Gleðilegt ár kæru lesendur og takk fyrir samfylgdina á árinu sem leið. Nýja árið heilsar okkur með miklu magni af fersku lofti, síbreytilegu hitastigi og úrkomu í samræmi við hitastig. Fjölbreytnin virðist vera við völd hjá þeim sem stýra veðrinu og er það sennilega til marks um að árið 2016 verði fullt af nýjum áskorunum og nýjum afrekum. Þá eru áramót tilvalinn tími til að staldra við og líta yfir farinn veg og velta fyrir sér hvaða afrek maður vann á gamla árinu.
Eitt af því sem ég afrekaði svona rétt undir blálok ársins var að skella mér á skauta á Rauðavatn með dætrum mínum. Á mínum yngri árum (sem mér finnst reyndar enn að ég sé stödd á..) fór ég mikið á skauta en skíðaíþróttin hefur aldrei heillað mig. Fyrstu skautaæfingarnar voru stundaðar í götunni heima í Kópavogi en þar var það til siðs hjá krakkahópnum að nota götuna sjálfa til skautaæfinga. Þegar snjóaði á veturna þjappaðist snjórinn niður við bílaumferðina í götunni. Þar sem þetta var botnlangagata var umferðin sosum aldrei mikil og gatan var ekki söltuð eins og tíðkast í dag þannig að smám saman varð gatan að ómótstæðilegum svellbunka. Ekki spillti fyrir að gatan lá í hlykkjum niður nokkuð myndarlega brekku þannig að þarna var hægt að samræma skautahlaup og stórsvig, jafnvel brun, allt í sömu ferðinni niður götuna. Það var dásamlegt tilfinning að bruna á skautunum niður brekkuna, vanda sig við að ná beygjunni neðst í brekkunni og hægja svo hægt og rólega á sér áður en komið var að gatnamótum, finna vindinn leika um andlit og hár því þetta var að sjálfsögðu fyrir daga hjálmvæðingar barna. Það er ekki þar með sagt að við krakkarnir höfum ekki verið meðvituð um helstu öryggisatriði, alltaf var eins og einn krakki á verði fyrir neðan brekkuna og gat þá gargað ,,BÍÍÍLLL“ af öllum lífs og sálar kröftum, ef slík farartæki gerðu sig líkleg til að trufla skautabrunið. Þá gátu skautahlaupararnir sveigt af leið og forðað sér. Það eru komin nokkuð mörg ár síðan ég sá hjálmlaus börn á skautum á umferðargötu síðast, eitthvað segir mér að þessi siður sé nú aflagður.
Eftir að hafa stundað skautabrun í snarbröttum brekkum Kópavogs fannst mér ekki mikil áskorun að renna mér á skautum eftir tjörnunum fyrir ofan Eyrarbakka en föðurfjölskylda mín er þaðan. Á veturna mynduðust þar töluverðar tjarnir og þegar þær frusu var hægt að skauta meðfram endilöngum Eyrarbakkanum fram og aftur. Í minningunni eru þessi svell alltaf spegilslétt, sólin lágt á lofti og stráin meðfram tjörnunum hrímuð af frosti.
Eftir að gatnamáladeild Kópavogs komst að því að hægt var að nota salt til að halda götum greiðfærum (það þarf að rifja þetta nokkuð reglulega upp í Kópavoginum…) fauk í flest skautaskjól í bæjarfélaginu. Þá þurfti að leita annað til að komast á skauta og var ég svo heppin að ná að skauta á Melavellinum, síðasta veturinn sem hann var útbúinn sem skautasvell. Þar var frábær stemning og mjög lærdómsríkt að fylgjast með reykvísku skautafólki sem hafði greinilega lagt allan kraft sinn í að æfa sig á jafnsléttu á svelli en ekki í skautabruni niður umferðargötur. Börn og fullorðnir liðu um svellið í þokkafullum skautadansi og eftir að hafa stundað Melavöllinn heilan vetur hafði mér einnig fleygt fram, ég gat skautað í hringi, aftur á bak og á öðrum fæti, gert flugvél, skrensað á þokkafullan hátt og leikið ýmsar fleiri kúnstir. Á menntaskólaárunum var Reykjavíkurtjörn aðalsvellið, skautarnir voru ósjaldan teknir með í skólann og svo dreif maður sig í smá skautasnúning á meðan beðið var eftir Kópavogsstrætó. Svellið á Reykjavíkurtjörn var hreinsað af snjó og skafið af og til þannig að þar var aðstaða til skautaiðkunar til fyrirmyndar. Margir af þeim sem áður höfðu stundað Melavöllinn fundu sér nú nýjan samastað og skautuðu af hjartans lyst, svifu tignarlega um svellið og nutu fegurðarinnar, allt þar til krókloppnar tær og ískaldir fingur neyddu skautafólkið af svellinu.
