Í dymbilvikunni mættu fyrstu tjaldarnir í túnið á Garðyrkjuskólanum á Reykjum þannig að vorið er formlega komið, utanhúss. Í gróðurhúsum garðyrkjumanna um land allt er vorið löngu mætt á svæðið, segja má að fyrstu vorverkin þar fari fram í janúar með fyrstu sumarblómasáningunni. Sama undirbúningstíma til að hún skarti sínu fegursta í sumar. Þessa dagana er kominn tími á að undirbúa matjurtaræktunina og þykist ég viss um að það séu fleiri en ég sem fyllast ógurlegum valkvíða þegar þeir standa fyrir framan frærekkana í garðyrkjuverslunum, úrvalið er svo fjölbreytt. Maður ætti því aldrei að fara inn í svona verslun nema vera búinn að gera sér að minnsta kosti nokkuð grófa hugmynd um það hvaða tegundir maður ætlar að rækta í sumar. Einnig má hafa í huga að það kemur sumar eftir þetta sumar þannig að þó maður komist kannski ekki yfir allar tegundirnar þetta sumarið má bara horfa til þess næsta og gera frekari tilraunir þá.
Vorið er tími upphafs, þegar gróðurinn vaknar úr vetrardvalanum og nýir vaxtarsprotar skjóta upp kollinum. Ég var einmitt að rifja það upp hvenær garðyrkjuáhugi minn kviknaði. Mín fyrstu skref í garðyrkju voru stigin hjá ömmu minni, Guðríði Vigfúsdóttur í Mundakoti á Eyrarbakka. Amma ræktaði kartöflur og gulrætur og hafði af því ágætis aukatekjur að selja gulræturnar. Þær voru sérlega ljúffengar og ákaflega fallegar enda þrífast rótarávextir mjög vel í sendnum jarðveginum við suðurströndina. Ég var ekki há í loftinu þegar ég fékk að taka þátt í að setja niður kartöflur að vori og taka þátt í uppskerustörfum að hausti. Allar hendur voru vel þegnar við þessi garðyrkjustörf og sannkölluð vertíðarstemning þegar stórfjölskyldan hjálpaðist að við uppskeruna.
Fyrir framan íbúðarhúsið ræktaði amma sumarblóm í fallegu beði meðfram hellulagðri stétt. Í beðinu voru fiðrildablóm (sem voru nú alltaf kallaðar nemesíur), morgunfrúr, stjúpur, kornblóm, anemónur og fleiri vindþolnar og harðgerðar sumarblómategundir. Amma forræktaði anemónurnar sjálf og mér fannst það mjög undarlegt verkefni þegar ég fékk að aðstoða við það. Krumpuð hnýðin voru sett í vatn í 2-3 daga áður en þeim var raðað í litla potta og mér fannst ótrúlegt að þessi daunillu spörð yrðu einhvern tíma að fallegum blómum en það gerðist nú samt. Eitt af verkefnum mínum og frændsystkina minna var að sjá um að vökva sumarblómin í beðinu fyrir framan húsið og var það verkefni sem unnið var af mikilli samviskusemi. Skáhallt á móti Mundakoti er kirkjugarðurinn á Eyrarbakka og þar þurfti einnig að vökva sumarblóm á leiðum látinna ættingja. Í minningunni var alltaf sól og hiti og á slíkum dögum þurfti að fara daglega að vökva í kirkjugarðinum. Þannig fylgdumst við krakkarnir með gróðrinum vaxa og dafna og þarna kviknaði fyrst áhugi minn á ræktun.
Börn þurfa að fá að taka þátt í margvíslegum verkefnum til að búa þau undir framtíðina. Þau vilja fá að taka þátt í verkefnum sem skipta máli og að þátttaka sé þeirra metin að verðleikum. Ég hef unnið að ýmiss konar ræktunarverkefnum með börnum í gegnum tíðina og hef tekið eftir að því að flestum þeirra finnst mjög gaman að spreyta sig á garðyrkju. Það að sá fræjum og fylgjast með spíruninni er töfrum líkast, kraftaverk þegar plönturnar stækka og teygja sig í áttina að ljósinu og galdrar þegar fyrstu blómin birtast. Allt þetta ævintýri er þó háð umhyggjusemi barnanna sem sjá um plönturnar, passa að vökva þær reglulega og tryggja að þær njóti birtu og yls á ræktunartímanum. Margir búa að þeirri reynslu að hafa tekið þátt í skólagörðum á æskuárum og eiga sveitarfélög þakkir skildar fyrir þau verkefni, annars vegar læra börn til verka og hins vegar njóta þau afrakstur erfiðis síns þegar að uppskerunni kemur og þau fara stolt heim með margvíslegt grænmeti í poka, grænmeti sem þau ræktuðu sjálf, grænmeti sem mun smakkast betur en nokkuð annað grænmeti í heiminum, heimaræktað smakkast alltaf best.
Ömmur og afar, mömmur og pabbar. Þar sem næsta sumar verður örugglega sólríkt og hlýtt er allt útlit fyrir góða grænmetisuppskeru næsta haust. Nú er tíminn til að koma börnum og barnabörnum á ræktunarbragðið. Leyfið krökkunum að taka þátt í garðverkunum og kennið þeim að nota verkfærin þannig að þau kunni til verka. Leyfið þeim að sá fræjum af girnilegum plöntum, planta þeim í garðinn eða í pott á svalirnar og hugsa um þær í sumar. Ég þekki ekki það barn sem ekki finnst gaman að vökva plöntur (reyndar hafa þau líka mjög gaman af því að vökva hvert annað í leiðinni…) og það er ekki síður spennandi að sjá þær stækka. Leyfið þeim að taka upp sitt eigin grænmeti þegar líður á sumarið og taka þátt í matseldinni, það er að mínu mati ein markvissasta aðferðin í að fá krakka til að borða grænmeti og stuðlar að hollu mataræði þeirra til framtíðar. Síðast en ekki síst, leyfið þeim að vera með ykkur í verkunum. Það flýtir örugglega ekki fyrir því að verkin klárist en það skapar minningar, hlýjar minningar um sumar og sól og kannski kveikir það ræktunaráhuga hjá garðyrkjufræðingum framtíðarinnar.
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur