Eitt af flóknari verkefnum mæðra tel ég tvímælalaust vera það að finna viðeigandi nesti fyrir börnin til að taka með í skólann. Í sjálfu sér er þetta kannski ekki flókið, ég væri til í að skella kæfubrauði á línuna og láta það gott heita en því miður er það svo á mínu heimili að unglingsdæturnar hafa sjálfstæðar skoðanir á því hvaða nesti þeim hugnast best. Og þær skoðanir breytast daglega og yfirleitt án þess að upplýsa foreldrana um téðar breytingar. Þannig er nesti, sem var ómissandi í síðustu viku og talið sérlega ljúffengt, látið daga uppi í ísskápnum þessa vikuna og enginn kannast við að hafa nokkurn tíma beðið um slíkt óæti. Af þessum sökum og til að reyna að gera mitt til að draga úr matarsóun, hefur ferðum mínum í nærliggjandi verslanir frekar fjölgað en hitt, svona til að reyna að koma einhverju bitastæðu í ungviðið.
Um daginn vorum við mæðgur staddar í stórmarkaði og á meðan ungmeyjarnar mínar leituðu uppi ákjósanlegt brauðmeti gekk ég yfir að mjólkurkælinum í því skyni að velja þóknanlegt skyr. Við skyrhillurnar stóðu þrjár manneskjur, kona og tveir karlar, með mismunandi dósir í höndum og skeggræddu um afurðirnar. Þar sem ég er nú sigld kona áttaði ég mig snarlega á því að þarna voru útlendingar á ferð, nánar tiltekið frá Bandaríkjunum. Ég hef komið þangað og notið góðs af mikilli hjálpsemi ókunnugs fólks þar í landi þannig að mér rann blóðið til skyldunnar og ég spurði hvort þau væru í einhverjum vandræðum og hvort ég gæti aðstoðað þau á einhvern hátt.
Elskulegur eldri maður í hópnum sneri sér að mér og þakkaði mér fyrir að bjóða fram hjálp mína, þau væru að leita að skyri með múslíi og hvort ég vissi hvar það væri að finna í hillunum. Á sama tíma rétti hann fram dós af abt mjólk með vænan skammt af múslíi í lokinu. Ég brosti, kannski örlítið yfirlætislega (þótt það væri ekki ætlunin) og útskýrði fyrir þeim að það væri nú ekki til, á Íslandi væri skyr aldrei selt með þessum hætti, hér yrði maður bara að kaupa múslíið sér ef maður hefði áhuga á slíku. Eldri maðurinn horfði kankvís á mig og spurði svo hvort aðskilnaður skyrs og múslís væri bundinn í lög á Íslandi. Ég greip þetta strax á lofti og samsinnti manninum, auðvitað værum við með mjög vandaða löggjöf yfir okkar uppáhaldsmjólkurmat, enda væri Ísland upprunaland skyrsins. Svo hvatti ég þau eindregið til að prófa íslenskt skyr, jafnvel án múslís, það væri nú örugglega ekki á hverjum degi sem þau hefðu tækifæri til að prófa svona ljúffenga afurð í upprunalandinu.
Konan í hópnum hváði við, hún hefði oft smakkað skyr og það fengist í hverfisbúðinni hennar heima í Ameríku. ,,En er það örugglega hið upprunalega skyr?“ spurði ég. ,,Er skyr í alvörunni ættað frá Íslandi?“ spurði hún á móti. Eldri maðurinn í hópnum leit á mig og hristi höfuðið. ,,Stundum kemur fávísi fólks jafnvel mér á óvart“ sagði hann um leið og hann teygði sig í skyr með bláberjabragði. Í sömu anddrá komu ungmeyjarnar mínar aðvífandi klyfjaðar brauðum. Þær voru ekkert sérstaklega hissa á því að móðir þeirra væri í hrókasamræðum um skyr með múslíi við útlendinga og ákváðu að leggja sitt til málanna. ,,Þið verðið að kaupa rjóma á skyrið ykkar“ sagði önnur og hin ráðlagði þeim að fjárfesta í púðursykri því hreint skyr með rjóma og púðursykri væri langbest. Þegar þarna var komið við sögu taldi ég rétt að kveðja þetta elskulega fólk og halda áfram ferðinni í gegnum búðina. Ég óskaði þeim velfarnaðar við skyrvalið og góðrar skemmtunar á Íslandi og kvöddumst við eins og gamlir kunningjar.
Eftir stutt stopp í morgunverðardeildinni og hraðferð gegnum hreinlætisvörurnar fundum við okkur afgreiðslukassa með stuttri röð og biðum eftir afgreiðslu. Rétt þegar röðin er að koma að okkur verður mér litið upp og sé þá elskulega eldri manninn úr skyrdeildinni ganga mjög ákveðið til okkar. Þegar hann kom að okkur sagði hann: ,,Ég vildi bara láta ykkur vita að Trump er ekki mér að kenna. Ég kaus hann ekki! Ég er nú orðinn 74 ára gamall og hef aldrei hatað neina manneskju en ég hata Trump af öllu hjarta. Hann er óalandi og óferjandi [hér notaði blessaður maðurinn mörg orð sem er best að vera ekkert að endurtaka, þetta var inntakið] og því miður sitjum við uppi með hann. Ég skil ekki fólk sem kaus þennan mann, ég vildi bara láta ykkur vita að ég var ekki einn af þeim og ekkert okkar!“ Hann benti í áttina að ferðafélögunum sem biðu í nærliggjandi röð. ,,Þakka þér fyrir að láta okkur vita,“ sagði ég, ,,okkur líður betur að vita að enn er til fólk með almenna skynsemi í Bandaríkjunum.“ Við kvöddumst enn og aftur, ég og dætur mínar röðuðum fjölbreyttu nesti í fjölnota innkaupapokann og hann arkaði yfir að afgreiðslukassanum þar sem ferðafélagarnir biðu.
Þegar við gengum út úr búðinni sagði elsta dóttir mín: ,,Mamma, ég er sko fegin því að ég mun ALDREI þurfa að biðjast afsökunar á Guðna í nokkru landi, hann er svo æðislegur!“
Einmitt.
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur og verðandi nestisinnkaupasérfræðingur.