Efalaust má telja Bircher-Benner lækni í Zürich einn hinn mesta lækni sinnar samtíðar. Hann var læknir af guðs náð, ef svo mætti að orði kveða, en jafnframt atkvæða vísindamaður, gæddur glöggum skilningi á það frumafl, sem ræður og stjórnar öllu lífi á jörðinni.
Bircher-Benner var ólíkur þeim læknum, sem líta á sjúkling eingöngu sem merkilegt sjúkdómstilfelli. Hann leit á hinn sjúka sem sálu og tilfinningu gædda veru, sem hann fann til með og vildi af alhug hjálpa og veita betri heilsu. Það var engu líkara en að þessi vilji gæfi anda hans innsæi í leyndardóma tilverunnar um orsakir heilbrigði og sjúkdóma. Hann var allra manna glöggskyggnastur á hið sanna samræmi hins andlega og líkamlega í hverjum manni. Þessvegna tókst honum að sjá það, sem aðrir sáu ekki, og að finna nýjar leiðir til bata, er hinar venjulegu brugðust.
Eg var svo heppinn að kynnast þessum merkilega manni á hans efri árum og starfi hans. Hann átti 4 efnilega sonu og konu, sem studdi hann af áhuga í starfi hans. Þrír sona hans urðu læknar, en hinn fjórði hagfræðingur og manneldisfræðingur og vann með honum frá unga aldri. Bircher-Benner andaðist árið 1939, og hafa synir hans síðan haldið áfram starfi hans.
Að svo miklu leyti sem mér er kunnugt, hefir Bircher-Benner fyrstur lækna, eða laust eftir síðustu aldamót, bent á það, sem nú er að verða sönnuð staðreynd, að brennsluhiti matvælanna eða hitaeiningar (kalóríur) eru ekki hinn rétti mælikvarði á næringargildi þeirra, heldur er það geislamagnið eða sólarorkan, sem jurtafæðan hefir öðlazt og varðveitt, og flytur þeim, er hennar neyta. Hins vegar eru dauðar eða lífi sviptar jurtir ófullkomin næring, hvað sem hitagildinu líður. Hinn rétti mælikvarði næringargildisins er því ljóseiningar.
Vér vitum, að blaðgrænan er hvorttveggja í senn, sköpun sólarljóssins og jafnframt verksmiðja, sem fangar sólargeislana og bindur þá og sameinar efninu í öllum hlutum jurtanna. Þessi sólarorka verður svo næring og viðhald alls lífs á jörðinni og um leið heilsugjafi. Án náttúrlegrar, lifandi næringar getur ekkert starf átt sér stað. Að tveim leiðum öðlast menn og dýr sólarorkuna, það er með næringu, sem gædd er sólarorku, og í öðru lagi með beinum áhrifum sólargeislanna á hörundið.
Sjúkdómar, sem sækja á menn og dýr, eru í flestum tilfellum ekki annað en röskun á þessu lífslögmáli. Menn verða sjúkir eða næmir fyrir sjúkdómum vegna neyzlu ónáttúrlegrar næringar. Ekkert annað en lifandi jurtanæring og mjólkin er náttúrleg fæða handa mönnum. Menn geta að vísu lengi lifað á hálfdauðri og ónáttúrlegri fæðu, en aðeins ónáttúrlegu og sjúku lífi, þegar til lengdar lætur. Þannig verður líkaminn sjúkur, og sinnið líka. Menn verða viðkvæmir eða næmir ekki aðeins fyrir hrörnunarsjúkdómum, heldur og fyrir afsýkjandi kvillum.
Í öðru lagi lagði Bircher-Benner mikla áherzlu á þá staðreynd, sem engum kemur til hugar að vefengja, en gefa þó oft engan gaum. Það er að sjúkdómar verða því aðeins læknaðir, að vitað sé um orsakir þeirra og þeim verði útrýmt. Mestur hluti allra læknisstarfa fer til þess að lækna sjúkdómseinkenni, án tillits til orsakanna. Afleiðing þeirra vinnubragða er vaxandi krankleiki. Þetta þarf að lagast, ef vel á að fara. Bircher-Benner játar sjálfur, að þar til að hann hafði starfað í allt að 6 ár, hafi sér ekki verið þetta ljóst. En þangað til hafi starf sitt verið neikvætt starf. Á því ári leitaði til hans sjúklingur, sem áður hafði verið árum saman til lækninga hjá öðrum læknum og hnignaði stöðugt. Fyrst notaði Bircher-Benner lyf, sem komu síður en svo að notum. — Hvorki magi né þarmar tæmdu sig. Það var ekki fyrr en farið var að nota náttúrlega lifandi jurtanæringu, sem lækningin komst vel á veg, og sjúklingurinn lifði nokkur ár eftir þetta alheill.
