Það er um lítið annað rætt í heiminum í dag en COVID-19 veiruna sem er að leggja allan heiminn undir sig
Til þess að vernda þá viðkvæmustu og heilbrigðiskerfið eru allir landsmenn búnir að læra ýmislegt í sóttvörnum. Þriggja ára dóttir mín er t.d. orðin sérfræðingur í því að þvo sér um hendur, og þvær hún sér nú einstaklega vel með sápu, eins og að hún sé skurðlæknir á leið í aðgerð.
Spritt og einnota hanskar seljast sem aldrei fyrr, annar hver maður er komin í sóttkví, 2 metra bil er milli manna og samkomubann er skollið á. Þeir sem geta unnið að heiman gera það, leikskólar og skólar eru með takmarkaða starfssemi og mörg börn eru heima hjá foreldrum sínum í þessari „heimavinnu” þeirra.
Þetta eru skrítnir tímar og við erum ekki vön svona miklum hamlandi aðgerðum frá stjórnvöldum og skerðingu á okkar frelsi. Allur heimurinn stendur í þessu og þetta er sem betur fer bara tímabundið og aðgerðir hér á landi eru mun betri og fagmannlegri en í mörgum öðrum löndum. Við megum þakka fyrir það að búa ekki í löndum þar sem æðstu menn gera lítið úr veirunni og líkja henni jafnvel við árlega flensufaraldra.
Það eru rétt rúmlega 100 ár síðan við Íslendingar börðumst við svipaða veiru og COVID-19 en það var spænska veikin sem var mjög skæður inflúensufaraldur sem gekk yfir heiminn árin 1918-19, rétt eftir fyrri heimsstyrjöldina.
Spænska veikin er mannskæðasta farsótt sögunnar og létust um 25 milljónir manna úr henni.
Inflúensan var kennd við Spán því átta milljónir Spánverja sýktust í maí 2018 en Spánverjar sjálfir kölluðu veikina „frönsku flensuna”. Yfirvöld styrjaldarríkjanna ritskoðuðu fjölmiðla og það var þægilegra að tala um „spænsku veikina” en þá skæðu inflúensu sem herjaði á landsmenn þeirra.
Það var ekki til neitt bóluefni við spænsku veirunni eins og COVID-19 og fyrir 100 árum var heldur ekki búið að finna upp sýklalyf til að berjast gegn lungnabólgunni sem er algengur fylgikvilli inflúensunnar. Því jafngildi það næstum dauðadómi að fá lungnabólgu á tímum spænsku veikinnar. Þetta gerði mannfallið mun meira.
Á tímum spænsku veikinnar er talið að allt að tveir þriðju Reykvíkinga hafi sýkst. Til að gera illt verra var mikill húsnæðisskortur í Reykjavík og kuldakast gekk yfir. Sóttkví þessa tíma var að skipta borginni í þrettán hverfi og gekk hjúkrunarfólk hús úr húsi og hugaði að sýktum. Læknar unnu streitulaust allan sólarhringinn og læknanemar fengu m.a. bráðabirgðaskírteini til að sinna smituðum.
Eins og nú þá lamaðist allt athafnalíf í Reykjavík, verslanir lokuðu, blaðaútgáfa hætti, messufall varð og mjög erfitt var að anna líkflutningum.
Alls létust 484 Íslendingar úr spænsku veikinni og lék hún Reykvikinga verst en með ströngum sóttvörnum og eingrun manna tókst að forða Norður- og Austurlandi frá smiti. Í þessum sóttvörum spilaði Jónas Kristjánsson læknir og stofnandi NLFÍ mikið hlutverk. Jónas var héraðslæknir á Sauðárkróki á þessum tíma og eitt mesta afrek hans sem hérðaslæknir var að koma samgöngubanni yfir Holtvörðuheiði þegar spænska veikin geisaði.
Í Sögu Sauðárkróks (síðara bindi, 1. hluta) segir „…Jónas fékk í lið með sér Steingrím Matthíasson lækni á Akureyri, Ólaf Gunnarsson á Hvammstanga og fleiri lækna á Norðurlandi til þess að friða Norðurland fyrir spönsku veikinni, eiginlega gegn fyrirmælum landlæknis, sem búinn var að gefa upp alla von um vörn vegna hins eftirminnilega hraða, sem hún greip um sig með … á Suðurlandi og þeirrar lamandi skelfingar, sem hún leiddi yfir Reykjavík og aðra staði þar sem hún geisaði.“
Þrátt fyrir svartsýni landlæknis barðist Jónas hart fyrir því að loka Norðurlandi og varð honum „…snemma ljóst, til hverra ógna það myndi draga, ef pestin næði tökum á mörgum heimilum út um dreifðar byggðir sveitanna, þar sem hver maður og kona eru hlaðin nauðsynjastörfum, sem verða að leysast hvert á sínum tíma hvers dags … Hann setti upp margfaldar varnarlínur til þess, ef sú fremsta bilaði þá skyldi vágesturinn stöðvast við þá næstu. Vörður var settur norðan og sunnan Holtavörðuheiðar, austan og vestan Stóravatnsskarðs, austan og vestan Litlavatnsskarðs, austan og vestan Kolugafjalls, austan og vestan Öxnadalsheiðar og austan og vestan Heljardalsheiðar.“
Með þessari elju og aðgerðum Jónasar Kristjánssonar var fjölda mannslífa bjargað bæði austanlands og norðan.
Við höfum engan Jónas Kristjánsson uppi núna árið 2020 en við höfum þríeykið Víði, Þórólf og Ölmu sem standa sig eins og hetjur í að halda þessum faraldri í skefjum og miðla upplýsingum til okkar almennings með daglegum blaðamannafundum. Þó er gaman að minnast á það í þessum orðum var að birtast frétt á mbl.is þar sem læknar á NA-landi hafa óskað eftir því við sóttvarnarlækni að lokað verði fyrir svæðið þar sem Kópasker, Raufarhöfn og Þórshöfn eru til að hefta útbreiðslu COVID-19 veirunnar þar, þar sem engin smit hafa greinst. Þó telur sóttvarnarlæknir að þessar lokanir muni ekki skila árangri núna.
Læknavísindum hefur fleytt fram síðan að spænska veikin herjaði á okkur en það sem gerir okkur nútímamanninum erfitt fyrir í baráttu við skæða heimfaraldra er þessi mikli samgangur allra jarðarbúa. Eins og við sjáum nú bara á COVID-19 veirunni að hún er búin að breiðast frá Wuhan héraði í Kína til nær allra heimshorna á stuttum tíma. Má í þessu samhengi nefna að meðaltali taka meira en 100.000 flugvélar af stað í heiminum á hverjum degi.
Það besta sem við einstaklingar getum gert til að verjast covid-19 er að þvo hendur vel, virða tveggja metra bil milli manna, forðast margmenni, halda sig heima og virða sóttkví. Sjá nánari leiðbeiningar á covid.is
Heimildir:
https://www.visindavefur.is/svar.php?id=4775#
https://www.ruv.is/tag/spaenska-veikin
https://www.greenclaim.com/news/2019/07/30/july-25-2019-aviations-busiest-day-in-history
https://www.heilsustofnun.is/jonas-kristjansson
https://www.feykir.is/is/frettir/thegar-nordurlandi-var-lokad
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/03/25/laeknar_vilja_loka/
https://www.mbl.is/greinasafn/grein/559801/
https://www.laeknabladid.is/2008/11/nr/3336