Um langt skeið hafa ýmis gerviefni með mjög sterku sykurbragði verið notuð af sykursýkisjúklingum og öðrum, sem vilja sneiða hjá venjulegum sykri án þess að missa af sykurbragðinu.
Í ritum NLFÍ hefir verið varað við notkun slíkra efna, og það mun Jónas Kristjánsson læknir hafa gert fyrstur manna hér á landi. Í erlendum ritum, sem gefin eru út af formælendum náttúrulækningastefnunnar, birtast oft greinar um þetta, nú síðast í sænska tímaritinu Hälsa um svokallað Cyclamat, þar sem bent er á ýmis sjúkdómseinkenni, sem komið hafa fram í sambandi við þetta gerviefni.
Í erlendum læknaritum hafa oft birzt greinar um rannsóknir á þessum efnum, og þar ber allt að sama brunni: Í venjulegu magni í matvælum er ekki talin stafa nein hætta af hóflegri neyzlu þeirra.
Nú er þó komið annað hljóð í strokkinn af nýlegum fréttum að dæma. Cyclamati hefir á síðari árum verið blandað í ýmis matvæli og drykki, m.a. í gosdrykki, sem framleiddir eru hér á landi.
Er þetta m.a. ætlað sykursýkisjúklingum og feitu fólki. Tilraunir gerðar af bandarískum vísindamönnum hafa leitt í ljós, að þetta efni getur valdið vansköpunum og krabbameini í dýrum. Þessar niðurstöður hafa vakið gífurlega athygli og orðið til þess, að nýlega hefir verið lögð niður notkun þess í matvæli í Bandaríkjunum, Finnlandi og Svíþjóð.
Um þetta hafa að sjálfsögðu spunnizt harðar deilur. Framleiðendur efnisins hafa þarna mikilla hagsmuna að gæta, því að framleiðslan, sem hefir farið vaxandi ár frá ári, var komin upp í tíu milljónir kílógramma síðasta ár.
Enginn getur vitað, hve miklu heilsutjóni slík efni hafa þegar valdið. Því er jafnan haldið fram, þegar um eiturefni er að ræða, að ef magn þeirra í fæðutegundunum fari ekki yfir visst mark, stafi engum heilsutjón af þeim. Vera má, að þetta sé rétt, þegar um eina fæðutegund er að ræða. En sé efnið notað í mörg matvæli eða margar drykkjartegundir, er viðbúið, að neytendur fái í líkama sinn meira en hættulaust er.
Nú munu menn spyrja: Hvað á þá að nota í stað sykurs og gervisykurefna? Svarið er einfalt: Notkun sykraðra rétta eða drykkja er vanaatriði og ekkert annað, á sama hátt og notkun salts, pipars og annarra sterkra kryddefna. Hver maður getur vanið sig af sykurnotkun, þótt það kosti nokkra sjálfsafneitun í byrjun. Og hjá fáum er ástandið svo slæmt, að þeir megi ekki setja einhverja ögn af sykri í mat sinn. Málið er því ekki eins alvarlegt og ætla mætti.
Björn L. Jónsson
Tímaritsgrein Heilsuvernd (1. tbl. 1970)