Á vordögum sendi yngri dóttir mín mér skilaboð í símann og spurði hvort hún mætti vera lengur úti með vinum sínum. Ég opnaði skilaboðin, las þau vandlega, rifjaði í snatri upp útivistarreglur ungmenna og svaraði svo stúlkunni á þann veg að í ljósi þess að samkvæmt útivistarreglum væri útivistartími ungmenna liðinn þá bæri henni að koma tafarlaust heim með strætisvagni. Svarið sem ég fékk frá dótturinni var á þá leið að hún frábiði sér svona ritgerðir í skilaboðaformi, af hverju gæti ég ekki bara verið eins og venjulegar mæður og svarað annað hvort já, nei eða ok. Ég tók þetta að sjálfsögðu til mín enda mikilvægt að vera ekki langskrýtnasta móðirin í mæðrahópnum, ekki vil ég að börnin mín líði alvarlega fyrir skringilegheit móður sinnar.
Nokkrum kvöldum síðar komu svipuð skilaboð frá skvísunni, hvort hún mætti vera lengur úti. Minnug fyrri athugasemda svaraði ég stutt og laggott ,,nei”. Engar málalengingar, engar ritgerðir sem enginn nennir að lesa, mjög skýr skilaboð. Dótturinni þótti þetta nú samt ekki nægilega skýrt. ,,Mamma, þú verður að setja einhvers konar broskarl með svona skilaboðum svo maður viti hvort þú sért brjáluð eða ekki”, skýru skilaboðin voru sem sagt helst til skýr og mikilvægt að hengja á þau einhvers konar myndræna útskýringu sem gæti náð yfir skap móðurinnar á þeirri stund er hún svaraði barninu. Ég sendi henni því röð af alls konar huggulegum broskörlum, einhyrning (sem fyrir örfáum árum síðan var uppáhaldsdýrið hennar), tvær stelpur að leiðast, krúttlega kisu, úrval af ávöxtum og fleira sem gat fært ástkærri dótturinni heim sanninn um það að mamma hennar vildi henni allt það besta, meðal annars það að virða útivistartíma ungmenna og hún væri hvorki pirruð né reið. Dóttirin svaraði með broskarli sem sýndi kannski helst til mikið af tönnum fyrir minn smekk en gaf þó til kynna að hún væri ekki alls kostar ósátt við niðurstöðu móður sinnar.
Skömmu síðar var ég að skrolla niður facebook þegar ég sá færslu sem rak mig í rogastans. Önnur móðir hafði birt þar ýmsar hagnýtar upplýsingar undir yfirskriftinni ,,Veist þú hvað þessir broskarlar þýða?” Færslunni fylgdu broskarlar af ýmsu tagi og stutt útskýring á þeim skilningi sem unglingar leggja í merkingu broskarlanna. Þegar ég renndi yfir listann komst ég að því að krúttlegu broskarlarnir sem ég valdi að senda dóttur minni eru alls ekki svo krúttlegir þegar búið er að þýða þá yfir í unglingsku, mér féllust hreinlega hendur þegar á áttaði mig á því hvílíkan dónaskap ég hafði óafvitandi sent á blessað barnið. Mig grunaði enn fremur að dóttir mín hlyti að vita af þessu og hefði kosið að upplýsa ekki móður sína frekar um dýpri merkingu skilaboðanna. Ég greip því til minna ráða og ákvað að láta eins og ég hefði aldrei lesið þessar upplýsandi útskýringar. Næstu daga valdi ég einn og einn broskarl af færslulistanum á facebook og fléttaði aftan við örstutt skilaboð til dóttur minnar. Ég gerði mér einnig far um það þegar yngri dóttirin var innan seilingar að lesa upphátt eins og af tilviljun ein og ein skilaboð sem ég var að senda til eldri dótturinnar eða annarra ættingja og vina og bætti gjarnan við upplýsingum eins og ,,hmm, ég er að senda systur minni skilaboð, kannski ég sendi henni huggulegan kirsjuberjabroskarl, hún er svo hrifin af kirsuberjum” og á meðan fylgdist ég laumulega með svipbrigðum ungmeyjarinnar. Þessi aðferð virkaði mjög vel, eftir örfáar tilraunir var dótturinni nóg boðið og hún spurði mig hvort ég vissi hvað tilteknir broskarlar þýddu. Á svona stundum væri ég til í að vera sprenglærður leikari eða geta haldið andlitinu í örskamma stund en því miður var ég greinilega aftast í röðinni þegar leikhæfileikunum var úthlutað. Eftir að hafa þurrkað upp kaffifrussið af nærstöddu postulíni og húsgögnum gat ég stunið upp í gegnum hláturstárin að ég hefði ákveðnar grunsemdir um það að við hefðum kannski ekki sömu hugmyndir um merkingu broskarla. Dóttir mín játaði þá að broskarlasendingar mínar til hennar hefðu verið henni og vinahópnum stöðug og hyldjúp uppspretta afþreyingar og hláturskasta og hún hefði að sjálfsögðu fullvissað vini sína um að ég hefði ekki hugmynd um innihaldið. Mig grunar að henni finnist óþægilegt að uppgötva að ég hafi viljandi sent henni tvíræða broskarla í skilaboðum. Hversu lengi á maður að geyma börn í bómull?
Ætli sé til þýðingarforrit fyrir mæður sem þýðir merkingu broskarla yfir á íslensku?
Guðríður Helgadóttir, broskarlafræðingur