Samkvæmt Fjármálatíðindum, ágúst-desember 1962, nam innflutningur sykurs til Íslands rúmlega 10 þúsund tonnum árið 1961. Svo til allt þetta magn fer til neyzlu í landinu, og koma þá tæp 57 kg á hvert mannsbarn að meðaltali á ári, rúmlega 1 kg á viku eða um 150 grömm á dag. Er þar vitanlega meðtalinn allur sá sykur, sem fer í sælgætis- og kökugerð hér á landi. En sykur í innfluttum vörum eins og aldinmauki, niðursoðnum ávöxtum, kexi o.fl. er ekki reiknaður með í þessum tölum. Árin 1959 og 1960 var innflutningurinn um 9 þús. tonn. Hafa Íslendingar nú um árabil átt heimsmet í sykurneyzlu.
Þessi sömu ár nam innflutningur kornvöru, sem að mestu hefir farið til manneldis, að meðaltali 18 þús. tonnum á ári. Samkvæmt öðrum heimildum er um helmingur kornvörunnar hvítt hveiti, hvít hrísgrjón og hrísmjöl, og nemur hin hvíta kornvara þannig um 50 kg á hvert mannsbarn á ári eða um 130 g á dag.
Flestir halda, að sykur og hveiti séu aðeins óverulegur þáttur í daglegu viðurværi manna. En hvað segja þessar tölur?
Í 150 g af sykri eru 600 hitaeiningar, og 130 g mjöls gefa 500 hitaeiningar, eða samtals 1100 hitaeiningar. Í daglegu fæði hvers manns eru um 2500 hitaeiningar, ef tekið er meðaltal allrar þjóðarinnar. Sykur og hvít mjölvara eru þannig um 44% af allri fæðutekju þjóðarinnar eða ekki langt frá helmingi, en sykurinn einn 24% eða nærfellt fjórðungur.
Verksmiðjusykur er öllum matvælum einhæfari, gjörsneyddur fjörefnum, steinefnum og yfirleitt öllum næringarefnum öðrum en sykri. Hvítt hveiti og önnur sambærileg kornvara inniheldur efnasnauðasta hluta kornsins, svo til einvörðungu kolvetni, en mjög lítið af fjörefnum og steinefnum. Að vísu er í innflutt hvítt hveiti bætt fáeinum tegundum fjörefna og steinefna, en þessi tilbúnu efni jafngilda hvergi nærri hinum náttúrlegu efnum, sem hveitið er svipt með því að skilja hýði og kím frá, og þar fara auk þess forgörðum mörg önnur næringarverðmæti, sem engin tilraun er gerð til að bæta upp.
Úr því sykur og hvít kornvara eru eins mikill hluti viðurværis landsmanna að meðaltali og að ofan er sýnt, liggur í augum uppi, að hjá mörgum er neyzla þessara fæðutegunda meiri, vafalaust mikið yfir helmingur allrar fæðutekju. Þetta kann að þykja fjarstæða. En þetta er augljóst, sé vel að gáð. Fjöldi manns drekkur kaffi þrisvar, fjórum eða fimm sinnum á dag, í hvert sinn með sykri, sætabrauði úr hvítu hveiti eða ósætu brauði, sem oftast er einnig úr hvítu hveiti, og borðar auk þess sælgæti í ýmsum myndum. Þetta eru aðal-”máltíðir” dagsins, því að á matmálstímum er matarlystin ekki á marga fiska, og þá er borðaður kjöt- eða fiskbiti, ein eða tvær litlar kartöflur, ef til vill dálítið af brauði (franskbrauði), mjólk og einhver súpa. Viðurværi líkt þessu er hreint ekki eins sjaldgæft og margir kunna að ætla. Og enda þótt neyzla grænmetis hafi aukizt á síðustu árum, kemur slíkur matur sjaldan eða aldrei inn fyrir varir fjölda manna, eða þá í svo litlu magni, að engu munar.
Ástæðan til þess, að ekki ber meira á sjúkdómum eins og skyrbjúgi og beriberi en raun ber vitni, er annarsvegar sú, að flestir borða nægilega mikið af kartöflum og mjólk til að firra sig áberandi einkennum þessara sjúkdóma, og auk þess gleypa landsmenn í sig tilbúin fjörefni tonnum saman og geta þannig varið sig að nokkru gegn þeim.
En hitt er svo víst, að þótt menn væru allir af vilja gerðir, getur enginn bætt sér upp til fulls þann efnaskort, sem leiðir af óhóflegri neyzlu einhæfra fæðutegunda, hvorki með tilbúnum fjörefnum eða steinefnum, né heldur með neyzlu grænmetis eða aldina, og það af þeirri einföldu ástæðu, að matarlystin mundi ekki leyfa fullnægjandi viðbót slíkra matvæla ofan á allt sætindaátið.
Að lokum skal á það bent, að engan, sem athugar ofangreindar tölur, þarf að undra, hve mikið er um tannátu hér á landi, en líkur benda til, að þar eigi Íslendingar einnig heimsmet, eins og í sykuráti.
BLJ.
Björn L. Jónsson
Heilsuvernd 3. tbl. 1963, bls. 73-74