Kaffi er einn vinsælasti drykkur í heimi og líklega mest notaða örvandi efni í heimi. Það verður alltaf að eiga kaffi þegar gesti ber að garði og teljast þeir fullorðnu einstaklingar frekar „sérlundaðir“ sem drekka ekki kaffi og hafa aldrei gert.
Kaffidrykkurinn á sér nokkuð langa sögu og talið er að kaffineysla sé upprunin á hásléttum Afríku á níundu öld, þar sem í dag er Eþíópía. Frá Eþíópíu barst kaffið svo til Yemen þar sem fyrstu skriflegu heimildirnar um kaffineyslu eru frá 15.öld. Í upphafi var kaffidrykkjan bönnuð en það bann féll fljótt niður því kaffið varð hluti trúarathafna í hinum íslamska heimi, kaffið var mikið notað til þess að menn gætu haldið sér vakandi við langt bænahald.
Frá Mið-Austurlöndum barst svo kaffið til Ítalíu árið 1600. Prestar á Ítalíu vildu banna þennan drykk sem þeim þótti djöfullegur útlits og bragðlega. En Clement VIII páfi var á öðru máli því honum þótti kaffið bragðast svo vel að hann lagði guðlega blessun yfir kaffið og hafði það þar með af Skrattanum.
Eftir þetta náði kaffidrykkjan miklum vinsældum í Evrópu og um hinn Vestræna heim og kaffihús spruttu upp eins og gorkúlur um alla helstu þéttbýlisstaði og voru þau orðin um 3000 talsins í lok 17.aldar á Englandi.
Ræktunin á kaffiplöntunni var í fyrstu algerlega á hendi ræktenda í Mið-Austurlöndun en eftir að vinsældir kaffisins jukust svo gríðarlega fór framleiðslan að dreifa sér á fleiri heimssvæði. Kaffi varð mjög verðmæt verslunarvara og Hollendingar fóru að rækta kaffi á eyjunni Jövu í Indónesíu og á Malbar á Indlandi á seinni hluta sautjándu aldar.
Árið 1714 gaf borgarstjóri Amsterdam Frakklandskonugni kaffiplöntu í vináttuheimsókn. Liðforingi úr franska sjóhernum komst yfir græðlinga af þessi plöntu og sigldi með hana til Martinique í Karabíska hafinu. Þessi græðlingur óx og dafnaði þar svo mjög að nú í dag er allt kaffi sem ræktað er í Braslíu og Kólombíu komið af þessu stolna græðlingi sem óx upp í Martinigue. Allir þekkja söguna síðan þá og er Brasilía helsta kaffiræktunarland í heiminum og kaffið er orðin jafn mikil hluti af lífi fólks á Vesturlöndum og það að bursta tennurnar.
Talið er að kaffi hafi borist til Íslands um miðja 18.öld og barst það frá Danmörku eins og margt á þessum tíma. Kaffi á Íslandi var fyrst bara yfirséttardrykkur. Það var ekki fyrr en um miðja 19.öld að kaffidrykkjan var orðin nokkuð almenn en þó var kaffið dýr munaðarvara. Kaffið var drukkið á tillidögum og margir bættu ýmsu í kaffið til að spara baunirnar, mest var notað af kaffibæti í kaffið. Kaffibætirinn var úr síkoríurót og var blandað saman við malað kaffi.
Árið 1760 var árlega kaffineysla Íslendinga um 20 kg en var árið 2014 um 2000 tonn eða rúmlega 6 kg af kaffi á hvern Íslending árlega. Við Íslendingar erum líklega með einum mestu kaffidrykkjuþjóðum í heimi því meðal neyslan í heiminum er um 1,3 kg á mann.
Kaffið hefur ýmis áhrif á líkama okkar til hins betra og einnig til hins verra og hér eru helstu kostir og gallar kaffis.
Kostir kaffis:
- Kaffi getur aukið afköst og árverkni með því að auka adrenalín í blóði.
- Talið er að kaffi geti stuðlað að grenningu með því að brenna fitu, stuðla að jafnari blóðsykri og minnka „craving“ í sykur og sætindi.
- Kaffi minnkar líkur á ótímabærum dauða. Rannsóknir virðast sýna að þeir sem drekka kaffi lifa lengur en þeir sem drekka ekki kaffi.
- Kaffi getur minnkað líkur á þvið að fá krabbamein eins og t.d. húð- og blöðruhálskirtilskrabbamein.
- Hóflega kaffidrykkja (2-4 bollar á dag) minnkar líkur á heilablóðfalli.
