Heilsueflandi samfélag
Landsþing hvetur stjórnvöld til að stuðla að heilsueflandi samfélagi. Hæfileg hreyfing, nægur svefn, hvíld, hollt mataræði og jákvæð félagsleg gildi eru lykill að velferð. Samvera foreldra og barna er mikilvæg þroska barnanna og líðan.
Landsþing hvetur foreldra og skólayfirvöld til að huga að óhóflegri notkun snjallsíma bæði í skólum og á heimilum.
Vímuefni – vímulyf
Landsþing NLFÍ hvetur til aukinnar fræðslu um skaðsemi áfengis, tóbaks og ólöglegra vímuefna sem sífellt er auðveldara aðgengi að hér á landi. Aukin misnotkun ávanabindandi lyfseðilsskyldra lyfja er sérstakt áhyggjuefni.
Landsþingið hvetur stjórnvöld einnig til að vara við notkun rafrettna en sýnt hefur verið fram á að efni í þeim séu skaðleg heilsu fólks.
Lífrænt vottuð framleiðsla og merkingar matvæla
Landsþing NLFÍ hvetur stjórnvöld til að móta stefnu um eflingu lífrænnar framleiðslu á Íslandi og að styðja við lífræna aðlögun í landbúnaði.
Landsþing bendir á að tryggja þarf að ákvæðum reglugerðar um merkingar á matvælum sem framleidd eru úr erfðabreyttum lífverum og afurðum þeirra sé framfylgt. Tryggja þarf að upprunamerkingar matvæla séu réttar og greinilegar.
Lækningar og viðbótarmeðferðir
Landsþing NLFÍ hvetur til aukinnar samþættingar hefðbundinna lækninga og viðbótarmeðferða. Með viðbótarmeðferð er átt við meðferð sem ekki hefur verið talin hluti af hefðbundinni heilbrigðisþjónustu. Sýnt hefur verið fram á að ýmsar viðbótarmeðferðir nýtast samhliða hefðbundinni meðferð.
Umhverfis- og loftslagsmál
Landsþing NLFÍ hvetur stjórnvöld til að standa vörð um ósnortin víðerni í náttúru Íslands og fyrirbyggja að mikill ágangur ferðamanna skaði viðkvæma náttúru landsins. Vitundarvakning þarf að eiga sér stað varðandi notkun einnota plastumbúða. Auka þarf og samræma flokkun og endurvinnslu.
Landsþing NLFÍ hvetur íslensk stjórnvöld að grípa tafarlaust til afdráttarlausra og öflugra aðgerða til að snúa við þeirri ógnvænlegu þróun sem nú blasir við í loftslagsmálum og ógnar öllu lífríki.
Endurhæfing
Heilsustofnun hefur í áratugi vakið athygli á heildrænni meðferð í endurhæfingu sem byggir á hreyfingu, hvíld og heilsusamlegu mataræði og að einstaklingurinn beri ábyrgð á eigin heilsu. Sjálfbærni og samfélagsleg ábyrgð eru hornsteinar Heilsustofnunar.