Skautaiðkun dætra minna hefur að mestu verið inni í skautahöllum þar sem greitt er fyrir aðgang. Þær hafa jafnframt notað viðeigandi öryggisbúnað eins og hjálm og hnjáhlífar auk skautagrindar fyrir byrjendur. Þær urðu því nokkuð hissa fyrst þegar ég talaði um það að við færum saman að skauta á vatni eða tjörn og ein þeirra sagði við mig: ,,Mamma, er þá hægt að fara á skauta alveg ókeypis?“
Nú er þá komið að upphaflegu umfjöllunarefni þessarar greinar, skautaferð okkar mæðgna á Rauðavatn. Ég var svo heppin síðastliðið sumar að finna gömlu svörtu skautana mína sem höfðu fært mér óteljandi gleðistundir á Melavellinum og Reykjavíkurtjörn. Við mæðgurnar höfðum séð fólk á skautum á Rauðavatni og vorum því nokkuð vissar um að svellið væri almennilega traust. Við settum skautana í bílinn og brunuðum af stað. Við Morgunblaðshöllina í Hádegismóum hittum við kunningja okkar sem ráðlagði okkur að aka ekki alveg niður að vatninu því vegurinn væri glerháll og bílar í vandræðum með að komast í burtu. Við fylgdum þessum ráðleggingum og lögðum af stað niður veginn. Hálkan á veginum hafði á engan hátt verið ýkt af kunningja okkar enda tókst mér að renna á hausinn í tvígang áður en við komumst að vatninu. Mér varð hugsað til skautabrunsins í brekkunni forðum, kannski hefði ég bara átt að reima skautana á mig efst í brekkunni. Við komumst þó heilar á húfi niður að vatninu þar sem við settumst í skafl og reimuðum á okkur skautana. Ég viðurkenni fúslega að ég var með nokkurn fiðring í maganum því ég hafði ekki stigið á skauta í nokkuð mörg ár. Þó var ég fullviss um að skautahlaup væru eins og hjólreiðar, ef maður hefur einu sinni lært að hjóla þá kann maður það bara alltaf. Dætur mínar renndu sér út á svellið ein á fætur annarri og ég hvatti þær dyggilega áfram. Svo kom röðin að mér. Mér tókst að komast á fætur og svo tiplaði ég á oddhvössum tám skautanna út á svellið. Ofurvarlega fór ég svo að renna mér á svellinu sem var nokkuð hrjúft og óslétt og örþunn vatnsfilma yfir því þannig að það var mjög hált. Þá komst ég að því að skautahlaup og hjólreiðar eiga hreinlega ekkert sameiginlegt. Skautarnir mínir, þessir gömlu góðu skautar sem höfðu glatt mig áður, voru mjög ósamvinnuþýðir og létu alls ekki að stjórn. Annar skreið til hægri, hinn til vinstri og skautadrottningin úr Kópavoginum, sem hafði brunað niður umferðargötur og svifið um á reykvískum svellum, flaug á hausinn. Fallið var að vísu frekar þokkafullt og án sýnilegra meiðsla en andlegu sárin eru enn að gróa. Mér sýnist að lærdómurinn af þessari skautaferð sé einkum sá að til að viðhalda færni á skautum sé nauðsynlegt að stunda skautahlaup nokkuð reglulega, það er ekki nóg að ímynda sér æfingarnar. Kannski ég ætti líka að láta skerpa gömlu skautana, ætli þeir hafi ekki bara verið orðnir lélegir??
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur
Skautadrottningar framtíðarinnar á ísilögðu Rauðavatni