Þegar vér spyrjum vísindin að því, hvort vér eigum að borða soðna fæðu eða ósoðna, spyrjum vér raunverulega að því, hvort vér eigum að borða lifandi eða dauða fæðu til þess að varðveita líf og heilsu.
Dr. Kirstine Nolfi hefir bent oss á, svo skýrt og skilmerkilega sem verða má, að þegar vér borðum lifandi fæðu, þá getum vér ekki aðeins losnað við það að verða veikir. Vér getum jafnvel læknað sjúkdóma þá, er vér höfum álpazt til að baka oss, rétt eins og skynlaus skepna, sem álpast út í fenið, situr þar föst og deyr úr kulda og hungri.
Þegar vér eldhitum fæðu vora upp í 100 stig eða meira, eins og með því að sjóða matinn í hraðsuðupotti, þá sviptum vér hana því geislamagni, sem glæðir eld lífsins, og þar með bjóðum vér sjúkdómum heim, ölum þá og ræktum, og biðjum svo guð og góða menn að varðveita oss frá sjúkdómum. Mikill dauðans vesalingur er nú mannskepnan. Hún kallar sig samt homo sapiens, hinn vitra mann. Vissulega verðskuldar hún ekki þetta veglega heiti, þar sem hún hefir ekki vit á því að forðast þær hættur, sem baka mönnum sjúkdóma og dauða.
Vísindalegar rannsóknir hafa sýnt og sannað, að sjúkdómar koma af orsökum, sem unnt er að forðast. En í stað þess að hlíta þeim ráðum og ganga þá braut, sem vísindin sýna að leiða til heilbrigði, álpumst vér út í fenið og verðum þar sjálfdauð, ef svo má segja.
Ég er sannfærður um, að hægt er að komast hjá orsökum flestra sjúkdóma með réttum lifnaðarháttum. Þetta er það mikilsverðasta, sem ég hefi haft upp úr því að verja hverjum eyri, svo að segja, er ég hefi innunnið mér í fullan hálfan sjötta tug ára, og svo að segja hverri hugsun, í leit að leið út úr ógöngum vaxandi kvillasemi þjóðarinnar, og mestöllu starfi mínu síðan ég tel mig hafa orðið vitandi vits. Ég hefi bakað mér óvild margra manna fyrir það að halda fram þessari sannfæringu minni. En á þá andstöðu lít ég sem andlega nærsýni.
Náttúrulæknirinn Hippókrates, sem lifði fyrir fullum 2300 árum, gaf þessi ráð í læknisfræði sinni: Fæðan (þ.e. lifandi fæða) skal vera ykkar lyf, og ykkar lyf skal vera (lifandi) fæða.
Höfum vér farið eftir þessum ráðum? Það er nú síður en svo. Vér höfum farið þveröfuga leið og bakað oss sjúkdóma. Vér étum og drekkum fæðu, sem gerir oss sjúka, og tökum inn eiturlyf, sem valda oss vanheilsu og dauða. Hinn hvíti, menntaði maður (homo sapiens) er nú hvorki vitrari né heimskari en þetta.
Menn skilja ekki hinn rétta feril sjúkdómanna. Hann er sá, að vér framleiðum flestalla sjúkdóma með neyzlu dauðrar og ónáttúrlegrar fæðu og fleiri heimskulegum lífsvenjum og tiltækjum. Sannleikurinn er sá, að líkami manna og heilbrigði eru háð ákveðnu lífslögmáli, sem vér verðum að hlíta eða taka við afleiðingunum ella á vort eigið bak. Og þær eru hrörnunarsjúkdómarnir í heild, sem enda oft með krabbameini. Það kemur fram á einum stað fyrst, en er sjúkdómur í öllum líkamanum og verður aldrei læknað með eiturlyfjum né deyðandi geislum, heldur með lífgeislum sólarljóssins, sem falla á líkama manna, jafnframt því sem þeir lífga bæði láð og lög, og þaðan meðtaka jurtirnar þá og gefa þá til heilsuræktar og heilsubóta mönnum og dýrum. Þannig er maðurinn upp úr moldu kominn. En andinn, sem byggir sér musteri úr jurtaleir, hverfur aftur til sinna heimkynna.
Stofnað hefir verið félag til að berjast gegn krabbameininu. Það hefir safnað fé til kaupa á röntgentækjum til þess að lækna þennan sjúkdóm. Hvað eru röntgentæki? Þau framleiða með hávísindalegum hætti drápsgeisla, sem geta drepið krabbameinsfrumurnar. En um leið veikla þeir allar heilbrigðar frumur, sem þeir skína á.
Í biblíunni segir guð við hina fákænu manneskju: Sjá, ég gef ykkur allskonar sáðberandi jurtir á allri jörðinni og allskonar tré, er bera ávöxt með sæði í. Það skal vera ykkur til fæðu.
En hverjir eru þá hinir bönnuðu ávextir? Vér gætum sagt, að það sé dauð og deydd fæða. Ég sá um daginn tvær auglýsingar. Á annarri stóð: Drekkið sjóðandi kaffi. Í hinni stóð: Drekkið ískalt kóka-kóla. Hvorttveggja er vænlegast til að eyðileggja heilsu manna. Svona er mannskepnan vitur, eða hitt þó heldur.
