Sumarið 1937 stofnaði Jónas Kristjánsson læknir Náttúrulækningafélag á Sauðárkróki. Fyrsti hvatamaður þess var Björn Kristjánsson, stórkaupmaður, sem haft hefir mikil kynni af náttúrulækningastefnunni í Þýzkalandi og Sviss. Sumarið eftir ferðaðist Jónas Kristjánsson um Þýzkaland og Sviss og kynntist stefnunni og lækningaaðferðum ítarlegar en hann hafði áður átt kost á.
Haustið 1938 flutti hann svo alfarinn frá Sauðárkróki og settist að í Reykjavík. Þar stofnaði hann Náttúrulækningafélag Íslands veturinn eftir. Félagið á Sauðárkróki var þannig vísirinn að NLFÍ. Við brottför J.K. lagðist það niður sem sjálfstætt félag, en flestir eða allir félagar þess gengu í NLFÍ.
Stofnfundur félagsins var haldinn 24. jan. 1939. Stofnendur voru 30.
Fyrsta stjórn var: Jónas Kristjánsson, læknir, forseti, og meðstjórnendur: Axel Meinholt, kaupmaður, Hjörtur Hansson, stórkaupmaður, Sigurður Á. Björnsson, framfærslufulltrúi og Sigurjón Pétursson, verksmiðjustjóri.
Síðan hefir félagatalan verið sem hér segir í lok hvers árs:
1940 – 103
1941 – 145
1942 – 184
1943 – 461
1944 – 1388
1945 – 1597
Ævifélagar eru 82.Tvö síðustu árin eru félagar í deildinni á Akureyri taldir með, en þeir eru um 100. Sú deild var stofnuð 27. ágúst 1944.
Stjórn félagsins skipa nú:
Forseti Jónas Kristjánsson, læknir
Varaforseti Björn L. Jónsson, veðurfræðingur
Ritari Axel Helgason, lögregluþjónn
Gjaldkeri Hjörtur Hansson, stórkaupmaður
Vararitari Sigurjón Pétursson, verksmiðjustjóri
Starfsemi félagsins er orðin allfjölþætt, og skal nú getið þess helzta. Félagsfundir eru haldnir mánaðarlega að vetrinum. Þar eru m.a. flutt fræðandi erindi um heilbrigðismál og skyld málefni, sagðar eða lesnar frásagnir af reynslu manna, gefnar leiðbeiningar um mataræði og matvæli, auk frjálsra umræðna.
Síðustu 3 árin hafa verið haldnir skemmtifundir einu sinni á vetri. Þá hefir þrjú undanfarin sumur verið efnt til grasaferða.
Útgáfustarfsemi félagsins hófst árið 1941. Þá kom út „Sannleikurinn um hvítasykurinn“. Ætlunin var að gefa út a.m.k. eina bók á ári, en ýms atvik urðu þess valdandi, að 4. ritið, „Nýjar leiðir II“, kom ekki út fyrr en í vetur. Og nú er tímarit félagsins loks að hefja göngu sína. Eigi að síður mun verða haldið áfram að gefa út bækur eða smárit. Í því sambandi skal þess getið, að Are Waerland hefir boðið félaginu ókeypis rétt til þýðingar og útgáfu á öllum bókum hans og ritum.
Matstofa félagsins tók til starfa 23. júní 1944, og hefir rekstur hennar gengið mjög að óskum. Aðsókn er mjög mikil, svo að vísa verður fjölda manns frá. Ráðskona matstofunnar, frk. Anna Guðmundsdóttir, mun kynna sér matreiðslu og meðferð grænmetis og annarra fæðutegunda í Svíþjóð og Danmörku í sumar. Fyllri upplýsingar um matstofuna er að finna í „Nýjum leiðum II“. Framleiðsla grænmetis.
Í ársbyrjun 1945 voru fest kaup á gróðurhúsum í Laugarási í Biskupstungum. Vegna þess að félagið hafði ekki bolmagn til kaupanna af eigin ramleik, var stofnað hlutafélagið „Gróska“, með matstofunni og félaginu sem stærsta hluthafa. Hluthafar sitja fyrir um kaup á tómötum og öðru grænmeti þaðan með kostnaðarverði. Lögð verður áherzla á að framleiða handa matstofunni ýmsar tegundir grænmetis, sem ekki eru fáanlegar annarsstaðar, og reynt að hafa nýtt grænmeti allan veturinn.
Heilsuhæli – Eitt af veigamestu markmiðum félagsins er að koma á fót heilsuhæli. Í því skyni hefir verið stofnaður sjóður, og verður skipulagsskrá hans birt síðar hér í ritinu, en hana er að finna í B-deild Stjórnartíðinda, árið 1944, bls. 111. Í sjóðnum eru nú 56 þúsund krónur. Til þess að afla sjóðnum tekna, hafa verið gefin út minningarspjöld. Formaður sjóðsstjórnar er frú Matthildur Björnsdóttir, kaupkona. Afmælissjóður Jónasar læknis Kristjánssonar. Á 75 ára afmæli Jónasar Kristjánssonar gekkst stjórn félagsins fyrir samsæti, sem honum var haldið í Tjarnarcafé 20. sept. 1945. Þar var hann kjörinn fyrsti heiðursfélagi NLFÍ. Ennfremur voru honum afhentar frá félagsmönnum 15 þús. krónur að gjöf, sem hann ákvað að leggja í sjóð til styrktar læknum eða læknaefnum til að kynna sér náttúrulækningar erlendis, og er sjóðurinn eign félagsins.
Bókasafn – Með gjafabréfi ds. 23. okt. 1944 hefir Jónas Kristjánsson læknir ánafnað félaginu eftir sinn dag hátt á annað hundrað bækur um heilbrigðismál og náttúrulækningar. Ennfremur hefir stjórn félagsins keypt allmikið af bókum og tímaritum um sama efni.
Um framtíðarstarfsemi félagsins skal þetta tekið fram: Verzlun hefir stjórn félagsins í hyggju að koma á fót sem fyrst, þar sem verða á boðstólum heilnæmar matvörur o.fl. Heimsókn Are Waerlands. Frá henni er skýrt á öðrum stað í ritinu.
Úr tímaritinu Heilsuvernd, 3. tbl. 1947.