotkun á þessu fæði voru fóðurgulrætur úðaðar með fjólubláu litarefni. Litarefni þetta var skaðlaust fyrir búpening og sennilega einnig fyrir mannfólk og má telja líklegt að eitthvað af þessu eðalfóðri hafi ratað ofan í mennska munna gegnum svarta markaðinn sem blómstraði sem aldrei fyrr á þessum tímum skorts og eymdar.
Stjórnvöld voru með allar klær úti við að koma umframgulrótum í umferð. Eitt best heppnaða herbragð stjórnvalda við markaðssetningu gulrótanna sem ofurfæðu var þegar stjórnvöld gáfu í skyn að góður árangur flughersins í næturflugi væri afleiðing þess hve mikið flugmennirnir borðuðu af gulrótum. Þetta bar þann árangur að almenningur tók snarlega við sér og hámaði í sig gulrætur í þeirri trú að nætursjónin yrði betri og ekki þyrfti að kvíða rafmagnsleysi þegar bæir og borgir voru myrkvaðir á kvöldin. Ekki spillti fyrir að þetta kænskubragð hjálpaði til við að hylma yfir þeirri háleynilegu staðreynd (og raunverulegri ástæðu góðs árangurs í næturflugi..) að tekist hafði að þróa radartæki í flugvélar en slík tæki höfðu áður einungis verið til á jörðu niðri.
Í kjölfar vinsælda Kartöflu-Pésa kom Doktor Gulrót fram á sjónarsviðið. Hann var að sjálfsögðu í gulrótarlíki og hafði auk þess læknatösku með sér sem merkt var Vít-A sem vísaði til þess að gulrætur eru mikilvæg uppspretta A-vítamíns. Doktor Gulrót var einnig mjög vinsæll og dró ekkert af sér við að auglýsa hvílík gæðafæða gulrætur væru. Heilmikla útsjónarsemi þurfti til að koma öllu þessu bráðholla en óneitanlega lítið spennandi rótargrænmeti ofan í landsmenn. Stjórnvöld stóðu fyrir sérstökum útvarpsþáttum sem nefndir voru Eldhúsvígstöðvarnar („The Kitchen Front“) þar sem húsmæður fengu ráðleggingar um góða nýtingu matvæla og gefnar voru uppskriftir að frumlegum réttum úr heimafengnum afurðum eins og rótargrænmeti. Þessir þættir höfðu það meðal annars að markmiði að sannfæra húsmæður landsins um að framlag þeirra til stríðsrekstrarins væri öðrum þræði að elda næringarríkan og ódýran mat og tryggja þannig heilbrigði þjóðarinnar.
Ein af þeim vörum sem erfitt var að ná í var sykur og þar af leiðandi var sælgæti sjaldséð. Börn urðu því að treysta á útsjónarsemi og hugmyndaflug mæðra sinna þegar kom að slíku góðgæti. Stjórnvöld áttu svör við þessari eftirspurn og fram komu sérlega lokkandi sælgætistegundir eins og gulrótakaramellur, þar sem gulrætur komu í stað sykurs og gulrótasleikipinnar sem nutu dálítilla vinsælda hjá yngstu kynslóðinni og voru útbúnir þannig að trépinna var stungið í breiðari endann á gulrótinni og henni svo dýft í heita karamellu og látin kólna.
Staðreyndin er sú að eftir stríðið hafði mataræði Breta batnað til muna frá því sem var fyrir stríð. Skömmtunarkerfið sem var við lýði á stríðsárunum auk fastrar verðlagningar á vörum tryggði öllum þegnum landsins sams konar aðgang að fæði. Vegna skömmtunarkerfisins var almenningur mun meðvitaðri um næringargildi fæðunnar og mikilvægi þess að nýta skammtana sína til hins ítrasta. Mataræði fólks breyttist þannig að minna var neytt af sykri, fitu, kjöti og eggjum en meira af grænmeti því grænmetið var ekki skammtað. Þetta ættum við Vesturlandabúar að hafa í huga í dag, þegar nóg er til af öllu sem hugurinn girnist og við glímum ekki við hörgulsjúkdóma vegna næringarskorts heldur vandamál tengd ofneyslu. Upp með gulræturnar, niður með nammið!
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur