Á vef Fjarðarkaupa er uppskrift af litríku grísku kjúklingasalati með stökkum grillosti. Ég einfaldaði hana aðeins og notaði egg og hnetur í stað gúrku og avókadó eða lárperu eins hún heitir á ástkæra ylhýra. Notaði líka kjúklingalæri í stað bringu. Hafði naan brauð með og einfalda myntusósu.
Þú þarft:
- 700 g úrbeinuð kjúklingalæri
- 1 poki klettasalat
- 1 rauðlaukur
- 1 stk grillostur
- 1 glas litlir tómatar
- Svartar ólífur að vild
- hnetur að vild
- 6 egg
Aðferð:
- Látið kjúklingalærin marínerast í olíu í minnst hálftíma ásamt matskeið af ediki, hunangi og oreganó. Gott að bæta við aðeins af salti, pipar, skornum hvítlauk og myntu. Steikið kjúklinginn á grillpönnu og skerið í sneiðar þegar hann hefur kólnað aðeins.
- Rífið grillostinn niður og látið hann steikjast varlega á pönnu. Snúið honum við þegar hann orðinn fallega gullbrúnn. Rífið hann niður í munnbita.
- Salatið er þvegið með smá sítrónusafa eða ediki til að gefa smá bit. Rauðlaukurinn skorinn í sneiðar og blandað við salatið. Tómatar og ólífur eru skornar í tvennt. Eggin soðin og skorin til helminga. Hneturnar ristaðar á þurri pönnu. Ég notaði jarðhnetur eða peanut en kasjúhnetur eða cashew eru örugglega ekki síðri.
- Raðið fallega í skál. Salatið og laukurinn neðst en annað eins og listrænn smekkur leyfir.
Mynd: Pálmi Jónasson