Þjóðarstolt Íslendinga hefur náð áður óþekktum hæðum í ljósi frábærrar frammistöðu íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á EM í Frakklandi. Fólk sem aldrei hefur haft svo mikið sem snefil af áhuga fyrir fótbolta er farið að tala af sérfræðiþekkingu um knatttækni fótboltamanna, stoðsendingar og hornspyrnur og við hvaða tækifæri menn séu rangstæðir. Bláókunnugt fólk stöðvar hvert annað á förnum vegi, óskar til hamingju með árangurinn og fellst jafnvel í faðma. Veðurfar, sem fram til þessa hefur verið einn helsti ísbrjóturinn í samtölum fólks, er nú rokið í veður og vind og allir tala um fótbolta. Stór hluti þjóðarinnar lætur ekki duga að tala um boltann heldur sýnir stuðning sinn einnig í verki. Nær allar flugvélar íslenska flugflotans hafa myndað loftbrú milli Íslands og Frakklands og anna þó ekki eftirspurn. Heyrst hefur að hugmyndaríkir menn séu að velta fyrir sér að leigja varðskip og fylla það Íslendingum, sigla svo hraðbyri til Frakklands og vonast til að túristarnir hagi sér hér heima á meðan.
Ísbláar fótboltatreyjur seljast upp í bílförmum og hafa fatahönnuðir stokkið fagnandi inn á þennan nýja fánalitamarkað með margvíslegan fatnað svo sem kjóla, jakkaföt, brjóstahaldara og sokka svo stuðningsmennirnir geti sýnt hollustu sína yst sem innst.
Garðeigendur geta svo sannarlega sýnt samstöðu með landsliðinu og öðrum landsmönnum með vali á heppilegum garðplöntum.
Nokkrar tegundir sumarblóma eru með blóm í réttum litum og ættu því að sjálfsögðu að vera staðalbúnaður í görðum landsmanna. Kornblómið, með sín himinbláu blóm er þar ofarlega á lista. Blóm kornblóma standa vel og þola vel veður og vinda, þrátt fyrir að plönturnar geti orðið nokkuð háar. Í þessari tegund endurspeglast sá kostur landsliðsins að láta ekki hugfallast þótt móti blási, bognar en brotnar ekki og kemur til baka af fullum krafti við fyrsta tækifæri. Heiðbláar stjúpur eru sérlega blómviljugar og skreyta garða landsmanna langt fram á haust með blómskrúði sínu. Hvert blóm stendur kannski ekki lengi en þær eru sérstaklega duglegar að koma alltaf með ný blóm sem standa fyllilega jafnfætis þeim gömlu að gæðum. Þær þurfa sólríkan og bjartan stað og verða því fallegri sem jarðvegurinn er frjósamari. Úr stjúpunum má því lesa mikilvægi þess að hlúa vel að ungviðinu til að undirbúa það undir blómatíma sinn, sérfræðingar á sviði knattspyrnu meta það svo að nú sé þjóðin að uppskera eins og til var sáð í ungmennastarfi íþróttafélaga.
Mynd af fallega blómstrandi og bláu kornblómi.
Af fjölærum garðblómum kemur blásólin fyrst upp í huga með sín risastóru blóm og upprétt og þokkafullt vaxtarlag. Blásólin vill gjarnan vera í hálfskugga en þolir svo sem alveg sólarljósið ef jarðvegurinn er heppilegur fyrir hana. Hún er töluvert hávaxin en þarf þó ekki stuðning til að standa keik og óstudd. Hún minnir okkur á að góður varnarmaður getur hæglega stolið sviðsljósinu ef nauðsyn krefur og breytt þannig gangi leiksins til hins betra. Fagurblágresi er harðger og dugleg þekjuplanta sem myndar þéttar blaðbreiður. Upp úr blaðbreiðunum standa svo stór, fagurblá blóm með rauðfjólubláar æðar í blómblöðunum. Eins og önnur blágresi er það nokkuð skuggþolið en blómstrar meira ef það fær beina sól. Þann lærdóm má draga af eðli fagurblágresisins að rétt staðsetning leikmanna á vellinum er nauðsynleg til að þeir hafi á hverjum tíma tækifæri til að nýta þekkingu sína og færni til hins ítrasta.
Mynd af fallega blómstandi blásólum.
Af íslenskum blómplöntum er þó ein planta sem ber höfuð og herðar yfir allar þær ljómandi góðu útlendu plöntur sem hér hafa verið nefndar að ofan. Sú íslenska planta heitir steindepla. Steindepla er ekki mest áberandi plantan í flórunni og stundum sér maður hana ekki fyrr en maður hrasar óvænt í gönguferð og rekur nefið ofan í plöntuna, hún er svo lágvaxin. Blóm steindeplunnar eru ekki nema tæpur sentimetri á breidd en þau eru svo sannarlega í íslensku fánalitunum. Blómblöðin eru himinblá utantil, rétt fyrir neðan miðju er svo rauð þverrönd í hverju krónublaði og neðst eru þau hvít. Er hægt að hugsa sér betri samsetningu?
Mynd af hinni smávöxnu steindeplu.
Þessi pistill er farinn að hljóma eins og argasti þjóðrembingur en það verður bara að hafa það! Áfram Ísland!
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur