Á fyrsta degi vetrarfrís grunnskóla í mínu bæjarfélagi sat ég við gluggann á sumarbústaðnum mínum með rjúkandi kaffibolla mér við hönd og horfði út á haustið. Birkitrén stóðu nakin í þyrpingum og biðu komandi vetrar, tilbúin að takast á við kulda og trekk; grenitrén tignarleg, hlaðin könglum, lifandi varnarveggur gegn vindi; nokkur eplatré í ruglinu, enn með græn laufblöð eins og þau haldi að þau geti boðið vetrinum byrginn; móinn sölnaður og kominn í sinugulan haustlit. Veðrið var ágætt, nokkuð þungbúið, einstaka sólargeislar skutust niður í gegnum skýjaþykknið og mynduðu fallega sólstafi og stafalogn var á staðnum. Þá flaug rjúpnahópur hjá.
Rjúpur hafa orpið í grennd við sumarbústaðinn árum saman og það er alltaf gaman að sjá til þeirra af og til yfir sumarið þegar móðirin skýst milli þúfna með ungahópinn á eftir sér. Karrinn kemur stundum upp að húsinu og ropar fyrir okkur, væntanlega til að leiða athyglina frá fjölskyldunni þegar hún færir sig milli staða. Nú voru allar rjúpurnar orðnar snjóhvítar og stungu óneitanlega mjög í stúf við umhverfið.
Felubúningur rjúpunnar er í raun listavel þróaður. Á sumrin er oft mjög erfitt að koma auga á fuglana því þeir eru nær samlitir íslensku mólendi. Á haustin þegar kólnar í veðri og fer að snjóa breytir rjúpan um lit og verður alhvít og fellur vel inn í snævi þakta náttúruna. Þessi feluleikur hefur dugað rjúpunni vel í gegnum tíðina en miðað við það hvernig veðurfar hefur þróast undanfarin ár er spurning hvort rjúpan þyrfti ekki að fara í endurskoðun á tímasetningu felulitanna og halda lengur í mólendislitina því haustið er farið að láta bíða allverulega eftir sér. Rjúpnaveiðimenn fagna auðvitað mildu hausti því að er svo miklu auðveldara að koma auga á rjúpurnar svona hvítar á gulbrúnum haustlitagrunni, þær eru svo áberandi að jafnvel sjóndaprir veiðimenn ættu auðvelt með að finna þær í þoku, þær gætu allt eins verið með skotmark málað á bakið á sér. Fálkar þessa lands fagna örugglega líka með veiðimönnunum því rjúpan er jú uppáhaldsmaturinn þeirra og mun auðveldara að finna bráðina þegar hún hittir ekki á að vera samlit umhverfinu.
Eftir að hafa drukkið kaffið ákvað ég að bregða mér út í gönguferð og njóta kyrrðarinnar í sveitinni. Ég skellti mér í lopapeysu og úlpu og arkaði af stað. Á skógarstíg í grennd við bústaðinn gekk ég fram á hvíta rjúpu sem kúrði rétt fyrir utan stíginn. Ég gekk nokkuð rösklega eftir stígnum en rjúpan sat sem fastast. Í raun hreyfði hún sig alls ekki neitt, var eins og lítil rjúpumyndastytta og virtist ekki taka eftir mér. Brátt stóð ég við hlið rjúpunnar og ekki var nema um það bil einn metri á milli okkar og enn hreyfði hún sig ekki, nema hún hafi kannski blikkað öðru auganu örsnöggt. Ég komst að þeirri niðurstöðu að rjúpan teldi sig eiga meiri möguleika á að komast hjá vandræðum með því að vera grafkyrr, láta eins og hún væri örlítill snjóskafl í vegkantinum, þykjast vera ósýnileg. Kannski er þetta aðferð sem hefur komið sér vel fram að þessu. Eftir örfá skref var ég komin framhjá rjúpunni og hélt áfram gönguferð minni og varð ekki vör við að rjúpan bærði á sér.
Við enda skógarstígarins eiga góðir vinir okkar hjóna sinn sumarbústað. Þau hjón hafa verið dugleg við að gróðursetja trjáplöntur og fyrir nokkrum árum sóttu þau námskeið hjá öflugum skógræktarmanni sem talaði mjög fyrir þeirri aðferð að skýla ungum trjáplöntum með plastfötum. Botninn er skorinn úr hverri fötu, hún svo sett kringum trjáplönturnar og látin vera þar í tvö til þrjú ár, eða þar til trjáplönturnar eru orðnar hærri en fatan. Þessi aðferð virðist duga ágætlega og trjáplönturnar tosast upp en að sama skapi eru hvítar plastföturnar mjög áberandi í umhverfinu, það má jafnvel ganga svo langt að halda því fram að þær stingi í augun þegar haustar að og annar gróður fellur niður. Þar sem ég gekk framhjá landi vina okkar varð mér litið yfir nýræktina þeirra og dáðist ég mjög að eljusemi þeirra og dugnaði því þau höfðu greinilega gróðursett heilmikið af plöntum frá því ég átti síðast leið hjá landinu þeirra. Skyndilega hringdi síminn hjá mér, hárri og hvellri hringingu og ég hrökk í kút, átti ekki von á svona óþægilegri truflun í kyrrðinni. Í sama mund tók ég eftir því að hluti af plastfötunum tókst á loft, nei þetta var rjúpuhópur sem fældist við símhringinguna!
Álit mitt á rjúpum snarsnerist á augabragði. Þessir hvítu hnoðrar, sem í huga mér virtust svo varnarlausir og ósjálfbjarga (og jafnvel í heimskara lagi) sýndu þarna svo ekki var um villst ákveðna útsjónarsemi og kænsku. Þeir voru greinilega búnir að finna leið til að leynast fyrir allra augum, búnir að leika á veiðimennina og finna sér öruggt fylgsni með því að dulbúast sem hvítt plast. Þeirra vegna er ég örlítið fegin að átakið plastlaus september nær ekki fram á rjúpnaveiðitímann.
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur
2 Ummæli
Takk fyrir þessa góðu og hugljúfu frásögn. Þegar ég var 10 og 11 ára var ég í sveit austur á Hornafirði. Þar var mikið af rjúpum á vorin og gaman að fylgjast með þeim að spássera með ungahópinn sinn eftir túngarðinum. Þær voru furðu spakar, enda urðu þær sjaldan fyrir ónæði. Hef aldrei getað hugsað mér rjúpur í jólamatinn.
Takk fyrir þessa góðu og hugljúfu frásögn. Þegar ég var 10 og 11 ára var ég í sveit austur á Hornafirði. Þar var mikið af rjúpum á vorin og gaman að fylgjast með þeim að spássera með ungahópinn sinn eftir túngarðinum. Þær voru furðu spakar, enda urðu þær sjaldan fyrir ónæði. Hef aldrei getað hugsað mér rjúpur í jólamatinn.
Comments are closed.