- Kaffi minnkar líkur á því að fá Parkinsons sjúkdóminn, Alzheimers og heilabilun.
- Kaffi inniheldur mikið af andoxunarefnum og er því gott fyrir frumur líkamans. Kaffikorgurinn er mjög næringarríkur og má lesa grein um það hér á síðunni.
- Kaffi hefur áhrif á skap okkar og örvar miðtaugakerfið og eykur virkni taugaboðefnanna serótónins, dópamíns og noradrenalíns.
Það er líka hin hliðin á peningnum og kaffi hefur sína ókosti líka:
- Ofneysla kaffis getur verið banvæn. Talið er að 10 g af koffíni sé bannvænn skammtur fyrir fullorðinn einstakling, það eru 100 mg af koffíni í hefðbundnum kaffibolla og þyrfti því um 100 bolla til að ná þessu magni (25 L). Það er enginn fullorðinn einstaklingur að ná þessari neyslu en það er eru dæmi um að unglingar hafi fengið koffíneitrun og jafnvel látist af neyslu orkuskota og orkudrykkja með mjög miklu koffínmagni.
- Kaffi getur valdið svefnleysi, stressi og eirðarleysi. Hér er það koffínið sem veldur þessu og þá sérstaklega hjá einstaklingum sem eru viðkvæmir fyrir koffínínu, því mikilvægt að þeir takmarki neysluna eða sleppi kaffnu. Hæfileg koffínneysla á dag eru um 400 mg sem eru um 4 bollar á dag og er það ágætis viðmið fyrir flesta og einnig að sleppa því að drekka kaffi eftir kl.16:00 ef þú þjáist af svefnleysi.
- Kaffi er óæskilegt fyrir barnshafndi konur og ætti að miða við einn bolla á dag á meðgöngu fyrir þær mæður sem voru miklir kaffisvelgir fyrir óléttuna. Koffín frásogast yfir fylgjuna til fósturs og því algjörlega galið að neyta mikils kaffis á meðgöngu.
- Kaffi getur stuðlað að hækkun slæma kólesterólsins (LDL). Kaffibaunir innihalda cafestol og kahweol sem hækka slæma kólesterólið. En með því að síja kaffi í hefðbundinn kaffivél með kaffipoka kemur að mestu í veg fyrir að cafestol og kahweol komist í kaffið.
Það verður líklega aldrei komist að niðurstöðu með það hvort kaffi sé hollt eða óhollt en þó er hæfileg kaffidrykkja (< 4 bollar á dag) bara krydd í tilveruna fyrir fullorðna einstaklinga sem eru ekki þungaðir eða þola koffínið illa.
Á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði er dvalargestum sem þar dvelja ekki boðið upp á kaffi og er það kaffibann frá þeim tíma sem Jónas Kristjánsson læknir stofnaði Heilsustofnun. En Jónas var mikill andstæðingur allra þeirra efna sem mögulegu gætu valdið heilsuleysi landsmanna s.s koffíns, nikótíns og sykurs.
Dvalargestir Heilsustofnunar geta þó sjálfir orðið sér úti um kaffi og er „kaffistofa“ þar sem þeir dvalargestir sem kjósa kaffið leggja pening í kaffisjóð og þar njóta þeir þessa forboðna drykkjar. Læknir á Heilsustofnun mæla með því fyrir mestu kaffisvelgina að þeir fái sér 1-2 kaffibolla að morgni til að koma í veg fyrir leiðinleg koffínfráhvörf fyrstu daga dvalarinnar með hausverk og þróttleysi.
Á Íslandi er að verða smá vísir að kaffibaunaræktun og hvet ég ykkur lesendur að kynna ykkur pistil Gurrýjar garðyrkjufræðings um kaffiræktun hér á landi og almennan fróðleik hennar um kaffiplötuna og vinnslu á kaffibaunum.
Heimildir:
https://is.wikipedia.org/wiki/Kaffi
https://www.visindavefur.is/svar.php?id=61338
http://www.vb.is/frettir/innflutningur-kaffi-aukist-um-60-tonn/113067/
https://www.popsci.com/science/article/2012-10/fyi-how-much-caffeine-would-it-take-kill-you
http://www.eatingwell.com/article/42679/health-reasons-to-drink-coffee-and-cons-to-consider/
https://nlfi.is/natturan/kaffibollinn-pistill-fra-gurry/
https://nlfi.is/heilsan/kaffikorgur-er-naeringarrikur/