Svipaða sögu heyrði ég hinn lærða lækni prófessor Alfred Brauchle segja um móður sína. Á sextugs aldri fékk hún líkan sjúkdóm og hér var sagt frá. Hún varð alveg máttlaus og missti sjónina. Brauchle fór með móður sína til Berlínar, þar sem hann kallaði til hennar hina lærðustu sérfræðinga. En henni hnignaði því meir. Flutti hann hana þá til Zürich til Bircher-Benner. Þar fékk hún sjónina aftur, eftir að hafa nærst á lifandi, ósoðinni jurtafæðu í nokkra daga, og náði góðri heilsu. „Þetta varð til þess, að ég hvarf að náttúrulækningum, og hefi ég stöðugt fengið fleiri sannanir fyrir yfirburðum náttúrulækningastefnunnar fram yfir aðferðir háskólastefnunnar, sem einbeitir starfi sínu að lækningu sjúkdómseinkenna.“ (Í 4. hefti 1947 er ritgerð eftir próf. Brauchle ásamt mynd af honum og nokkrum inngangsorðum).
Á efri árum sínum var Bircher-Benner kallaður til London til fyrirlestrahalds. Kom hann þar á spítala einn, þar sem honum var sýndur sjúklingur, yfirkominn af liðagigt, sem svipt hafði hann öllum hreyfingarmætti. Gat sjúklingurinn hvorki hreyft legg né lið. Bircher-Benner gaf ráð til þess að lækna hann, koma honum á fætur og gera hann vinnufæran, án allra lyfja. Var tekin kvikmynd af framförum sjúklingsins, þar til hann gat gengið staflaust úti á götu. Sá ég þessa kvikmynd í Zürich árið 1938.
Bircher-Benner var einnig boðið til Berlínar til að flytja þar fyrirlestra fyrir lækna um starf sitt. Sagði hann þar frá árangri lækninga sinna með lifandi næringu, hvernig sjúklingar, sem voru langt leiddir eða illa komnir og engan bata höfðu fengið með lyfjanotkun, komust á fætur og náðu fullri starfshæfni. Minntist hann þar á það skop, sem ýmsir læknar hefðu gert að náttúrulækningum, án þess að hafa svo mikið sem reynt að kynna sér réttmæti og kosti þessarar lækningastefnu.
Bircher-Benner var þá frægur orðinn fyrir ritstörf sín og lækningar og vísindalega þekkingu, sem ekki varð mótmælt. Fór hann hörðum orðum um hið vaxandi lyfjaát, sem ekkert tillit tæki til orsakanna, heldur aðeins einkenna sjúkdómsins. Slíkar lækningar verðskulduðu ekki nafnið lækningar. Þær verkuðu stundum á líkama manna eða dýra sem svipuhögg, sem lama varnarmátt líkamans gegn hverskonar sjúkdómum, næmum og ónæmum. Sýndi Bircher-Benner með myndum breytingar á sjúklingum, bæði á undan og eftir lækningu með eðlilegri lifandi næringu. Meðal þeirra voru sjúklingar með berklaveiki.
Síðast talaði Bircher-Benner um ofnæmissjúkdóma, sem læknar víða líta á sem óviðráðanlegan kvilla. Sýndi hann fram á, að þessir sjúkdómar stafa flestir af orsökum, sem mætti lækna og koma í veg fyrir með lifandi og náttúrlegri jurtanæringu og hreinsun blóðsins. Þeirra á meðal má telja eksem, astma og flogaveiki (epilepsi) og jafnvel marga geðsjúkdóma.
Lauk hann máli sínu með því að fullyrða:
1. Að ónáttúrleg og dauð fæða og eiturnautnir væru höfuðorsakir sjúkdóma, bæði hrörnunarsjúkdóma og næmra sjúkdóma. Nefndi hann sem orsakir hvítt hveiti, hvítan sykur, krydd, áfengi, tóbak, kaffi, ofneyzlu á kjöti, fiski og eggjum og eggjahvítu yfirleitt.
2. Að endurskipun matar- og lifnaðarhátta væri framtíðarverkefni læknisfræðinnar.
3. Að sjúkdómavarnir verði fyrst og síðast að grundvallast á réttri næringu og heilbrigðum lífsvenjum.
Svissneska ríkið hefir látið reisa heilsuhæli í Zürich, þar sem náttúrulækningar í anda Bircher-Benner eru framkvæmdar undir stjórn sona hans. Þetta er viðurkenning og þakklætisvottur til læknisins Bircher-Benner fyrir hið merka brautryðjandastarf hans í þágu alþjóðar.
Þessi grein birtist í 2. tbl. Heilsuverndar 1949.