„Staðfest er að fjárveiting til Heilsustofnunar sé innan við helmingur af því sem aðrir fá fyrir sambærilega þjónust,“ segir Þórir Haraldsson forstjóri Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði í aðsendri grein í Morgunblaðinu 19. nóvember 2025.
Þórir segir að Heilsustofnun hafi uppfyllt öll ákvæði þjónustusamnings við ríkið um endurhæfingu sem upphaflega var gerður árið 1991. Stofnunin þjóni 1.350 einstaklingum árlega og verið til fyrirmyndar í veitingu upplýsinga að sögn Sjúkratrygginga Íslands. „Þrátt fyrir þetta hefur Heilsustofnun ekki notið sannmælis í greiðslum fyrir þjónustu sína og þannig hefur að okkar mati verið gróflega brotið gegn jafnræði.“
Forstjóri Sjúkratrygginga Íslands staðfesti þetta í bréfi til heilbrigðisráðherra 28. nóvember 2016. „Samanburður leiðir í ljós að fjárveiting ríkisins á hvern meðferðartíma í þverfaglegri endurhæfingu er ríflega tvöfalt hærri til Reykjalundar en til Heilsustofnunar.“
Þetta var staðfest í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis árið 2018. „Samkvæmt samanburði Sjúkratrygginga var framlag ríkisins á hvern meðferðartíma í þverfaglegri endurhæfingu ríflega tvöfalt hærra til Reykjalundar en til sambærilegrar þjónustu hjá Heilsustofnun.“
Þórir segir að staðan sé óbreytt. „Eftir ítarlega skoðun komst SÍ að þeirri niðurstöðu í apríl sl. að Heilsustofnun væri vanfjármögnuð bæði að því er varðar þjónustu og viðhald húsnæðis og lagði til að framlög yrðu hækkuð. Þannig hafa opinberir aðilar staðfest misréttið. Ofan á þetta verða sjúklingar á Heilsustofnun fyrir hrópandi misrétti því þeir þurfa að greiða allt að 250 m.kr. á ári fyrir meðferðarkostnað, til viðbótar við greiðslu fyrir fæði og gistingu, sem ekki þarf í endurhæfingu annars staðar á heilbrigðisstofnunum, s.s. á Reykjalundi eða í Kristnesi.“
Þórir Haraldsson segir að þessi vanfjármögnun hafi gert það að verkum að Heilsustofnun hafi setið eftir á mörgum sviðum. „Okkar 100 starfsmenn hafa sífellt þurft að hlaupa hraðar og skila meiri vinnu til að sjúklingar fái bestu mögulegu þjónustu, fagleg framþróun, gæðastarf og nýjungar hefur setið á hakanum sem ógnar framtíðartilvist þjónustunnar. Þá hefur ekki verið hægt að sinna nauðsynlegu viðhaldi og endurnýjun á þeim 12 þúsund fermetrum af húsnæði sem Heilsustofnun starfar í en brýn þörf er á endurnýjun elsta hluta húsnæðisins sem er byggt á árdögum stofnunarinnar um 1955.“