Þar sem nú rétt valin fæða getur ein bjargað og viðhaldið lífi voru og verið oss lyf, þá ætti val hennar að vera það ábyrgðarstarf, að læknum einum væri trúað fyrir því, þar sem ekkert er góðri heilsu æðra né dýrmætara fyrir hvern einstakling og hverja þjóð. En sjálfir hafa læknarnir löngum talið þetta óvísindalegt starf. Þeir eru önnum kafnir við að lagfæra það, sem sýnilega er bilað í líkama vorum, smíða nýjar tennur, þegar vér höfum eyðilagt þær með röngum lífsvenjum, skera kokeitla úr hálsi, skera krabbamein og sár úr maga, gefa deyfilyf o.s.frv. Og oft eru unnin óbótaverk á heilsu manna með eitri og allskonar lyfjagjöf, sem er kallað vísindi. Í stað þess að hin sönnu vísindi eru það að útrýma orsökum sjúkdómanna.
Kaupmönnum er trúað fyrir innkaupum á erlendri og innlendri matvöru, sem ætti að vera trúnaðarverk læknanna. Einkunnarorð kaupmannsins er: Keyptu ódýra vöru, og seldu hana með góðum arði. Afleiðingin er kaup á svikinni og óhollri fæðu, eitruðu, hvítu mjöli og hvítum sykri, hýðislausum grjónum, gömlu, oft áragömlu, sviknu mjöli, sem dæmi eru til að blandað hefir verið leir eða trjáberki. Með neyzlu þessarar óhollu og dauðu fæðu eru skapaðir óviðráðanlegir hrörnunarsjúkdómar, sem kosta flesta menn heilsu og líf.
Fyrir nokkrum árum var svissneska lækninum Bircher-Benner, einum vitrasta og lærðasta lækni heimsins, boðið til London til þess að halda þar fyrirlestra fyrir lærðum mönnum. En þessum lækni hafði þá um áratuga skeið tekizt að lækna sjúkdóma, sem annars voru taldir ólæknandi og hin þaulreynda læknislist kunni engin ráð við. Hinn ágæti vísindamaður, Sir Robert McCarrison, kynnti fyrirlesarann með þessum orðum:
„Vér lifum á tímum mikilla vísindalegra framfara á öllum sviðum læknavísindanna, og samt sem áður fjölgar sjúkum mönnum stöðugt, og nýir sjúkdómar bætast við í hópinn. Sjúkrahúsum er fjölgað og fundin ný lyf. Og menn spyrja sjálfa sig, hvort engin ráð séu til þess að losna úr þessu sjúkdómakviksyndi. Gestur vor, læknirinn Bircher-Benner, ætlar að sýna oss þessa leið. Hann er einn hinna örfáu lækna, sem hafa lagt heiminn undir sig með lærdómi sínum.“
Nú vitum vér, að McCarrison hafði með tilraunum sínum á mataræði og þýðingu þess fyrir heilsu dýra og manna sýnt fram á, að sjúkdómar eru óþarfir, að unnt er að koma í veg fyrir þá og að til eru mannflokkar, sem eru með öllu lausir við þá (sbr. 9. rit NLFÍ, Mataræði og heilsufar).
Ég lít svo á, að lífið sé þroskaskeið, skóli, þar sem vér eigum að stunda nám. Dæmisagan um talenturnar hjá Mattheusi, 25. kap., 14-50, er einmitt meistaraleg samlíking á mannlífinu. Sálin er svo sem að láni samtengd við líkamann.
Fullkomin, náttúrleg, lifandi fæða verður ekki bætt með neinni efnafræðilegri þekkingu. Breyting sú, sem gerð hefir verið með því að svipta hveitikornið hýði sínu og lífefnum, og sykurreyrinn eða sykurrófuna öllum grófefnum, er óbótaverk meira en drepsóttir eða jafnvel styrjaldir. Með eldhitun fæðunnar er einnig unnið skemmdarstarf, sem ekki á sinn líka. Við alla eldhitun eða suðu skemmast eða eyðileggjast fjörefnin og önnur lífefni fæðunnar, fyrst A- og C-fjörefnin. B-fjörefnin eru þolnari, en eyðast þó. Við suðu í vatni hverfa einnig steinefnin út í soðið, fyrst og fremst fosfór, joð og brennisteinssambönd, og síðan fleiri. Suðan veldur einnig að öðru leyti hættulegri röskun á efnasamsetningu fæðunnar. Þannig verður breyting á sameindabyggingu eggjahvítuefnanna, svo að þau henta verr en ella sem byggingarefni fyrir líkamann.
Við suðu verða einnig viðsjálar eða óbætanlegar breytingar á öllum grófefnum, sem náttúrleg fæða inniheldur í ríkum mæli. En grófefnin örva tæmingu þarmanna. Suðan opnar þannig leiðina fyrir tregar hægðir og rotnun fæðuleifanna í þörmum. Af þessu skapast sjúklegt ástand, sem kallað er sjálfseitrun (autointoxication) og er fólgin í því, að rotnunarefnin úr þörmunum fara inn í blóðið og eitra það og um leið allan líkamann. Raunverulega verða menn aldrei veikir af öðru en því, að blóðið verður óhreint og flytur hverri frumu eiturmengaða næringu. Það er líkt og ef heilli þjóð væri byrluð ólyfjan. Frumurnar eru þegnarnir, líkaminn þjóðarheildin.
Þessi grein birtist í 1. tbl. Heilsuverndar 1952.